Þarf öflugt samstarf við fyrirtækin hér í Eyjum

12.Mars'15 | 09:26

Í síðustu viku greindum við frá framsögu bæjarstjóra í bæjarráði þar sem hann fór yfir stöðu atvinnumála í Eyjum. Í gær boðaði Elliði svo forsvarsmenn atvinnulífsins til fundar við sig í Eldheimum. Fundurinn var upplýsinga og samráðsfundur við atvinnulífið. Við tókum púlsinn á Elliða eftir fundinn.

,,Eins og þú fjallaðir ágætlega um þá eru atvinnumál og ýmislegt fleira nú á algerum krossgötum hér í Vestmannaeyjum. Störfum almennt á landsbyggðinni er að fækka og á það sérstaklega við um störf við veiðar og vinnslu. Hér í Eyjum hefur störfum fyrir sjómenn fækkað um 124 á tveimur og hálfu ári.  Við þetta bætist að þau störf sem eru að verða til eru ekki þau sem ungt fólk sækist hvað mest í, sem sagt störf lægst í virðisaukakeðjunni.  Þá liggur það einnig fyrir að hlutfall aldraðra í Vestmannaeyjum er að hækka mjög hratt.  Fyrir áratug voru eldriborgarar í Vestmanneyjum um 8% af íbúafjölda eða um 3200.  Í dag eru þeir um 530 eða 12%.  Eftir áratug nálgast fjöldi eldriborgara að verða um 1000 og miðað við annað óbreytt þá verða þeir þar með orðnir yfir 20% af hlutfalli íbúa hér í bæ.  Það er rétt að taka það skýrt fram að eldriborgarar eru meðal nægjusömustu og þakklátustu þjónustuhópa í Vestmannaeyjum þannig að því er ekki að kvíða.  Hinsvegar hefur það mikil áhrif á alla samfélagsgerð ef okkur tekst ekki að búa til störf fyrir komandi kynslóðir hér í Eyjum.  Skólastarf, menningarstarf, íþróttalífið og svo margt fleira hvílir til að mynda eðlilega fyrst og fremst á þeim sem yngri eru" segir Elliði.

 

Háskólanám á sviði nýsköpunar og sjávarútvegs

,,Fundurinn í gær var til að ræða þessar helstu hagtölur við forsvarsmenn atvinnulífsins í Vestmannaeyjum og velta vöngum yfir mögulegum viðbrögðum.  Ein leið er að gera ekki neitt og vona það besta.  Stundum hefur það gefist vel. Ég óttast hinsvegar að ef við tökum ekki höndum saman um mikla eflingu nýsköpunar og atvinnulífs þá fari verr en annars. Ég varpaði fram þeirri hugmynd að leiða verði leitað til að koma á einhverskonar háskólanámi á sviði nýsköpunar og sjávarútvegs hér í Vestmannaeyjum og var þeirri hugmynd vel tekið af þeim sem tjáðu sig á fundinum. Þá ræddum við einnig aðild Vestmannaeyjabæjar að SASS og tengsl okkar við Byggðastofnun og margt fleira.

 

Fundurinn var sem sagt upplýsinga og samráðsfundur við atvinnulífið og góður sem slíkur.  Það má öllum ljóst vera að Vestmannaeyjabær einn og sér gerir engin kraftaverk í atvinnuþróun.  Eigi vel að til takast þarf öflugt samstarf við fyrirtækin hér í Eyjum.  Þau eru sem betur fer mörg hver afar öflug.  Á milli fyrirtækjanna í Vestmananeyjum og hins almenna íbúa hefur ætíð verið sterk taug sem gert hefur okkur Eyjamönnum mögulegt að bregðast við stöðum sem upp koma. Á þeim forsendum þarf nú að hefja sókn á sviði nýsköpunar í sjávarútvegi.

 

Þótt sannarlega glímum  við Eyjamenn við erfið verkefni svo sem á sviði samgangna þá getum við ekki kvartað yfir því að tækifærin séu ekki til staðar.  Fyrirtækin hér í Eyjum halda utan um 12 – 14% af aflaheimildum og ferðaþjónusta er hér mjög vaxandi.  Þetta eru tveir helstu vaxtarbroddar Íslendinga í dag.  Spurningin er hinsvegar hvort og þá hvernig við viljum nýta þetta til að skapa störf fyrir framtíðar íbúa í Vestmanneyjum. Við því leituðum við svara í gær" sagði bæjarstjóri í samtali við Eyjar.net.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.