Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Þunglyndi, bölvun eða blessun

19.Janúar'15 | 22:59

Ég var svo heppin að greinast með fæðingarþunglyndi eftir að ég eignaðist yngri skessuna mína. Já, mér finnst ég heppin því þótt ég hafi stundum liðið vítiskvalir, ekki komist á fætur vegna lamandi kvíða og vakað heilu sólarhringana vegna hræðslu við að deyja þá hefur ferlið mitt við að ná bata kennt mér svo ógnar margt og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Það er nefnilega engin klisja að það sem ekki drepur okkur geri okkur sterkari.

Mitt fæðingarþunglyndi náði hámarki þegar ég og fyrrverandi eiginmaður minn og barnsfaðir vorum að spóka okkur um í Kringlunni með litlu fallegu stelpuna okkar, hún þá fimm mánaða, að ég uppgvötaði á Stjörnutorginu að hún var búin að missa snuðið sitt og tókst mér ómögulega að finna það. Það skipti engum togum að ég byrjaði að gráta og garga. Á þessum tímapunkti hefði ég þurft á innlögn á geðdeild að halda og maðurinn minn þurft einhverskonar áfallahjálp. Það var þó eftir þennan atburð sem barnsfaðir minn fór með mig til læknis á fölskum forsendum og á þeirri stundu hófst  bataferlið mitt sem enn stendur yfir þótt ég sé ansi langt á veg komin.

En þá að því af hverju ég tel mig vera heppna að hafa fengið það verkefni að glíma við fæðingarþunglyndi og út frá því þunglyndi og kvíða. Ég hef kynnst mikið af góðu fólki í gegnum öll meðferðarúrræðin sem ég hef farið í gegnum. Ég fór í hugræna atferlismeðferð sem er snilldar tæki, ég fór í viðtöl á geðdeild sem gerði endalaust mikið fyrir mig og bý ég enn að því að hafa fengið að tala við marga fagaðila þar. Ég hitti sálfræðing sem hjálpaði mér mikið til þótt það henti mér ekki ofsalega vel að heyra staðreyndir um það af hverju ég sé eins og ég er, ég er meira fyrir að ræða tilfinningar mínar í tætlur og vinna með þær í kjölfarið. Því öðlaðist ég nýtt líf þegar ég fór tvisvar í gegnum 12 sporin í Landakirkju Vestmannaeyja þar sem ég fékk svo sannarlega að ræða um tilfinningar mínar, kafa djúpt ofan í sál mína og takast á við alls konar mál sem biðu þess að ég tæki á þeim. Ekki skemmdi það fyrir að hitta þar einu sinni í viku fólk sem glímdi við alls kyns erfiðleika og var þarna á sömu forsendum og ég, við vildum verða heil á ný og virkilega takast á við það sem gerði það að verkum að við vorum bara hálf. Í kjölfar 12 sporanna hef ég verið svo heppin að hitta trúnaðarmann minn nokkrum sinnum yfir árið og þar fæ ég að tjá mig óhikað, græt þegar ég þarf, verð reið þegar þess þarf og fæ ég  mikinn stuðning, ráð og handleiðslu. Yndisleg vinátta hefur sprottið af þessum samtölum og er það enn eitt sem ég hef grætt á þessu verkefni mínu, þunglyndinu.

Í mínu tilfelli sannast líka hið margkveðna að engin er eyland og án fólksins í kringum mig væri ég óttalegt hró. Það er ómetanlegt að eiga fólk að sem er tilbúið að hlusta, veita ráð þegar þess þarf og er líka bara tilbúið að þegja og leyfa mér að tala þegar það er það sem ég þarfnast. Ég hef virkilega sterkt stuðningsnet í kringum mig sem dæmir mig ekki heldur fagnar því hvernig ég er. Það fagnar mér líka í janúar þegar ég er leiðinlegasta manneskja á jarðríki og vil helst ekki tala við neinn, vil ekki fara neitt og vil bara vera heima í sófanum mínum að horfa á Dr.Phil og Glæstar vonir. Yndislega fólkið mitt talar þá bara þeim mun meira við mig á facebook, hringir oftar og sendir mér oftar sms þar sem það leyfir mér að finna að ég er þess virði að vera til og það verður til staðar þegar ég dett sterk inn aftur.

En bataferlið mitt er ansi langt á veg komið þótt ég viti að ég þarf alltaf að vera á  tánum gagnvart þunglyndinu og mun þurfa þess allt mitt líf því það á það til að liggja í leyni og birtast svo þegar ég á síst von á því. En ég er þakklát fyrir verkefnið mitt því það hefur kennt mér svo margt, gefið mér mikla reynslu sem hefur þroskað mig og gert mig umburðarlyndari, kærleiksríkari og fordómaminni gagnvart öðru fólki því jú við erum öll alls konar og öll erum við að glíma við eitthvað.

Fögnum fjölbreytileikanum elsku fólk, dæmum ekki það sem við ekki þekkjum og verum ekki feimin við að breiða út smá gleði og hamingju, það hefur engan drepið hingað til ☺

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).