Loðnuvertíðinni að ljúka

23.Mars'15 | 13:59

„Það var ótrúlegt hve botninn datt skjótt úr loðnuveiðunum í Breiðafirðinum. Menn mokveiddu á sunnudegi fyrir rúmri viku, svo kom bræla á mánudegi og töluvert að sjá og fyrir hádegi á þriðjudegi hvarf þetta.

Þá lagðist hún á botninn og eftir það hefur þetta verið nánast ekkert,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja í samtali við kvotinn.is.

Loðnuveiðunum er um það bil að ljúka og ljóst að töluvert vantar upp á að leyfilegur heildarkvóti náist, en hann er 393.000 tonn. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu var aflinn í morgun orðinn 332.000 tonn og því 61.000 tonn óveidd.

„Það hefur verið erfitt að eiga við veiðarnar. Að því leytinu til hefur þessi vertíð verið vonbrigði. Það hefur margt verið öðru vísi á þessari vertíð en venjulega. Aðallega tíðin en einnig hvernig loðnan hegðaði sér áður en grunnnótaveiðin hófst. Fyrst veiddist hún fyrir norðan. Hún sást svo varla fyrir austan fyrr en hún kom upp við Hornafjörð og þá gekk hún mjög hratt hérna vestur með. Svo kláraðist það og menn fóru að veiða á Breiðafirðinum. Það eru auðvitað vonbrigði að hafa ekki náð kvótanum, en þar spilaði veðrið stærstu rulluna. Við verðum reyndar með skipin á veiðum út vikuna en það er greinilegt að það er komið þannig stand á þetta að ekki er líklegt að það veiðist neitt nema þá hængur, sem fer þá í bræðslu,“ segir Stefán.

Ísfélagið hefur takið á móti um 80.000 tonnum á vertíðinni og skiptist það nokkuð jafnt milli Vestmannaeyja og Þórshafnar. Megnið hefur farið í bræðslu eins og alltaf er. Frysting nemur um 7.500 tonnum á alla þessa markaði, hrygnu, hæng og hrogn. „Markaðirnir hafa verið þokkalegir fyrir allar afurðir. Reyndar er ekki komið endanlegt verð á hrognin en eftirspurnin hefur verið góð. Ég held að menn þurfi ekkert að kvarta yfir tekjuhliðinni. Það hefur verið gott verð fyrir allt, bæði til manneldis og í mjöl og lýsi.

„Svo veltir maður því fyrir sér hvers vegna það hefur veiðst svona lítið af hæng á vertíðinni. Hvort það geti haf einhverjar afleiðingar, en það hlýtur að þurfa töluvert af hæng til að frjóvga öll þessi hrogn,“ segir Stefán Friðriksson.

Skip Ísfélagsins fara síðan á kolmunnaveiðar eftir páska og af þeim á makríl í maí.

 

Kvotinn.is greindi frá.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.