Fræðsluráð:

Aðgerðaráætlun til styrktar dagforeldrum

Eitt dagforeldri heldur áfram störfum næsta haust að öllu óbreyttu

14.Maí'15 | 05:33

Dagforeldra vantar til að annast börnin

Á fundi fræðsluráðs í vikunni voru kynntar tillögur stýrihóps um stöðu leikskóla og dagvistarmála Vestmannaeyjabæjar. Fjöldi dagforeldra í Vestmannaeyjum hefur verið á bilinu 2 - 5 á undanförnum árum en n.k haust stefnir í að einungis eitt dagforeldri haldi áfram störfum.

Bókun ráðsins er sem hér segir:

Staða leikskóla og dagvistarmála.

Fjöldi dagforeldra í Vestmannaeyjum hefur verið á bilinu 2 - 5 á undanförnum árum. Hefur það nægt til að mæta daggæsluþörf fyrir börn frá 6 mánaða aldri og þar til börnin komast að í leikskóla. Foreldrar 46 væntanlegra leikskólabarna, sem verða orðin 18 mánaða 1. september n.k., hafa fengið loforð fyrir plássi í haust.

Þar sem skortur hefur verið á daggæsluforeldrum samþykkti Vestmannaeyjabær að setja upp tímabundið bráðabirgðaúrræði á gæsluvellinum Strönd í vetur. Þar hafa 10 börn verið í daggæslu. Einnig njóta 20 börn þjónustu daggæsluforeldra í heimahúsum. Vestmannaeyjabær kemur til móts við foreldra barna hjá dagforeldrum með niðurgreiðslum daggæslugjalda fyrir börn einstæðra foreldra frá 6 mánaða aldri og fyrir börn foreldra í sambúð frá 12 mánaða aldri.

Nú liggur fyrir að einungis eitt dagforeldri heldur áfram störfum næsta haust að öllu óbreyttu. Það leiðir til þess að skortur verður á dagvistunarúrræðum sem kemur í veg fyrir að foreldrar komist út á vinnumarkaðinn. Til að bregðast við þessum yfirvofandi aðstæðum stofnaði fræðsluráð stýrihóp sem fékk það hlutverk að fara yfir daggæsluúrræðin í heild, meta stöðuna og leita lausna til skemmri og lengri tíma.

Stýrihópurinn hefur fundað og farið yfir stöðu daggæslumála. Rætt hefur verið við núverandi dagforeldra og farið yfir rekstrarforsendur. Stýrihópurinn telur mikilvægt að leita allra leiða til að styrkja dagforeldrakerfið sem mótvægi við leikskóla. Fjölga þarf dagforeldrum með því að gera starfið meira aðlaðandi bæði út frá rekstrarlegum og ekki síður faglegum forsendum. Hópurinn setur fram eftirfarandi aðgerðarþætti til að styrkja dagforeldra og gera þeim sem áhuga hafa á að starfa sem slíkir auðveldara fyrir:

  • Dagforeldrum verði boðinn byrjendastyrkur fyrstu tvö árin, 75.000 krónur hvort ár.
  • Boðið verði árlega upp á 50.000 kr. leikfangastyrk
  • Boðið verði upp á námskeið við upphafi starfseminnar
  • Dagforeldrar fá aðgang að íþróttasal í Íþróttamiðstöðinni einu sinni í viku.
  • Boðið verði upp á sameiginlegan samkomusal fyrir dagforeldra einu sinni í viku
  • Boðið verði árlega upp á endurmenntun, námskeið eða fræðsluerindi fyrir dagforeldra þeim að kostnaðarlausu


Allir styrkir eru háðir tveimur skilyrðum; annars vegar að viðkomandi starfi í a.m.k eitt ár og miði að því að veita þjónustu á sama tíma og leikskólarnir og hins vegar að dagforeldrar miði inntöku barna í dagvistarúrræði við aldursröð í samráði við skólaskrifstofu. Fræðslufulltrúa er falið að útbúa sérstakt umsóknareyðublað/samning fyrir dagforeldra þar sem þessir þættir koma fram. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir verði um 650.000 kr.

Tillögur þessar eru ætlaðar til þess að koma í veg fyrir brottfall meðal dagforeldra og auka við stöðugleika í þeirra þjónustu bæði til skemmri og lengri tíma. Fræðsluráð felur fræðslufulltrúa að auglýsa eftir dagforeldrum miðað við tillögur stýrihópsins með þeim fyrirvara að bæjarráð og/eða bæjarstjórn samþykki fjármögnun. Fræðsluráð leggur einnig til að stýrihópurinn starfi áfram og fylgist með framgangi mála. Mikilvægt er að meta stöðuna aftur í byrjun júlí 2015 og grípa til frekari aðgerða ef þörf þykir, segir í bókun fræðsluráðs.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%