Leiðtogaþjálfun Skátafélagsins

20.Janúar'15 | 20:21
skatar200115

Þátttakendur í Eyjum um helgina með hluta leiðbeinenda og formanni Björgunarfélagsins sem fór með hópnum í góða ferð.

Það er óhætt að segja að nokkur ævintýrablær hafi verið á Gilwell-leiðtoganámskeiðinu sem haldið var nú um helgina í Vestmannaeyjum og var staðsetningin nýtt til hins ítrasta. Heimamenn buðu upp á skoðunarferðir og ýmsa skemmtilega upplifun.

Flestir gistu  í Skátastykkinu eins og skáli Skátafélagsins Faxa er kallaður. Þar fór einnig kennsla og æfingar fram. Á laugardagskvöld var farið í Fab Lab sem Frosti félagsforingi Faxa veitir forstöðu í Vestmannaeyjum. Eftir stutta kynningu á hvað Fab Lab er fengu allir að prufa tæki og tól og voru margir sem fóru heim með eitthvað sem þau bjuggu til á staðnum. „Ótrúlega fróðlegt og flott að fá að kynnast því frábæra starfi sem þar fer fram,“ sagði Ólafur Proppé sem stýrir Gilwell-leiðtogaþjálfuninni.

 

Yngri þátttakendur vilja helgarpakka og „borgarferðir“

Þátttakendur voru á ólíkum aldri og gátu sótt í misstóran reynslusjóð af skátastarfi. Umræður urðu sannarlega uppbyggjandi og gefandi í hópnum og milli þátttakenda og leiðbeinenda. Af þátttakendunum fimmtán voru  fjórir Eyjaskátar og var Frosti Gíslason, félagsforingi skátafélagsins Faxa í Eyjum, einn þeirra og var hann áhugasamur um að námskeiðið yrði haldið í Eyjum til að styrkja starf félagsins með fræðslu.  Aðrir þátttakendur komu frá Selfossi, Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og fengu þeir ferðalagið og dvöl í Eyjum í bónus. Stjórnendur og leiðbeinendur voru fjórir sem allir komu úr Gilwell-teyminu sem ber ábyrgð á Gilwell-leiðtogaþjálfun BÍS. Auk Ólafs Proppé leiðbeindu Benjamín Axel Árnason, Dagbjört Brynjarsdóttir og Hanna Guðmundsdóttir.

Athygli vakti að þátttakendur nú voru nokkuð yngri en á síðustu leiðtoganámskeiðum og bendir það til að  yngri skátar vilji fá sína leiðtogafræðslu í helgarpökkum og „borgarferðum“.  Aldurstakmark í Gilwell-leiðtogaþjálfunina er 18 ár en meðalaldur þátttakenda í Eyjum var tuttugu og tvö ár.

 

Skemmtilegheit, skátaaðferðin og skýr uppeldismarkmið

 

Í Gilwell-þjálfuninni nú um helgina var boðið var upp á fyrstu tvö skrefin af þeim fimm sem leiðtogaþjálfunin tekur. Fyrsta skrefið tekur til skátaaðferðarinnar og starfsgrunns skáta. Þar er leitað svara við því hvað gerir skátastarfið að skemmtilegu ævintýri, hver uppeldismarkmið þessu eru og hvernig starfið fer fram, einkum í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á starfsgrunni skáta.

Í öðru skrefi er fjallað um markmið og leiðir í skátastarfi. Lögð er áhersla á að þátttakendur sjái tengslin á milli markmiða og ólíkra þroskasviða. Unnið er með þeim í að sjá sig sem leiðtoga og fá þá til að meta eigin styrk og veikleika.  Fjallað er um mikilvægi þess fyrir leiðtoga að vinna í teymi með öðrum og undirstrikað er að góður leiðtogi sé einnig „leiðtogi í eigin lífi.“

Frosti bauð í heimsókn í FabLab smiðjuna í Eyjum.

Frosti bauð í heimsókn í FabLab smiðjuna í Eyjum.

Eyjamenn tóku vel á móti hópnum

Ólafur Proppé vildi færa Eyjamönnum sérstakar þakkir fyrir frábærar móttökur. „Grímur Kokkur, fyrirtækið og eigandi, sá til þess að við vorum vel fóðruð. Eldheimar kynnti okkur fyrir gossögunni, Björgunarfélagið sem fór með okkur í skemmtilega kynnisferð um Heimaey, Aska Hostel sem hýsti leiðbeinendur og síðast en ekki síst Fab Lab fyrir að kynna okkur fyrir undrum tækninnar.“ sagði Ólafur.

 

Þátttakendur voru:

 

 1. Hjördís Þóra Elíasdóttir, Vífli í Garðabæ                                                    
 2. Fanndís Eva Friðriksdóttir,Vífli í Garðabæ
 3. Frosti Gíslason, Faxa í Vestmannaeyjum
 4. Bjarnheiður Hauksdóttir,Fossbúum á Selfossi
 5. Halldór Fannar Sveinsson, Vífli í Garðabæ
 6. Arnar Ingi Guðnason, Hraunbúum í Hafnarfirði
 7. Þórdís Rún Káradóttir, Hraunbúum í Hafnarfirði
 8. Bjarni Freyr Þórðarson, Hraunbúum í Hafnarfirði
 9. Kári Höskuldsson, Faxa í Vestmannaeyjum
 10. Hörður Bjarnason, Faxa í Vestmannaeyjum
 11. Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, Fossbúum á Selfossi
 12. Daníel Bergur Ragnarsson, Fossbúum á Selfossi
 13. Unnur Líf Kvaran,Fossbúum á Selfossi
 14. Vigdís Rafnsdóttir, Faxa í Vestmannaeyjum
 15. Tómas Tjörvi Guðmundsson, Svönum á Álftanesi

Skátastykkið var vel nýtt yfir helgina

Skátastykkið var vel nýtt yfir helgina

 

 

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is