Fall Sparisjóðsins:

Bæjarstjórn telur margt orka tvímælis

Fengu einungis 18 tíma frest til að svara

1.Apríl'15 | 22:16

Aukafundur var haldinn hjá bæjarstjórn Vestmannaeyja í kvöld vegna samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja. Bæjarstjórn telur að margt í aðdraganda falls Sparisjóðsins orki tvímælis.

Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að falast tafarlaust eftir því að fengið verði hlutlægt mat á verðmæti Sparisjóðs Vestmannaeyja á þeim tímapunkti þegar hann var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann hf.  Við matið skal sérstök áhersla lögð á samanburð á lánasafninu árið 2010 eftir endurreisn sjóðsins og 29. mars 2015 þegar þvingaður samruni við Landsbankann gekk í gegn.

Ennfremur fól bæjarstjórn, bæjarstjóra að kalla tafarlaust eftir lögfræðilegu mati á framgöngu ríkisaðila í tengslum við þau atriði sem rædd eru í minnisblaðinu.  Sérstaklega verði þar hugað að því hvort meðalhófs hafi verið gætt. 

 

Afgreiðsla bæjarstjórnar í heild sinni:

Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Fjármlaeftirlitið (FME) hefur tekið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja. Samruninn tók gildi sunnudaginn 29. mars kl. 15:00. Frá og með þeim tíma urðu allir starfsmenn Sparisjóðsins starfsmenn Landsbankans.
 
Eftirfarandi ályktun var lögð fram;
 
Fyrir bæjarstjórn lá minnisblað bæjarstjóra þar sem fjallað var um þá stöðu sem leiddi til þess að Sparisjóður Vestmannaeyja var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann hf.
Bæjarstjórn telur að margt í aðdraganda falls Sparisjóðsins orki tvímælis.
 
1.       Tímafrestur til aðgerða var of skammur.
        Þegar ljóst var að fjárhagur sjóðsins næði ekki lögbundnum lágmörkum eigin fjár fyrir skemmstu var ljóst að grípa þurfti til ráðstafana til að styrkja hag sjóðsins.  Um það er ekki deilt.  Það er ekki heldur deilt um að ríkið hefur með yfirlýsingum sínum ábyrgst allar innlendar innistæður í íslenskum bönkum.
        Í ljósi þessa er með öllu óskiljanlegt að FME skuli gefa svo lítilli fjármálastofnun, sem Sparisjóður Vestmannaeyja er, svo knappan tíma til að bregðast við aðsteðjandi vanda.   Öllum er ljóst að sá vandi sem steðjaði að Sparisjóðnum var engin landsvá eins og þegar íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008.
 
 
2.     Ekki gefinn tími til að stjórn ynni með eigendum sínum að endurfjármögnun.
        Stjórn og stjórnendum Sparisjóðsins gafst enginn tími til að gera rekstaráætlanir eða vinna annan undirbúning sem nauðsynlegur var til að kynna núverandi stofnfjáreigendum framtíðarmöguleika sjóðsins með það í huga að leggja sjóðnum til nægjanlegt fjármagn til endurreisnar hans.
        Því gafst ekki nauðsynlegt ráðrúm til umræðu og undirbúnings undir mögulega endurreisn sjóðsins.
 
3.      Ekki er gætt jafnræðis við öflun upplýsinga.
Bæjarstjórn telur með öllu óskiljanlegt að Landsbankanum, einum stofnfjárhafa, hafi verið veitt heimild til að fara með starfsmenn sína inn í sjóðinn síðastliðinn miðvikudag til að kynna sér gögn sem lutu að útlánum sjóðsins.  Þetta er ekki bara óskiljanlegt út frá sjónarmiðum jafnræðis gagnvart stofnfjárhöfum, heldur einnig gagnvart almennum samkeppnissjónarmiðum.
 
 
5.      Beiting valds af hálfu ríkisins.
Íslenska ríkið var stærsti eigandinn í Sparisjóði Vestmannaeyja.  Með eignarhlutinn fór Bankasýsla ríkisins sem er á vegum ríkisins. Eftirlitsaðili með starfsemi fjármálastofnanna er Fjármálaeftirlit ríkisins, sem rekið er af íslenska ríkinu.  Heimild til mögulegs samruna var komin undir samkeppniseftirlitinu, sem er stjórnsýslustofnun rekin af íslenska ríkinu.  Mögulegur kaupandi að Sparisjóði Vestmannaeyja var Landsbankinn hf. sem er nánast í fullri eigu ríkisins.  Allt umlykjandi í málinu er því íslenska ríkið. 
 
