Hart tekist á í bæjarstjórn í gær

-Minnihlutinn vill færa fjármagn frá Fiskiðju til Hraunbúða

20.Febrúar'15 | 09:43

Í gær var fundur hjá bæjarstjórn Vestmannaeyja. Þar var lögð fram af hálfu E-listans breytingartillaga á fjárhagsáætlun, sem búið er að samþykkja. Tillagan gekk út á að taka þá fjármuni sem áætlaðir eru í uppbyggingu Fiskiðjuhússins og setja það í hönnun og stækkun Hraunbúða.

Í samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 2 milljónum til undirbúnings byggingar Hraunbúða á meðan 120 milljón kr. framlag var samþykkt í áætluninni.

 

Töluvert tekist á.

Fulltrúar framboðana tókust töluvert á um málið og gengu bókanir á víxl.

Páll Marvin sagði að hann teldi fjárhæðina sem kom fram í erindi frá félagi eldri borgara sem sent var til bæjaryfirvalda, ekki rétta. Þá sagði hann SASS (Samband Sunnlenskra sveitafélaga) vera að gera greinagerð um stöðuna í öldrunarmálum. Þá sagði hann ástandið hér sé ekki gott, er kemur að þessum málum.

Ennfremur sagði Páll að sjö rými séu á Sjúkrahúsinu – sem bærinn hefur ekki aðgang að. Beðið sé eftir fundi með Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra. Þá sagði hann verið að senda inn umsókn til framkvæmdasjóðs aldraðra um að byggja við Hraunbúðir 6 rými til viðbótar.

Næstur í pontu kom Elliði Vignisson og furðaði hann sig á að minnihlutinn væri að taka þetta mál úr faglegum og góðum farvegi og búa til pólitískt þrætuefni úr mjög viðkvæmu máli. Þá beindi Elliði spurningu að bæjarfulltrúum minnihlutans, „Í hvað eiga þessir peningar að fara?“

 

Ágreningur um fyrir hvaða ár verið sé að sækja um fjármagn í Framkvæmdasjóðinn.

Aftur kom Stefán Óskar Jónasson, fulltrúi E listans í ræðustól og sagðist hafa talað við framkvæmdasjóð aldraðra. Tjáði hann fundarmönnum að það þurfi að senda inn nákvæmlega hvernig á að framkvæma og fjármagna verkefnið. Liggur fyrir hvernig á að breyta Hraunbúðum? Samkvæmt áætlun er stefnt á að ráðast í framkvæmdir 2016. Stefán telur ástand þessara mála það slæmt að bæjaryfirvöld geti ekki beðið.

Hvað er þetta stór upphæð sem sagt var við sjóðin um að bærinn ætlaði að leggja í þetta? spurði Stefán.

 

Elliði sagði þá að framkvæmdin stoppi ekki á fjármunum. Öllum sem hér eru – er ljóst að það þarf að fara í framkvæmdir í þessum málaflokki.

Trausti Hjaltason sagði unnið á faglegan og góðan máta. Telur málið í mjög góðum farvegi. Er að fara í hönnunarferli. Hann sagðist ekki átta sig ekki á tillögu minnihlutans.

Páll Marvin benti á að fulltrúi E lista í fagráðinu hafi samþykkt allt sem þar kom fram. Skilur ekki vinnubrögðin. Ekki í fyrsta sinn sem E listinn kemur með tillögu um að fresta framkvæmdum  á Fiskiðju-húsinu.

Einnig benti Páll á að það kostar mikið að reka hvert hjúkrunarrými. Nú þegar sé 40 milljón kr halli á rekstrinum á ári.

 

Hér er tillaga E-listans:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir, að stað áætlaðra framkvæmda við endurgerð Fiskiðjunnar að upphæð 120 milljón kr. sbr. fjárhagsáætlun ársins 2015, bókhaldslykill 32-11, verði gert ráð fyrir hönnun og stækkun Hraunbúða, með breytingum á fjárhagsáætlun úr 2 milljón kr. Bókhaldslykill 65-11-4970, í 122 milljón kr..
 
Vestmannaeyjum 19. febrúar 2015.
Stefán Óskar Jónasson
Jóhanna Ýr Jónsdóttir

 

Tillagan var felld með fimm atkvæðum D-listans gegn 2 atkvæðum E-listans.

 

D-listin lagði í framhaldi fram eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar meirihlutans benda fulltrúum E-listans á að beðið er eftir svörum frá Framkvæmarstjóði aldraða um það hvort  styrkur fáist frá sjóðnum til að ráðast í framkvæmdir. Þá er einnig unnið að samningum við HSU varðandi nýtingu á 7 hjúkrunarrýmum sem eru staðsett á HSU. Mikilvægt er að klára þá vinnu áður en ráðist er í tilviljanakenntar breytingar á verkferlum. Bæjarfulltrúar D-lista vilja einnig ítreka það sem áður hefur komið um að stefnumótun í málefnum aldraða hefur hingað til verið unnin á faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Seinast í gær fundaði stýrihópur um málefni aldraða og þar eins og í öll önnur skipti samþykkti fulltrúi E-lista allt sem fram kom án nokkura vísbendinga um ósætti eða ábendinga um að E-listi teldi fjármagns vant. Að lokum skal ítrekað að framvinda í málefnum aldraða strandar ekki á fjármagni og tillaga E-lista er því til þess eins að taka málefni úr farvegi sátta og setja í farveg átaka.  Í því mun D-listi ekki taka þátt.
Páll Marvin Jónsson
Trausti Hjaltason
Birna Þórsdóttir
Elliði Vignisson
Hildur Sólveig Sigurðardóttir

