Elliði Vignisson um skoðanakönnun MMR:

Ríkinu ber skylda til að tryggja samgöngur um Landeyjahöfn allt árið

- Fyrr sé þessum kafla ekki lokið.

5.Mars'15 | 13:39

Eyjar.net mun á næstu dögum birta viðbrögð við skoðanakönnun MMR sem unnin var fyrir ET miðla, sem á og rekur Eyjar.net. Fyrstur til að svara okkur er Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.

 

Ég vil byrja á því að þakka eyjar.net fyrir það afrek að ráðast í svona skoðunarkönnun.  Könnunin er í öllum tilvikum áhugaverð og gefur vísbendingar um stöðuna.  Margt sem þar kom fram er í takt við það sem maður átti von á enn annað kom á óvart.

 

Hvað kom á óvart?

Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið traust bæjarbúar hafa á bæjarstjórn Vestmannaeyja þegar kemur að ákvörðunum um framtíðarskipulag sjósamgangna milli lands og Eyja.  Þegar litið er til þeirra sem tóku afstöðu“með eða á móti“ kemur í ljós að næstum 60% bera frekar mikið eða mjög mikið traust til bæjarstjórnar hvað þetta varðar en um 40% bera frekar lítið eða lítið traust til hennar.  Í ljósi umræðunnar og háværra radda taldi ég að þetta traust væri minna.

 

Hvað telur þú að útskýri þetta?

Bæjarstjórn er stjórnvald og ber því að nálgast viðfangsefnin sem slík.  Það hefur hún gert.  Hún má ekki á neinum tíma falla í þá gryfju að tala inn í óánægju eða leita að blórabögglum.  Þá væri algerlega fráleitt fyrir stjórnvald eins og bæjarstjórn að taka þátt í kaffistofuspjalli hvað þá að fara að útfæra tæknilegar lausnir eða skammast út í einstaka embættismenn.  Bæjarstjórn kemur fram sem hagsmunagæsluaðili fyrir bæjarbúa og hefur sem slík verið mjög einbeitt í kröfunni um að ríkið klári það verkefni sem það hóf og tryggi bæjarbúum öruggar samgöngur um Landeyjahöfn allt árið.

 

Hvað um þann áherslumun sem fram kemur þegar aldur og kyn er skoðað?

Þegar maður rýnir í tölur og greinir þær eftir kyni og aldri þá kemur í ljós að þessar tvær lýðfræðilegu breytur virðast ráða talsverðu um afstöðu fólks í mörgum af þessum spurningum.  Til einföldunar má segja að konur og yngra fólk séu jákvæðari í öllu því sem snýr að Landeyjahöfn.  Það vekur mann síðan til umhugsunar um hina háværu umræðu.  Ef maður skoðar þær greinar sem birtar hafa verið um höfnina og þessi mál almennt þá kemur í ljós að höfundar eru í nánast öllum tilvikum karlar.  Hið sama á við um orðræðuna hér í eyjum, oftast eru það við karlar sem stjórnum umræðunni um þetta mikilvæga mál.  Þar við bætist að oft eru þetta karlar á fimmtugsaldri ,eins og ég sjálfur, eða jafnvel oft á sextugs- og sjötugsaldri.  Auðvitað er okkar afstaða jafn mikilvæg og allra annarra en hún er hvorki merkilegri né mikilvægari en annarra.  Það er því mikilvægt að bæjarbúar allir hafi skoðanir á þessu máli.  Samgöngur við eyjar eru ekki einkamál okkar miðaldra karla.

 

Nú kemur í ljós að um 52% aðspurðra eru mjög óánægð með núverandi fyrirkomulag og 36,2% er frekar óánægt. Samtals eru því um 88% bæjarbúa óánægð með fyrirkomulagið. Það hlýtur að vekja hjá þér ugg?

Ef ég sjálfur hefði fengið að svara þessari spurningu þá hefði ég sagst vera mjög óánægður og slíku sama er fyrir að fara hjá öðrum bæjarfulltrúum.  Núverandi ástand er algerlega óboðlegt.  Við vanda Landeyjahafnar hefur bæst að frátafir í Þorlákshöfn hafa verið tíðari og það veldur bæði bæjarbúum og fyrirtækjum afar miklum óþægindum.  Núna seinast í gær var seinni ferð Herjólfs felld niður sem og fyrri ferðin í morgun.  Á bakkanum standa tveir gámar stútfullir af körum með ísaða þorskhnakka og bíða flutnings.  Kostnaðurinn sem hlýst af þessu er náttúrulega óbærilegur.  Þetta ástand dregur því ekki bara úr lífsgæðum samfélagsins heldur hleypir einnig orkunni úr fyrirtækjunum og þar með blóðinu úr æðum hagkerfsins hér í eyjum.  Þetta vekur mér því sannarlega ugg.

 

Könnunin leiddi í ljós að flest fólk  taldi að flutningsgeta Herjólfs annaði ekki þörfinni.  Óttast þú ekki að minni Herjólfur auki enn á slíkan vanda?

