Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

,,Þessi kona“........

24.Mars'15 | 06:47

Ég var 19 ára þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, hún kom í heiminn lítil og falleg með dásamlegt silfrað hár. Ég hafði aldrei upplifað annan eins tilfinningarússíbana. Ég var dauðhrædd við þetta nýja hlutverk en um leið ástfangin upp fyrir haus af þessari litlu veru, innra með mér var einnig mikill kvíði fyrir framtíðinni og hvað hún myndi mögulega bera í skauti sér. En ást mín á þessari litlu stúlku varð þó öllu öðru yfirsterkari.

Ég var svo 24 ára þegar ég fékk yngri dóttur mína í fangið, rauðhærða og með þær allra stærstu kinnar sem ég hafði nokkrun tíman séð (sem hún erfði frá móður sinni) og aftur helltust yfir mig allar þessar tilfinningar Ég hugsaði með mér hvernig litla hjartað mitt færi að því að bera svona mikla ást til þessara tveggja dætra minna. En hjartað mitt bara stækkaði og var og er yfirfullt af ást til stelpnanna minna.

Lífið gekk sinn vanagang en þegar stelpurnar mínar voru 5 og 10 ára skildu leiðir okkar foreldranna eftir rúmlega 16 ára samvist. Í hönd fór afar erfiður tími og öll mín orka fór í það að hafa sem mesta reglu í lífi dætra minna. Ég gerði allt hvað  ég gat til að hjálpa þeim að aðlagast hinu nýja lífi. Fljótlega eftir skilnaðinn eignaðist fyrrverandi maðurinn minn svo kærustu og var ég nú fljót að koma því á framfæri að ,,þessi kona“ kæmi aldrei, þá meinti ég aldrei, nálægt börnunum mínum. Ég ætti þessar stelpur og það væri ekki séns í helví.. að þessi nýja kona fengi að spila nokkurt hlutverk í þeirra lífi.

En stelpurnar mínar fóru til pabba síns og ,,þessi kona“ var að sjálfsögðu þar, ég þurfti að taka á öllu sem ég átti þegar þær komu til baka og sögðu mér að þeim líkaði svona líka glimrandi vel  við ,,þessa konu“. Guð hvað ég var fúl því ég vonaði, frá mínum dýpstu hjartarótum, að þeim fyndist hún hörmung og myndu aldrei vilja fara aftur til pabba síns vegna hennar og hann yrði því bara að slíta sambandi sínu við hana. Tilfinningin sem stjórnaði þessum hugsunum mínum heitir afbrýðissemi og er alveg afskaplega vond tilfinning sem eyðir engum nema þeim sem hana upplifir.

Tíminn leið og hjartað mitt gréri smátt og smátt. Ég hætti að einbeita mér að lífi fyrrverandi mannsins míns og hóf uppbyggingu á mínu eigin. Mikil og góð vinátta þróaðist með stelpunum mínum og ,,þessari konu“ og ég fann mig knúna til að kyngja því og halda áfram með mig og mitt.

Núna, rúmlega fimm árum síðar, er ,,þessi kona“ ekki lengur ,,þessi kona“ hún er stjúpmóðir dætra minna sem og mikil og góð vinkona þeirra beggja. Við eigum í góðum samskiptum og það gleður mig stöðugt hvað hún er góð, blíð og dásamleg við stelpurnar mínar og reynist þeim alveg einstaklega vel. Dætur mínar hafa verið svo heppnar að eignast þrjá litla bræður hjá pabba sínum og stjúpmóður og fæ ég ávalt “hlýtt í hjartað” þegar ég sé myndir af systkinunum saman og sé þá um leið hversu mikið stelpurnar mínar elska þessar litlu fallegu bræður sína og sú ást er svo sannarlega gagnkvæm.

Skilnaður er hrikalegt skipsbrot og það allra erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum í mínu lífi. Mér hefur sem betur fer borist sú gæfa að vinna mig vel út úr þessu og fá til þess alla þá hjálp sem möguleg er. Samskipti mín við fyrrverandi eiginmann minn hafa ekki alltaf verið auðveld og höfum við oft hagað okkur eins og fávitar hvort við annað. Í dag er þetta þó allt annað, við reynum að nálgast samskiptin af virðingu og jákvæðni. Það er erfitt að púsla lífinu saman þegar fjölskyldan er brotin og svolítið flókin en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við erum sannarlega ekki alltaf sammála og hjálpi mér hamingjan hvað mig langar oft að slá minn fyrrverandi fast í hárið og ég skal lofa ykkur því að það vill hann líka gera við mig. En ég ætla mér að láta þetta ganga vel, barnanna vegna. Þarna eru 5 systkini sem vilja ekkert annað en að vera í góðum samskiptum hvort við annað, við foreldra sína og stjúpmóður.

Fögnum fjölbreytileikanum elsku fólk. Fögnum mismunandi fjölskyldumynstrum og búum börnunum okkar frábært líf þar sem þau geta, án samviskubits, átt í innihaldsríkum samskiptum við allt fólkið sitt - Líka ,,þessa konu“ sem er svo dásamlegt eintak af mannveru þegar allt kemur til alls.

 

Hamingja og gleði til ykkar allra

Lóa

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.