Stýrihópur um fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju að skila af sér

21.Apríl'15 | 11:27

Samkvæmt heimildum Eyjar.net er vinna stýrihóps ráðherra um fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju nú langt komin.  Jafnvel svo langt að hópurinn geti skilað af sér í lok vikunnar. 

Eftir því sem Eyjar.net komast næst er allt kapp lagt á að stilla verkefninu þannig upp að hægt verði standa við þau fyrirheit sem gefin voru í fjárlögum fyrir yfirsandi ár en þar stendur:

„Þá er vakin athygli á því að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt. Unnið verður að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs sem fyrirhugað er á fyrri hluta komandi árs.“

Í umræðu um samgöngumál á fundum bæjarstjórnar hafa bæjarfulltrúar lýst áhyggjum sínum af því að þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit þá sé ekki búið að eyrnamerkja fjármagn til útboðsins.  Í samtali við Eyjar.net orðaði einn þeirra það svo: „Ferjan verður ekki fjármögnum með þessum texta í fjárlögunum þótt þingmenn haldi það ef til vill.  Það þarf peninga“.  Eðlilegt er að bæjarfulltrúar og aðrir bæjarbúar séu áhyggjufullir vegna þessa enda samgöngusagan seinustu ár full af brostnum fyrirheitum.

 

Bæjarstjóri staðfestir að vinna sé langt á veg komin

Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur unnið með stýrihópi ráðherra um fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju.  Hann segir að vinna sé sannarlega langt komin en vill þó ekki staðfesta að hópurinn skili af sér í lok vikunnar.  „Ráðgjafar ríkisins sem farið hafa fyrir faglegri vinnu við fjármögnun eru að leggja lokadrög á skýrslu og henni verður skilað um leið og hún er tilbúin.  Ég hef áhyggjur af því hversu langan tíma þetta hefur tekið enda gera fjárlögin ráð fyrir því að útboðið fari fram á fyrrihluta þessa árs.  Núna er apríl rúmlega hálfnaður þannig að það eru ekki margar vikur til stefnu.“ 

Elliði kveðst einnig hafa áhyggjur af því að dráttur á útboði komi til með að seinka afhendingartíma sem hingað til hefur verið áætlaður vor 2017.  „Við þolum ekki frekari tafir.  Það er nóg komið af seinagangi og útúrsnúningum.  Samgönguyfirvöld hafa fullyrt að forsenda siglinga í Landeyjahöfn sé ný ferja.  Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum ekki forsendur til að draga slíkt í efa en gerum þá sjáflsögðu kröfu að tíminn þar til verði nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á höfninni, þar með talið aðferðum við dýpkun, til að frátafir verði í samræmi við það sem stefnt hefur verið að.“ 

Elliði segir þó að það sé ekki nóg.  „Jafnvel þótt allt gangi upp og ferjan verði kominn til Eyja vor 2017 þá eru enn tvö ár þangað til.  Núverandi ástand er óboðlegt.  Það þarf fjármagn til að tryggja betri nýtingu á höfninni þangað til.  Það þarf betri dýpkunaraðferðir og það þarf áfram að leita að heppilegu skipi, þótt ekki sé nema til að anna þörf ferðamanna og fleira."

 

Þríþætt verkefni

Þá segir Elliði að bæjarstjórn líti sem svo á að verkefnið sé í raun þríþætt.  „Í fyrsta lagi þá verður að opna Landeyjahöfn strax og sem betur fer lítur út fyrri norðanátt þegar líður á vikuna. Í öðru lagi verður að leysa vandan til framtíðar. Vafalaust þarf nýtt skip, klárlega þarf breyttar aðferðir við dýpkun og ný tæki í það, etv. þarf einnig að breyta görðunum, kannski þarf að færa markafljótið og margar aðrar hugmyndir eru á lofti sem ég tek ekki afstöðu til.  Ég vil einfaldlega að öruggar samgöngur um Landeyjahöfn verði tryggðar allt árið.  Fyrr er framkvæmdinni ekki lokið  Í þriðjalagi þá teljum við mjög mikilvægt að bæta ástandið næstu tvo vetur (þar til nýja ferjan kemur). Það væri hægt að gera með betri dælingaraðferðum (til að opna fyrr á vorin), niðurgreiðslu á flugi, og ýmislegt fl.

„Eins og við hjá Vestmananeyjabæ höfum bent á frá 2010 þá er ástandið óþolandi.  Það breytist svo ekki nema eitthvað verði að gert.  Ef ekkert verður gert þá gerist ekki.  Ríkinu ber hér alger skylda.“

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).