Georg Eiður Arnarson skrifar:

Samgöngur og veður

25.Febrúar'15 | 20:50

Er það heitasta í umræðunni í dag og margir eru á því, að veðurfarið að undanförnu sé búið að vera óvenju erfitt, en ég er ekki sammála því, þó þetta hafi vissulega verið leiðinleg tíð, þá er alltaf möguleiki á sjóveðri hjá mér þegar lægðirnar enda í norðanátt. 

Ég man hins vegar eftir febrúar mánuði fyrir ca. 20 árum eða svo, þar sem ég komst aðeins einu sinni á sjó, en í þessum febrúar mánuði er ég kominn með 12 róðra, sem telst þar með vera mjög góður mánuður á trillu í Vestmannaeyjum. Reyndar verið svolítið hvasst í sumum róðrunum, en bullandi fiskur. 

Varðandi samgöngurnar, þá er aldeilis mikið búið að gerast frá því að ég skrifaði síðast og tók m.a. eftir því að í síðustu viku, lýsti bæjarstjórnin, með bæjarstjórann í fararbroddi, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar yfir stuðningi við skipstjórana á Herjólfi, en einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að margar ferðir væru að detta út, en þetta var bara mjög ánægjulegt í svona nokkurs konar framhaldi af áramóta grein minni, batnandi mönnum er best að lifa. 

Frétti reyndar af því um daginn að upp hefði komið sú staða umborð í Herjólfi, að menn hefðu verið í vafa hvort þeir ættu að fara eða ekki, en einhver sagði víst: "Við verðum víst að fara, því Blíðan er farin á sjó." 

Grein Sveins Rúnars Valgeirssonar var afar góð, enda Svenni nokkuð örugglega sá maður hér í Eyjum sem þekkir aðstæður við Landeyjahöfn hvað best. Ég er hins vegar ekki alveg sammála honum í því að höfnin sjálf sé ekki hluti af vandamálinu, enda kom fram í viðtali við verktakana sem voru nýlega að gera veg að innanverðu við austari garðinn, að sandfjaran inni í höfninni væri farin að ganga inn í höfnina sjálfa, svo eitthvað verður nú að gera í því. Svo er aftur spurning hvort að, ef mönnum beri gæfa til þess, að fá stærri og gangmeiri ferju heldur en núverandi Herjólf, hvort það sé nokkuð svo mikið mál að stækka höfnina aðeins?

Ég skoraði á Eyjamiðlana í haust, í grein, að setja af stað skoðanakönnun meðal Eyjamanna um framtíð samgöngumála okkar og er mjög ánægður með að sjá viðbrögðin við því og m.a.s. bæjarstjórinn er farinn að tala um að kanna hug Eyjamanna, en mér finnst það reyndar vera svolítið seint í rassinn gripið hjá honum. 

Þær niðurstöður sem liggja nú þegar fyrir inni á eyjar.net eru ótrúlega skýrar, og að mínu mati, mjög ánægjulegar. Milli 80 og 90% þeirra sem spurðir voru telja það lykilatriði að næsta ferja verði stærri, gangmeiri heldur en núverandi ferja og geti með öruggum hætti siglt til Þorlákshafnar. Niðurstaðan kemur í sjálfu sér ekki á óvart, en ég held að þeir sem ekki eru sammála þessu, ættu að hafa það í huga að það er algjörlega óvíst að minni og léttari ferja, með minni ganghraða og minni djúpristu heldur en núverandi ferja, geti haldið uppi siglingum alla daga yfir háveturinn til Þorlákshafnar , en Landeyjahöfn er að sjálfsögðu meira og minna stífluð af sandi, eins og fram kom í byrjun ársins. 

Ég sá að Sigurður Áss tjáði sig um grein Sveins Rúnars, og í sjálfu sér lítið um það að segja, en enn og aftur talar Sigurður um að vandamál Landeyjahafnar séu fyrst og fremst sandburður og ekki rétta ferjan í höfnina, og enn og aftur er ég honum algjörlega ósammála. Ölduhæðin og straumar hafa að sjálfsögðu mikið að segja líka og í sjálfu sér vill ég ekki hugsa þá hugsun til enda, eða amk. ekki orða hana, hvað gerist ef þessi sérhannaða ferja fyrir Landeyjahöfn kemur einhvern tímann, og sérfræðingarnir hafa enn einu sinni reiknað rangt og búið verði að selja Herjólf í burtu héðan. 

Þetta eru einfaldlega atriði sem mega ekki verða.

Ég mætti á súpufund Ásmundar Friðrikssonar fyrir nokkru síðan og tók eftir því að flestar fyrirspurnir voru varðandi niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, en ég spáði því einmitt strax 2007, að ef Landeyjahafnar leiðin yrði valin, þá myndi ríkið nota það sem afsökun til þess að skera niður það fjármagn sem færi m.a. til Sjúkrahúss Vestmannaeyja og ég tel að það hafi einmitt gengið eftir, við Eyjamenn munum aldrei fá allt fyrir ekki neitt.

Að lokum þetta: Það er mikið fjallað um hversu gríðarleg aukning hefur orðið á ferðamönnum til Eyja með tilkomu Landeyjahafnar, 300.000 farþegar á móti 120.000 þegar bara var siglt til Þorlákshafnar, en að sjálfsögðu hefði líka orðið aukning á ferðamönnum ef stærri og gangmeiri ferja hefði verið fengin til siglinar til Þorlákshafnar og að sjálfsögðu, ef við værum að tala um að það væru komin göng, þá værum við sennilega að tala um allt að milljón ferðamenn til Eyja á hverju ári.

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-