Frá forstjóra HSU:

Ástandið er orðið grafalvarlegt

14 undanþáguheimildir alls

13.Maí'15 | 13:15

Nú hefur verkfall BHM staðið í um 6 vikur. Verkfallið hefur þegar haft veruleg áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar. Starfsemi rannsóknarstofunnar dróst saman um 70% í apríl vegna verkfalls lífeindafræðinga. Engar rannsóknir eru framkvæmdar á röntgendeildinni nema í bráðatilfellum að fenginni undanþáguheimild eða vegna útkalla bakvaktar eftir kl. 16:00 á daginn, vegna allsherjarverkfalls geislafræðinga.

Ekki kunnugt um að sjúklingar hafi orðið fyrir skaða

Alls hefur HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum fengið 14 undanþáguheimildir alls vegna bráðatilvika til myndgreininga að öðru leyti liggur starfsemi röntgendeildarinnar niðri eins og áður sagði. Einnig hafa 29 undanþágur verið veittar vegna blóðrannsókna sem ekki þola bið. Ljóst er að verkfallið er þegar farið að hafa alvarleg áhrif á framvindu meðferðar margra sjúklinga sem þurfa að þola bið eftir svörum sem mögulega varða næstu skref í meðferð.  Ástandið er því orðið grafalvarlegt. Ef verkfallið varir áfram mun HSU ekki geta tryggt sjúklingum bestu meðferð og getur ekki ábyrgst öryggi allra sjúklinga. Framkvæmdastjórn HSU er ekki kunnugt um að sjúklingar hafi orðið fyrir skaða vegna verkfallsins.

Bætist verkfall hjúkrunarfræðinga við, mun HSU ekki geta tryggt gæði í meðferð og öryggi sjúklinga verður ógnað

Til viðbótar við verkfallsástandið sem nú ríkir hefur verið boðað til í allsherjarverkfalls hjúkrunarfræðinga frá og með 27. maí n.k. nema að gengið hafi verið frá kjarasamningi fyrir þann tíma. Verkfall hjúkrunarfræðinga yrði HSU geysilega erfið viðbót við yfirstandandi verkföll lífeinda- og geislafræðinga og ljósmæðra. Því er alveg ljóst að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga mun draga úr getur HSU til að sinna þörfum sjúklinga og meðhöndla einkenni. Verkfallið mun hamla getu okkar við að bregðast við ástandi sjúklinga og veita viðunandi meðferð. Ef núverandi verkföll munu vara áfram og við bætist verkfall hjúkrunarfræðinga mun HSU ekki geta tryggt gæði í meðferð og öryggi sjúklinga verður ógnað. Við óttumst það ástand sem þá gæti skapast en munum tryggja alla bráðaþjónustu eins og kostur er.  Aðgerðir eru í undirbúningi á HSU til að bregðast við yfirvofandi verkfalli. Samningsaðilar eru hvattir til að leysa kjaradeildur heilbrigðisstétta sem fyrst og ganga hratt til samninga svo forða megi því að skaði hljótist af fyrir sjúklinga sem njóta meðferðar á HSU.

 

Með kveðju,

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.