Algjört ævintýri

2.Apríl'15 | 13:03

Gunnar Magnússon hefur ákveðið að kveðja lið ÍBV eftir tímabilið. Hann gengur stoltur frá borði enda er ÍBV Íslands- og bikarmeistari í dag. Gunnar hefur ekki rætt við önnur félög og framtíðin er alveg óráðin.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Gunnar sem birt er í Fréttablaðinu í dag.

"Það er engin dramatík í þessari ákvörðun heldur bara breytingar á fjölskylduhögum," segir Gunnar Magnússon en hann mun láta af þjálfun Íslands- og bikarmeistara ÍBV eftir tímabilið.

"Konan mín er kennari og það kom í ljós fyrir stuttu að það væru margir að koma til baka í skólann og því liti ekki vel út með vinnu hjá henni næsta vetur. Það er svona aðalástæðan fyrir því að við höfum ákveðið að flytja í bæinn. Við höfum verið á fimm ára flakki og vorum farin að huga að því að fara til Reykjavíkur þar sem fjölskyldan er."

Undir stjórn Gunnars hefur lið ÍBV komið gríðarlega á óvart. Liðið varð Íslandsmeistari í fyrra og svo bikarmeistari á dögunum. Liðið er því handhafi beggja stærstu titlanna. Þessum árangri náði Gunnar með lið sem fáir þorðu að spá svo góðu gengi.

 

Ætlaði að taka ár í viðbót

"Okkur hefur liðið alveg ótrúlega vel í Vestmannaeyjum og þetta hefur auðvitað verið algjört ævintýri," segir Gunnar þakklátur fyrir góða tíma en hann ætlaði sér samt að staldra við örlítið lengur í Eyjum.

"Planið var að taka eitt ár í viðbót en svo kom þetta upp á með vinnu konunnar og þá tókum við þessa ákvörðun."

Gunnar segist ekkert hafa rætt við félög í bænum en hugur hans stefnir þó klárlega á að halda áfram í þjálfun. Miðað við það sem hann hefur afrekað í eyjum ætti ekki að vera neinn skortur á eftispurn.

 

Framhaldið óráðið

"Þetta er tiltölulega nýkomið upp þannig að ég fer að skoða framhaldið bara í kjölfarið. Svo er tímabilinu auðvitað ekki lokið hjá okkur og við ætlum að koma grimmir inn í úrslitakeppnina þar sem við höfum titil að verja," segir Gunnar en hann er einnig fyrrverandi bankamaður og útilokar ekki að taka upp þráðinn þar síðar.

"Ég á klárlega eftir að fara í bankann aftur enda er það líka eitthvað sem mig langar að gera. Það verður þó ekki alveg á næstunni enda stefnir hugurinn á að vera áfram í þjálfun."

Það leynir sér ekki er maður talar við Gunnar að hann hefur notið tímans í Eyjum í botn.

 

Mjög stoltur

"Ég er svakalega stoltur af þeim árangri sem ég náði hjá ÍBV og þeirri vinnu sem hefur verið í gangi. Ég geng mjög sáttur frá borði. Ekki bara út af gengi meistaraflokksins heldur líka út af yngriflokkastarfinu sem hefur blómstrað. Það hefur verið gaman að eiga þátt í því líka. ÍBV er komið á kortið sem stórveldi í handbolta," segir Gunnar og bætir við að þessi árangur sé nú ekki allur sér að þakka enda sé vel staðið að hlutum í eyjum.

"Þetta stendur ekki og fellur með einum manni. Þetta er vel rekið félag og margir efnilegir strákar sem hafa verið að koma upp. Ég hef fulla trú á því að ÍBV eigi eftir að vera í fremstu röð áfram. Ég fer svo héðan með frábærar minningar og þykir ólíklegt að ég eigi eftir að upplifa annað eins og þegar við unnum titlana og sigldum svo inn til Vestmannaeyja. Það var alveg einstakt. Eyjamenn eru ótrúlegir og hér er samheldnin mikil. Þeir hugsa vel um sitt fólk og stemningin ólík því sem er víða."

 

Viðtalið birtist í Fréttablaðinu. Allt viðtalið má sjá þar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%