Verði af þeirri nýsmíði sem verið hefur í umræðu og hönnun megnið af seinasta áratug þá ber skipið jafn marga farþega og fleiri bíla en núverandi skip gerir.  Vandinn verður því minni en nú er.  Þar að auki er skipið langtum ódýrara í rekstri og fyrir minna fjármagn er hægt að fara langtum fleiri ferðir.  Vandinn í allri þessari umræðu er þessi.  Sérfræðingar í hafnargerð, bæði hér á landi og erlendis, telja breytingar á Landeyjahöfn ekki líklega til að gera mögulegt að nýta hana með góðum árangri fyrir stærri skip.  Núna seinast komust t.d. þýskir sérfræðingar að þeirri niðurstöðu að lenging á hafnargörðum myndu hreinlega gera höfnina verri.  Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá eru engin áform uppi um breytingar á Landeyjahöfn sem verða til þess að hægt verði að nýta stærra skip í siglingum þangað með góðum árangri næstu árin.  Við gertum gert tvennt.  Sagt eins og Snæfríður Íslandssól „heldur þann versta en þann næst besta“ eða gert þá kröfu á ríkið að tafarlaust verði ráðist í þær aðgerðir sem ríkið eða ráðgjafar þeirra telja líklegastar til árangurs.  Engum hefur dulist að samgönguyfirvöld telja að með nýju skipi verði hægt að nýta Landeyjahöfn langt umfram það sem nú er og auka þjónustuna við bæjarbúa.  Bæjarstjórn hefur því sagt sem svo: „Telji ríkið, sem ábyrgðaraðili samgangna, að vandi samagangna á sjó verði leystur með smíði á nýju skipi þá hvetur bæjarstjórn til þess að tafaralaust verði ráðist í slíka nýsmíði og smíðatíminn nýttur til að gera þær breytingar á Landeyjahöfn sem til þarf til að nýja skipið standist þær vætingar sem til þess eru gerðar. Þær breytingar sem snúa að höfninni eru fyrst og fremst fólgnar í nýjum og öflugri aðferðum til dýpkunar.“

 

Þykir þér samhljómur á milli þeirra áherslna sem eru í hönnun á nýsmíði og þess sem fram kemur í umræddri könnun?

Já í raun þykir mér alger samhljómur og meiri en ég átti von á.  Þannig vilja eingöngu 3,8% aðspurðra að hin nýja ferja verði eingöngu hönnuð með siglingar í Þorlákshöfn í huga en 96,2% eru ekki fylgjandi því.  Langflestir vilja að ferjan sé hönnuð til siglinga bæði í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn.  Undir það tek ég persónulega svo fremi sem höfuðáhersla sé lögð á að hún geti sem oftast siglt í Landeyjahöfn.  Ítrekað hefur einnig komið fram að stýrihópur um hönnun hefur lagt mikla áherslu á að ferjan geti haldið uppi viðunandi samgöngum við Þorlákshöfn í þeim tilvikum sem ekki verður hægt að sigla í Landeyjahöfn.  Með hagsmuni atvinnulífsins verður til að mynda að tryggja öryggi í flutningi afurða og þar fram eftir götunum.   Það vekur einnig athygli mína í þessu samhengi að 16,1% aðspurðra á aldinum 30 til 49 ára vilja að ferjan verði eingöngu hönnuð til siglinga í Landeyjahöfn en 35,7% þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára vilja það.  Það sýnir enn og aftur að yngra fólk, íbúar framtíðarinnar, vilja ekki sigla í Þorlákshöfn og gera aðrar kröfur en við sem eldri eru.  Í ljósi þess að núna eru um 530 eldri borgarar í Vestmannaeyjum en eftir 10 ár verða þeir nálægt 1000 þá held ég að okkur sé hollt að hafa það í huga að við verðum að hugsa fast um hagsmuni þeirra sem erfa skulu landið.

 

Um 72% telja ekki að Landeyjahöfn eigi eftir að þjóna samgöngum við Vestmannaeyjar allt árið um kring. Hvað þykir þér um það?

Þegar maður skoðar þá niðurstöðu í samhengi við að 96,2% vilja ekki að nýtt skip verði eingöngu hannað með siglingar í Þorlákshöfn í huga þá hlýtur að mega skilja það sem svo að bæjarbúar vilja sigla eins mikið í Landeyjahöfn og mögulegt er, jafnvel þótt slíkt verði ekki hægt árið um kring.  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ríkinu beri fullkomin og alger skylda til að tryggja samgöngur um Landeyjahöfn allt árið. Fyrr sé þessum kafla ekki lokið.

 

Eitthvað að lokum?

Ég ítreka þakkir til Eyjar.net fyrir þessa skoðunarkönnun.  Hún er klárlega hvatning til bæjarstórnar um að vanda áfram til verka og sýna yfirvegun og stillingu í þessu mikilvæga máli.  Takist okkur ekki að leiða þetta verkefni farsællega til lykta á næstunni þá verður ástandið okkur erfitt. 

 

Hér má sjá umrædda könnun.

Á morgun birtum við viðbrögð Jórunnar Einarsdóttur, oddvita E-listans við könnuninni.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%