Í ljósi þess að ríkið er allt umlykjandi í málinu þá hlýtur að teljast mikilvægt að þessar stofnanir gæti meðalhófs við meðferð valds síns og hafi ekki með ósanngjörnum hætti og án þess að brýna nauðsyn beri til, tekið alla möguleika af öðrum eigendum Sparisjóðs Vestmannaeyja, til að vinna að lausnum sem væru hagfelldari Sparisjóðnum og byggðunum þar sem hann starfar.
 
 
 
Hvað viðkemur hinum þvingaða samruna við Landsbankann vill bæjarstjórn árétta eftirfarandi:
 
     A)  Í bréfi Landsbankans hf. var veittur um 18 tíma frestur til að svara.  Vestmannaeyjabæ var með öllu ómögulegt að bregðast við á þeim tímafresti sem gefinn var.  Slíkar upplýsingar bárust Vestmannaeyjabæ kl 19.33 föstudaginn 27.mars. 
Vestmannaeyjabær starfar á grundvelli stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga og er sem slíkur ekki ályktunarhæfur nema á lögformlegum fundum sem boðað er til með tveggja sólarhringa fyrirvara.  Vestmannaeyjabæ var því ómögulegt að bregðast við á þeim tímafresti sem gefinn var.
 
     B)  Bent er á að í aðdraganda bréfsins hafði Landsbankinn fullt aðgengi að öllum gögnum um Sparisjóð Vestmannaeyja, þar með talið lánabók og fl.   Undirritaðir aðilar hafa ekki haft möguleika til þess að kynna sér Sparisjóðinn með þeim hætti.  Þar með var kaupandinn kominn með upplýsingar um umrædda eign, umfram seljendur.  Það verður að teljast hæpin staða þegar seljendur eru settir í þá stöðu að þekkja verr til sölulandlagsins en kaupandinn.  Eðlilegt hlýtur að vera að eigendur hefðu fengið svigrúm til að meta verðmætin með sama hætti og mögulegur kaupandi hafði.
 
     C)  Bent er á að skv.tölulið IV í bréfi Landsbankans hf. er það í raun forsenda tilboðsins að Samkeppniseftirlitið hafi veitt samþykki fyrir samruna félaganna án skilyrða, áður en til hans er stofnað.  Slíkir forúrskurðir eru ekki mögulegir skv. núgildandi samkeppnislögum og því óeðlilegt að slík krafa sé sett fram.
 
     D)  Bent er á að umtalsverður vafi er umleikandi endurgjald fyrir stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja.  Ítrekað er að seljendur hafa ekki haft tök á að kynna sér raunverðmæti Sparisjóðsins.
 
     E) Bent er á að fyrrum eigendur Sparisjóðsins fá eignarhlut sinn í Sparisjóði Vestmannaeyja greiddan með eignarhluta í Landsbankanum.  Ekkert mat liggur fyrir um raunverðmat Landsbankans.  Ljóst er að ofmat á verði Landsbankans rýrir hlut fyrrum eiganda Sparisjóðs Vestmannaeyja.
 
Í ljósi þess sem að framan greinir felur Bæjarstjórn Vestmannaeyja bæjarstjóra að falast eftir samstarfi við aðra fyrrum stofnfjáreigendur um að kannað verði með lögmæti framgöngu ríkisins og stofnanna þess í því ferli sem að ofan greinir.  Sérstaklega þarf að horfa til þess hvort ríkið hafi, við meðferð valds síns með ósanngjörnum hætti og án þess að brýna nauðsyn bæri til, haft möguleika af öðrum eigendum Sparisjóðs Vestmannaeyja til að vinna að lausnum sem hugsanlega hefðu verið hagfelldari Sparisjóðnum og byggðunum þar sem hann starfar.
 
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir eftirfarandi:
 
  1)   Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að falast tafarlaust eftir því að fengið verði hlutlægt mat á verðmæti Sparisjóðs Vestmannaeyja á þeim tímapunkti þegar hann var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann hf.  Við matið skal sérstök áhersla lögð á samanburð á lánasafninu árið 2010 eftir endurreisn sjóðsins og 29. mars 2015 þegar þvingaður samruni við Landsbankann gekk í gegn.
 
  2)  Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kalla tafarlaust eftir lögfræðilegu mati á framgöngu ríkisaðila í tengslum við þau atriði sem rædd eru í minnisblaðinu.  Sérstaklega verði þar hugað að því hvort meðalhófs hafi verið gætt. 
 
Elliði Vignisson
Birna Þórsdóttir
Margrét Rós Ingólfsdóttir
Sigursveinn Þórðarson
Esther Bergsdóttir
Stefán Óskar Jónasson
Jóhanna Ýr Jónsdóttir
 
Ályktunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.