 

E-listin lagði því næst fram eftirfarandi bókun:

Ef þetta er ekki spurning um að þetta  strandi á fjármagni af hverju er verið bíða eftir svari frá Framkvæmdarsjóði aldraða? Þetta verkefni er bara orðið svo brýnt í Vestmannaeyjum í dag að við teljum mikilvægt að leggja meiri kraft í þetta. Góð samvinna í stýrihópi hefur ekkert með þessa tillögu að gera. Þau eru að vinna að lausnum til framkvæmda og hefur sá hópur unnið gott starf. Öll peningavöld liggja aftur á móti hjá bæjarstjórn. Því má ekki draga heilindi fulltrúa E-lista í stýrihópi í efa.
Stefán Óskar Jónsson
Jóhanna Ýr Jónsdóttir

 

Og enn var bókað: D-listi fram eftirfarandi bókun:

Meirihlutinn ítrekar það sem áður hefur komið fram um að í málefnum sveitarfélagsins er vönduð stjórnsýsla tekin alvarlega. Það verður að teljast með öllu óábyrgt að leggja til að ráðist verði í framkvæmdir við hjúkrunarheimili án þess að fyrir liggi samningur um rekstur við ríkið sem er ábyrgt fyrir slíku. Sérstaka undrun vekur að tillaga um slíkt komi fram þegar fyrir liggja áætlanir um að ráðast í síkar samningaviðræður.  Þrátt fyrir þetta upphlaup E-lista mun meirihluti D-lista áfram leggja áherslu á samstarf við hagsmunaaðila með það að markmiði að nýta árið 2015 til undirbúnings í málefnum aldraða til að verklegar framkvæmdir geti hafist árið 2016.
Páll Marvin Jónsson
Trausti Hjaltason
Birna Þórsdóttir
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Elliði Vignisson

 

Í framhaldi af þessu var 2. liður í fundargerð Bæjarráðs Vestmannaeyja nr. 2997 frá 17. Febrúar s.l. samþykkur með 5 atkvæðum D-lista en bæjarfulltúar E-lista sátu hjá.

 

Að endingu kom fram skýring frá yfirstjórnendum Vestmannaeyjabæjar um málið, en þar segir:

Við yfirstjórnendur bæjarins fórum aðeins yfir þetta í morgun og til viðbótar teljum við rétt að upplýsa um að á seinustu þremur árum hefur Vestmannaeyjabær lagt rúmlega 126 milljónir með þeim rekstri á Hraunbúðum sem er á ábyrgð ríkisins.  Vestmannaeyjabær hefur sem sagt tryggt öldruðum hjúkrunarými langt umfram það sem ríkið greiðir fyrir.  Eins og fram kom bæði á fundinum í gær og 23. janúar sl. þá var það stefna allrar bæjarstjórnar að nýta árið 2015 til að undirbúa framkvæmdir og semja við ríkið um viðbótar rekstur.  Árið 2016 átti hinsvegar að ráðast í framkvæmdir. 

Á fundinum 23. Jan var svohljóðandi ályktun flutt og samþykkt af öllum bæjarfulltrúum:

„Bæjarstjórn tekur fyrir sitt leyti undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti stýrihóps um málefni eldri borgara og telur brýnt að hefjast sem fyrst handa og stefna að fullri innleiðingu á aðgerðaráætlun á 2 til 4 árum. Æskilegt væri að nýta árið 2015 til undirbúnings, hönnunar og samningagerðar og hefja verklegar framkvæmdir og innleiðingu nýrra þjónustuþátta árið 2016“.

 

Á fundinum í gær kom hinsvegar sá krókur á málið sem fram kemur í bókununum.

Við höldum að fullyrða megi að lykilatriðið af hálfu Vestmannaeyjabæjar sé ekki að byggja heldur að tryggja þá þjónustu við eldriborgara sem fram á að fara í þessum byggingum.  Það er til lítils að byggja ef ekki ríkið –sem er eitt ábyrgt fyrir rekstri hjúkrunarrýma- tryggir ekki rekstur.  Vandinn er því sá að ríkið ber ábyrgð á hjúkrunar þjónustunni.

 

Varðandi málefni eldri borgara þá kom fram hjá fundarmanni að í dag bíða 29 aðilar eftir plássi á Hraunbúðum sem nú þegar eru komnir með vistunarmat. Þar eru í dag rými fyrir 36 manns og síðan er pláss fyrir 7 aðila á HSVE. Þá er brýnt að koma á deild innan Hraunbúða sem hýsir það fólk sem er heilabilað.

 

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.