Ný ferja ein lykilforsendan fyrir því að Landeyjahöfn gæti virkað

26.Maí'15 | 16:10

Í dag var tilkynnt um að ríkisstjórnin hafi á fundi sínum í morgun samþykkt að fara í útboð á nýrri Vestmannaeyjaferju. Eyjar.net grennslaðist fyrir um málið hjá bæjarstjóra og segir hann m.a að bæjarstjórn hafi ætíð verið skýr á því að smíði á ferju sé nauðsynleg en ekki nægjanleg forsenda fyrir því að samgöngur verði ásættanlegar.

Vonir okkar standa til að með þessu verði stigið skref í átt að því að bæta samgöngur enn meira en nú þegar hefur verið gert.  Eins og allir vita þá var ný ferja ein af lykilforsendan fyrir því að Landeyjahöfn gæti virkað og það er löngu kominn tími til þess að hún verði smíðuð og þjóni Eyjunum, segir Elliði og heldur áfram:  Árið 2008 tóku þáverandi stjórnvöld ákvörðun um að fresta Eyjaferju og nota núverandi Herjólf þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir. Ég man það glöggt að þá sagði Siglingastofnun að það væri möguleiki að Herjólfur gæti siglt með frátöfum yfir sumarið en ekki þýddi að reyna það vetrartímann.  Siglingastofnun benti líka á að dýpið væri á 8 ára sveiflutíma.  Þ.e.a.s. að dýpið hafi veri mest árið 2006 en yrði svo grynnst árið 2014.  Svo vitnað sé í orð siglingastofnunar frá 2008:

„Að Herjólfur sigli lengur en til 2013 er ekki talið fýsilegt vegna þess að dýpið á sandrifinu fyrri utan Landeyjahöfn verður líklega undir 6m þegar árið 2012 þannig að frátafir með Herjólfi fara upp fyrir ásættanleg mörk eftir þann tíma.“

Það þarf ekki að útskýra fyrir okkur Eyjamönnum að þetta hefur því miður gengið eftir og siglingar veturinn 2014 til 2015 okkur óþægilega fersku minni.

Við í bæjarstjórn höfum hinsvegar ætíð verið skýr á því að smíði á ferju sé nauðsynleg en ekki nægjanleg forsenda fyrir því að samgöngur verði ásættanlegar. Það þarf að sjálfsögðu einnig að gera breytingar á ýmsu sem snýr að höfninni og þar ber hátt það sem snýr að dýpinu.  Við viljum því að smíðatími skipsins verði nýttur til að gera nauðsynlegar breytinga þannig að þegar nýja skipið kemur verði tekið stórt skref í að nýta höfnina meira, segir Elliði.

 

Ert þú viss um að eftir að nýja skipið kemur verði vandi Landeyjahafnar úr sögunni?

Nei þvert á móti þá er ég eiginlega viss um að vandinn verði enn til staðar en vonir standa til að hann verði umtalsvert minni en nú er. Ég er þess fullviss að Landeyjahöfn verður ekki eins og hún er núna eftir tvö ár.  Ég er þess líka fullviss að eftir 15  til 20 ár verður höfnin allt öðruvísi.  Staðreyndin er sú að fyrir 15 til 20 árum var ekki hægt að gera höfn í Bakkafjöru.  Verkfræði og tækniþekking leyfði það einfaldlega ekki.  Fyrir 10 árum töldu menn það mögulegt.  Menn smíðuðu eins góða höfn og verkfræðilegþekking gerði þeim unnt.  Þá höfn höfum við í dag með þeim takmörkum sem við þekkjum.  Eftir einhver ár verður þekkingin orðin meiri og þá verður höfninni breytt.  Um það efast ég ekki. 

Hvorki ég né aðrir vilja hinsvegar búa við núverandi ástand þangað til, með Herjólf dansandi í hafnarminninu og gríðarlegum frátöfum. Í þessu samhengi vil ég líka enn og aftur hvetja fólk til að virða ákvarðanir skipstjóra Herjólfs um hvenær hægt sé að sigla í Landeyjahöfn og hvenær ekki.  Höfum það hugfast að þeir eru nú þegar búnir að gera langtum meira á þessu skipi en nokkur gat ætlast til. Gefum þeim vinnufrið.

 

Hver eru nú næstu skref?

Næstu skref eru að tryggja að hið nýja skip verði strax boðið út.  Við megum engan tíma missa í viðbót við öll þessi ár sem þegar eru farin í súginn.   Við þurfum líka að fylgja því eftir að aukin áhersla verði nú lögð á að breyta því sem snýr að höfninni og dýpkunarmálum þannig að það sé ekki eftir þegar nýja ferjan kemur.  Við þurfum líka að huga vandlega að því að núverandi Herjólfur verði hér áfram amk. fyrstu mánuðina eftir að nýja skipið kemur enda þekkjum við að það koma oft upp vandamál þegar byrjað er að nota nýsmíði sem þessa. 

Áherslu þarf einnig að leggja á að tryggja að ferðum verði fjölgað verulega enda skipið umtalsvert minna en við teljum þörf á.  Þessi ákvörðun styttir því ekki vinnutíma bæjarfulltrúa heldur lengir hann. Vonandi hið sama við okkar góðu þingmenn, segir bæjarstjóri að lokum í samtali við Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.