Surtsey eða Vesturey?

15.Janúar'15 | 10:26

Mývetningar fá að eiga frumkvæði að nafngift nýrra náttúrufyrirbæra sem verða til vegna eldgossins í Holuhrauni, samkvæmt frumvarpi um örnefni, sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra vonast til að verði fljótlega að lögum frá Alþingi.

Það gerir ráð fyrir að viðkomandi sveitarstjórn finni ný nöfn, í samráði við örnefnanefnd, en ráðherra þarf þó að staðfesta tillöguna.

Ekki er víst að Surtsey héti því nafni í dag, ef þessari aðferð hefði verið beitt árið 1963. Þá gerðist það, þremur vikum eftir upphaf neðansjávargossins, að Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra fól örnefnanefnd að gera tillögu um nafn. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður var þá formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn voru Halldór Halldórsson, Ágúst Böðvarsson, Pálmi Einarsson og Magnús Már Lárusson.

Í frásögn Halldórs Halldórssonar af aðdraganda nafngiftarinnar, sem birtist 30 árum síðar í Lesbók Morgunblaðsins, kemur fram að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur hafi þrýst á að nafn kæmi fljótt en hann var fenginn til að vera ráðgjafi nefndarinnar.

„Ég minnist þess að Sigurður Þórarinsson sagði mér á fundinum að nauðsynlegt væri að festa nafn á eyjunni vegna þess hve mikið væri skrifað um eldgosið og eyjuna bæði hérlendis og erlendis,“ sagði Halldór.

Meðal annarra nafna sem til greina komu á nýju eyjuna voru Svartey og Vesturey.

„Ekki felldi Sigurður Þórarinsson sig við nafnið Svartey og sagði, ef til vill meira í gamni en alvöru, að eyjan kynni síðar að verða hvít af fuglsdriti og yrði Svartey þá öfugmæli.

Þegar nafnið Svartey var úr sögunni, fórum við Sigurður að stinga saman nefjum í því skyni að reyna að gefa eyjunni þjóðlegt og helst dálítið frumlegt nafn, laust við alla lágkúru. Hrökk þá út úr okkur nafnið Surtshellir.

Og þá var vandinn leystur. Auðvitað skyldi eyjan heita Surtsey. Hvor okkar varð fyrri til að nefna nafnið Surtsey, man ég ekki. Hitt er ég viss um að hugmyndin að baki er okkar beggja, það var örnefnið Surtshellir og hugmyndin um eldjötuninn Surt, sem flugu okkur báðum í hug,“ segir í frásögn Halldórs.

Ráðherra féllst á þessa tillögu örnefnanefndar og þann 9. desember 1963 auglýsti ráðherra formlega að eyjan skyldi heita Surtsey og gígurinn Surtur.

En þar með var málinu ekki lokið. Margir í Vestmannaeyjum lýstu óánægju með Surtseyjarnafnið og fjórum dögum síðar, þann 13. desember sigldi hópur Eyjamanna við illan leik út í gjósandi eyjuna og setti þar niður íslenska fánann, skjaldarmerki Vestmannaeyja og skilti sem á stóð „Vesturey“.

Samtök voru stofnuð í Vestmannaeyjum, Vestureyjarsamtökin, og hófu þau undirskriftasöfnun þar sem Surtseyjarnafninu var lýst sem óhæfu og þess krafist að nafni Surtseyjar yrði breytt í Vesturey. Undirskriftirnar voru afhentar örnefnanefnd í marsmánuði 1964. Í apríl sama ár sendi örnefnanefnd svar til baka þar sem kröfu um nafnbreytingu var hafnað.

Heitir eyjan því  enn í dag „Surtsey“.

Þá er einnig spurning hvort Eldfell á Heimaey héti því nafni í dag, hefðu Eyjamenn fengið að ráða. Meðal þeirra var ríkur vilji fyrir því árið 1973 að nýja fellið fengið nafnið Kirkjufell. Niðurstaða örnefnanefndar var tilkynnt 24. apríl 1973, þremur mánuðum eftir að gosið hófst. Hið nýja eldfjall skyldi heita Eldfell. Þá voru enn rúmir tveir mánuðir til gosloka og ekki séð hvert endanlegt útlit fjallsins yrði.

 

Vísir.is.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.