Hentar ekki að hýsa heilabilaða á Heilbrigðisstofnun

21.Mars'15 | 10:41

Á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag kom til umræðu málefni eldri borgara og hin brýna þörf á að opna sérdeild fyrir heilabilaða. Páll Marvin Jónsson fór þar yfir fund sem forsvarsmenn bæjarins áttu með yfirmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Meðal hugmynda bæjaryfirvalda voru að deildin yrði staðsett á HSVE en ekki á Hraunbúðum.

Páll Marvin fór betur yfir málið með Eyjar.net.

,,Við áttum í raun mjög góðan fund með fulltrúum HSU þar sem við ræddum þá hugmynd að setja upp aðstöðu fyrir heilabilaða í þeim rýmum sem eru á sjúkrahúsinu. Þetta er hugmynd sem kviknaði fyrir nokkru síðan og töldum við mikilvægt að skoða hana nánar. Niðurstaða fundarins í gær var hinsvegar ekki sú sem við fulltrúar bæjarins vorum að vonast eftir, það er að aðstaðan fyrir heilabilaða á sjúkrahúsinu myndi leysa þann bráða vanda sem við eigum við að etja í dag upp á Hraunbúðum.

Hver eru rök stofnunarinnar?

Rök HSU eru í raun bæði fagleg og rekstrarleg. Hin faglegu rök eru fyrst og fremst þau að það er mælst til þess að heilabilaðir hafi gott rými til að ganga um og hafi helst aðgang að garði eða útisvæði. Við erum alltaf að tala um sjúklinga sem eru færir um gang því annars væru þeir í legurými. Það er ekki mælst til þess að þeir séu á lokuðum deildum á efri hæðum stofnanna og aðstæður á HSU uppfylla ekki þessar kröfur að þeirra mati.

Önnur fagleg rök eru þau að það er ekki hægt að tryggja það að aðstaðan yrði einungis með heilabilaða sjúklinga þar sem að sjúkrahúsið þarf að fylgja ákveðinni reglu varðandi innlögn og því líklegt að aðstaðan verði alltaf fyrir blandaðan hóp og það gengur þvert á hugmyndir okkar með sérstaka deild fyrir heilabilaða.

Rekstrarleg rök HSU eru þau að ef við leggjum inn heilabilað einstaklinga inn á sjúkrahúsið þá er líklegt að Hraunbúðir fái  þyngri sjúklinga, sjúklinga sem væru íþyngjandi fyrir rekstur Hraunbúða.

Hvað varðar framtíðina þá þarf Vestmannaeyjabær að vega og meta breyttar forsendur í stöðunni. Ein lausnin sem skoðuð hefur verið er að nýta austurhluta Hraunbúða og útbúa lokaða aðstöðu fyrir heilabilað með aðgengi að garði eða útisvæði. Þetta er í raun ekki stór framkvæmd en þarf þó alltaf heimild og fjármagn frá ríki til að ráðast í hana. Ef við horfum til nágrannasveitafélaga og hvernig slíkar framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar þá er nærtækasta dæmið hjúkrunarheimilið að Lundi á Hellu. En þær framkvæmdir verða fjármagnaðar með 70% framlagi frá ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra og 30% af sveitafélögunum. Það er hinsvegar algerlega óvíst hvort ríkið sé tilbúið til að greiða svo stóran hluta framkvæmdarinnar hér.

Á meðan við bíðum eftir niðurstöðu þá þurfum við að skoða mannahaldið til að leysa þann bráðavanda sem er til staðar og halda áfram að finna lausnir til að leiðrétta „RAI-matið“ hjá okkur og efla samstarfið við HSU í tengslum við innkaup, heimaþjónustu og innlagnir á stofnanirnar" sagði Páll Marvin Jónsson í samtali við Eyjar.net.

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.