Fyrst hægt var að koma mönnum á tunglið árið 1969 þá sé hægt að dæla sandi með betri árangri en þetta árið 2015

16.Apríl'15 | 08:16

Þann 17 febrúar sl. var umræða um samgöngumál í bæjarráði Vestmannaeyja. Þar var ýmislegt ákveðið. Meðal annars að kalla eftir upplýsingum um frátafir ferða Herjólfs, hvort áhrif suðvestan og suðaustanöldu hafi ekki verið rannsökuð við Landeyjahöfn.

Einnig var ákveðið að Vestmannaeyjabær skildi láta vinna fyrir sig skoðanakönnun um samgöngur á sjó og framtíðarmöguleikum. Eyjar.net setti sig í samband við bæjarstjóra til að kanna hvar þessi mál stæðu.

a. Frátafir
Bæjarráð ræddi óvenju miklar frátafir í siglingum Herjólfs til Þorlákshafnar það sem af er ári. Tilfinning margra þjónustuþega Herjólfs er sú að frátafir í siglingum Herjólfs til Þorlákshafnar hafi aukist á seinustu árum. Vegna umræðunnar vill bæjarráð lýsa yfir fullum stuðningi við ákvarðanir skipstjóra Herjólfs hverju sinni og hvetja til þess að áfram verði haft að leiðarljósi að ferð sé eingöngu felld niður með öryggi farþega, áhafnar, farms og skips að leiðarljósi. Öllum má enda ljóst vera að í hvert skipti sem ferð er felld niður veldur það umtalsverðu tjóni fyrir íbúa og atvinnulíf. Bæjarráð felur bæjarstjóra enn fremur að kalla eftir upplýsingum um fjölda þeirra ferða sem fallið hafa niður í siglingum Herjólfs í Þorlákshöfn seinustu áratugina.

Svar: Að hluta til hef ég fengið upplýsingar um þetta og um það hefur þegar verið fjallað hjá ykkur.  Hinsvegar hefur ekki enn tekist að fá gögn lengra aftur. Líklegast er að þær liggi einfaldlega ekki fyrir  hjá Vegagerðinni.

 

b. Umræðan
Bæjarráð ræddi enn og aftur um þá stöðu sem nú er uppi í samgöngum. Staðan nú er illu heilli nákvæmlega sú sama og hún var fyrsta veturinn sem Herjólfur sigldi í Landeyjahöfn. Dýpi er of lítið og skipið sem ætlað er að sigla þangað bæði of djúprist og það óheppilegt til siglinga í Landeyjahöfn. Eðlilega þyngist umræðan með hverju árinu og vonleysi grípur um sig. Komið hafa fram á opinberum vettvangi alvarlegar ávirðingar á hendur samgönguyfirvalda. Nú seinast fullyrti skipstjóri á Lóðsbát Vestmannaeyjahafnar að straumur við hafnarstæði Landeyjahafnar hafi ekki verið rannsakaður né heldur hafi verið gerðar rannsóknir á öldufari þar. Sérstaklega kveður hann fast að með ávirðingar um að áhrif suðvestan og suðaustanöldu hafi ekki verið rannsökuð. Bæjarráð telur slíkar ávirðingar mjög alvarlegar og krefst þess að það fái tafarlaust svar við því hvort það geti virkilega staðist að áhrif straums við Landeyjahöfn hafi ekki verið rannsakaður og að engar rannsóknir hafi verið gerðar á öldufari, eins og fullyrt í grein skipstjóra á Lóðsbát Vestmannaeyjahafnar.

Svar: Við fengum þau svör að þessu hafi fyrir löngu verið svarað og svarið nú sé jafngilt og það var þegar það var sett fram 2008.

 

c. Skoðunarkönnun
Að lokum felur bæjarráð bæjarstjóra að láta þegar vinna vandaða skoðanakönnun meðal bæjarbúa þar sem m.a. verður kallað eftir áliti þeirra á samgöngum á sjó og framtíðarmöguleikum.

Svar: Nei það hefur ekki enn verið gert.  Rétt eftir að bæjarstjórn samþykkti að ráðast í könnun birti Eyjar.net niðurstöðu könnunar sem unnin var fyrir miðilinn. Þær voru mjög gott veganesti fyrir bæjarráð og í raun enn verið að vinna úr þeim niðurstöðum.

 

Bæjarstjórn hefur lagt ríka áherslu á að tafarlaust verði ráðist í nýsmíði nýrrar Vestmannaeyjaferju.  Auðvitað viljum við að hún verði svo stór sem mögulegt er og leggjum höfuð áherslu á að hún nýtist til siglinga í Landeyjahöfn allt árið.  Við höfum heldur ekki dregið fjöður yfir þá skoðun okkar að við teljum að meira þurfi til en nýsmíði.  Það þarf klárlega að gera breytingar sem snúa að höfninni sjálfri og þá sérstaklega því sem snýr að dýpkunaraðferðum og fl.  Það væri hroðalegt sleifarlag að ætla að fara að bregðast við vanda hafnarinnar þegar nýja ferjan verður komin því reynslan hefur sýnt að það allar svona breytingar taka tíma.  Þess vegna ætlumst við til þess að smíðatími skipsins verði nýttur til að gera þær breytingar sem þarf á höfninni sjálfri.

 

Þá er það alveg ljóst í okkar huga að við núverandi ástand má ekki búa þar til nýja skipið kemur. Í dag er verið að nota gömul efnistökuskip til að sinna dýpkun. Við hljótum að trúa því að fyrst að hægt var að koma mönnum á tunglið árið 1969 þá sé hægt að dæla sandi með betri árangri en þetta árið 2015. Sjálfsagt kostar það einhverja peninga að fá öflug tæki erlendis frá en það verður þá svo að vera. Svo mikið er víst að á meðan ekkert er gert þá gerist ekkert. Þingmenn okkar og ráðherrar verða því að tryggja að fastar sé fram stigið í því sem snýr að dýpkun þar til nýja skipið kemur, sagði Elliði að lokum í samtali við Eyjar.net.

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).