Bæjarstjórn:

Ágreiningur um niðurskurðartillögur

20.Mars'15 | 11:06

Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundaði í gærkvöldi. Þar var m.a til umræðu niðurskurðartillögur sem eru í burðarliðnum hjá bæjaryfirvöldum. Í vinnuskjali sem vitnað var í á fundinum kemur fram að tillögur þessar hljóði uppá 58 milljóna niðurskurð.

Kom fram í máli Jórunnar Einarsdóttur að vegna þess að bærinn fullnýtti ekki útsvarsprósentuna hefði það áhrif á framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem lækkuðu við þessa aðgerð. Ennfremur nefndi hún að þessi niðurskurður beinist fyrst og fremst að fötluðum einstaklingum og ungu fólki. Hefði verið hægt að bíða með þessar aðgerðir þar til ársreikningar 2014 liggja endanlega fyrir, spurði bæjarfulltrúinn. Þá sagði hún að ráðast ætti í niðurskurð uppá 8 milljónir í málefnum fatlaðra, samkvæmt skjalinu.

Ekki hægt að fá umrætt skjal.

Eyjar.net hefur óskað eftir að fá umrætt niðurskurðarplagg, en svörin eru að um vinnuskjal sé að ræða sem hefði ekki átt að vera til umræðu á fundinum í gær. Þær tillögur sem byrjað er að vinna eftir eru þær sem samþykktar voru í bæjarráði varðandi stjórnsýslu og menningarsviðið sem og Rauðagerði, segir í pósti til Eyjar.net frá Vestmannaeyjabæ.

Elliði Vignisson benti á - á fundinum í gær - að nota verði tekjur sveitarfélagsins eins vel og mögulegt er. Einnig benti hann á að með lægri útsvarsprósentu stjórnuðu bæjarbúar því sjálfir í hvað fjármunirnir færu. Þá kom fram í máli hans að af þessum 58 milljónum væri gert ráð fyrir mestri hagræðingu í stjórnsýslunni, eða um 15 milljónum. Þettu séu miklir fjármunir sem mun leiða til meiri vinnu á m.a starfsfólk stjórnsýslunnar. Einnig sagði Elliði það sérstakt hjá Jórunni ef að halda ætti hlífiskildi yfir sérhæfðum störfum umfram önnur störf. Í hans huga væru öll störf jafn mikilvæg hjá Vestmannaeyjabæ.

Jórunn óskaði eftir að fá að bera af sér sakir.

Jórunn Einarsdóttir óskaði því næst eftir að fá að bera af sér sakir. Segir hún bæjarstjóra leggja sér orð í munn. Að hann geri henni að hún sé að mismuna fólki eftir stöðu. Það sé alls ekki það sem hún sagði.

 

Eftirfarandi var bókað um málið:

Við umræðu í lið 2 lagði E listinn fram svohljóðandi bókun:
Eyjalistinn harmar niðurskurðaraðgerðir Sjálfstæðisflokks. Ljóst er að þær ná að stórum hluta til málefna fatlaðra og ungs fólks. Þetta þykir okkur alvarleg staða og afleit forgangsröðun. Við viljum minna á að enn eru ekki allir tekjustofnar sveitarfélagsins nýttir að fullu. Við síðustu fjárhagsáætlunargerð var lögð fram tillaga um að fullnýta tekjustofnana þegar ljóst var í hvað stefndi.
Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði tillögunni og má gera ráð fyrir því að Vestmannaeyjabær verði af allt að 70 milljónum. Þá eru ekki taldar þær tekjur sem við verðum af frá jöfnunarsjóði vegna ófullnýttra tekjustofna. Það er okkar mat að fulltrúar Sjálfstæðiflokks þurfi að gera grein fyrir því hvers konar þjónusta er talin mikilvæg fyrir Vestmannaeyinga.

Jórunn Einarsdóttir
Stefán Ó. Jónasson


D listinn lagði fram svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent fulltrúum E-lista á að gjaldtaka á heimili í Vestmannaeyjum er ekki keppikefli í rekstri sveitarfélagsins. Þvert á móti vilja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kappkosta að hagræða eins og kostur er og hlífa þannig heimilum í Vestmannaeyjum við gjaldtöku umfram það sem nauðsynlegt er. Á árinu 2014 skilaði lækkað útsvar um 70 milljónum sem verða eftir hjá heimilum. Það er búbót svo um munar.
Fullyrðingar um að hagræðingaaðgerðir falli að stórum hluta á málefni fatlaðra og ungs fólks eru hreinlega ósannar. Langstærstu hagræðingaraðgerðirnar eru í rekstri stjórnsýslu. Þær hagræðingar sem E-listi hefur fordæmt mest eru fólgnar í auknum tekjum verndaðs vinnustaðar og samningum við Endurvinnsluna þar að lútandi.
Hvað varðar fulllyrðingar E-lista um áhrif lækkaðs útsvars á jöfnunarsjóð þá óska bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að E-listinn leggi fram útreikninga sem styðja þá fullyrðingu á næsta fundi bæjarráðs.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta ekki lofað því að útsvar verði áfram jafn lágt og nú er. Þeir geta heldur ekki lofað því að fasteignaskattar verði ekki hækkaðir. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta hins vegar lofað því að þeir munu áfram standa í vegi fyrir því að E-listinn seilist eins langt í vasa bæjarbúa og tillögur þeirra gera ráð fyrir.

Hildur S. Sigurðardóttir
Páll Marvin Jónsson
Elliði Vignisson
Trausti Hjaltason
Birna Þórsdóttir

Liður 2 var samþykktur með fimm atkvæðum. Jórunn Einarsdóttir og Stefán Ó. Jónasson greiddu atkvæði á móti.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is