Alfreð Alfreðsson skrifar:

Tíundi ferðamaðurinn

- í lok mars

30.Apríl'15 | 16:16

Það gladdi hjarta mitt þegar ég sá það í fréttum að ferðaiðnaðurinn á Íslandi væri orðinn burðarás hagkerfisins. Milljónasti túristinn að skríða inn um hlið flugstöðvar Leif Eiríkssonar og jafnvel óbyggð hótel orðin fullbókuð.

Hver rútan af annari fullbókuð ferðamönnum sem stara hver um annan þverann upp í loftið í leit að norðurljósum. Þvílík gósentíð, Clondike æði runnið á landann.

Fyrir mig sem bý í Vestmannaeyjum og starfa við ferðaþjónustu er það sorglegt að horfa á þessa bylgju líða hjá án þess að vera þátttakandi í ævintýrinu. Landeyjahöfn, mannvirkið sem átti að leysa öll samgönguvandamál Vestmannaeyinga í eitt skipti fyrir öll hefur því miður reynst andstæða þess sem hún átti að vera. Höfnin hefur nýst vel sem sumarhöfn, en er lokuð lungað úr vetrinum, Eyjamönnum og ferðaþjónustuaðilum til mikils ama, svo ég tali ekki um framleiðendur matvæla sem þurfa að koma vörum sínum fljótt og örugglega á áfangastað uppi á landi.

Farþegaferjan Víkingur hefur verið með samning við Vegagerðina vegna siglinga með farþega í Landeyjahöfn frá áramótum. Skipið hefur einungis getað siglt nokkrum sinnum vegna grynninga í höfninni, þegar jafnvel er sléttur sjór fyrir utan brýtur svo í hafnarmynninu að skipinu er ekki leyfilegt að sigla þangað inn. Vegagerðin hefur tvisvar sent illa útbúin og háöldruð dýpkunarskip Björgunar til málamyndadýpkunar án þess að það hafi nokkur áhrif. Þessi vitleysa er til skammar og illa farið með almannafé.

Bregðast þarf hratt við

Þangað til endanleg ákvörðun hefur verið tekin varðandi framtíð samgangna til Vestmannaeyja er nauðsynlegt að brugðist verði hratt við varðandi komandi vetur. Það gerist einungis með því að höfnin verði sandhreinsuð eins oft í viku og þurfa þykir þannig að núverandi Herjólfur geti nýtt höfnina sem lengst, og Víkingur tekið við þegar þurfa þykir.

Framundan eru áform um að setja upp fastan dælubúnað í höfninni. Sú framkvæmd á að eiga sér stað næsta vetur. Þetta er vafalaust kærkomin afsökun fyrir því að höfninni verði haldið lokað næsta vetur líka. Ennfremur er nauðsynlegt að samhliða þessum framkvæmdum verði höfnin hreinsuð daglega svo hægt verði að sigla hindrunarlaust um hana, með skipi sem ræður við verkið. Framkvæmdum við Landeyjahöfn er fjarri því að vera lokið og verður líklega aldrei lokið fyrr en þeim aðilum sem nú stjórna ferðinni verður vikið til hliðar og nýjir aðilar sem reynslu hafa af slíkum málum látnir taka við.

Ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum brást vel við þegar Landeyjahöfn opnaði. Hótelframboð hefur aldrei verið betra og það sama má segja um veitingastaði og afþreyingu. Í vetur hafa hundruðir ferðalanga sem hafa ætlað að sækja okkur heim afbókað komu sína. Fjöldi fyritækja hafa ætlað að halda árshátíðir sínar hérna og ég held ég fari rétt með að þau hafi öll afbókað komu sína. Allt vegna lélegra samgangna. Þessi fyrirtæki hafa orðið af tugmilljónum króna vegna þessa og afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar. Ég starfa hjá stærsta ferðaþjónustufyrirtæki eyjanna. Í lok mars fögnuðum við því að við fórum í skipulagða ferð með 10 ferðalanginn á þessu ári. Nú í lok apríl eru þeir komnir í 70. Lífið í ferðamennskunni er í örfárra kílómetra fjarlægð frá okkur og málið væri hægt að leysa ef viljinn væri fyrir hendi. Vilji er allt sem þarf.

 

Alfreð Alfreðsson

Vestmannaeyjum

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.