Áramótauppgjör Jórunnar

31.Desember'14 | 12:12

Jórunn

Eyjar.net bauð oddvitum beggja flokka sem eiga sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja að gera upp árið. Jórunn Einarsdóttir, oddviti Eyjalistans sendi uppgjör sitt í morgun og má lesa það hér að neðan.

Nú árið er liðið í aldanna skaut og ég lít yfir farinn veg að beiðni ritstjóra www.eyjar.net

Ég sá nú fyrir mér að ég hefði nægan tíma svona í jólafríinu til að fara yfir pólitíkina á árinu en einhverra hluta vegna hummaði ég þetta fram af mér alveg fram á síðasta dag. Mig langaði svo sem ekkert að fara yfir pólitíkina eina og sér. Kannski vegna þess að ég hef ákveðið að hætta - í bili.  Þið fáið því í staðinn annál ársins.

 

Smá svona uppgjör.

 

Árið 2014 var fyrir margra hluti merkilegt og einkenndist af miklum hraða,  framkvæmdagleði, alls konar skemmtilegum uppákomum, vonbrigðum og töluverðri streitu. Ég stundaði mína vinnu sem umsjónakennari og líkaði ákaflega vel. Grunnskóli Vestmannaeyja er frábær vinnustaður og starfsfólkið þar er stórkostlegt.

 

Áramótaheit fyrir árið 2014 voru engin, ekki frekar en fyrri daginn. Ég ætlaði  nú samt örugglega að mæta í Hressó og gera einhverjar kúnstir þar en það fór lítið fyrir því. Ég þykist líka alltaf ætla að vera duglega að fara í sund með krakkagormana en einhvern veginn dettur það líka uppfyrir.

 

Það lá ljóst fyrir í upphafi árs að ráðast þyrfti í töluverðar framkvæmdir á heimilinu. Og þau ykkar sem hafið ákveðið að leggja í slíka vegferð vitið að það er ekkert létt verk. Skemmst er frá því að segja að framkvæmdir hófust í febrúar og þeim lauk í október.  Ég viðurkenni reyndar að verkefnið varð örlítið stærra heldur en upphaflega var gert ráð fyrir.

 

Þá fór að líða að vori og kosningar framundan. Skellt var í tónleika í millitíðinni, geðfatlanum með tilheyrandi undirbúningi og myndbandagerð. Annars fer þetta með kosningar hjá mér að verða eins og almenn vorverk. Taka til í bílskúrnum, henda úr skápunum, bera á grindverkið og undirbúa kosningar.

 

Ég hef farið í gegnum allar kosningabaráttur síðan 2007 þegar ég hóf formlega afskipti af pólitík. Bróðir minn hefur líka gantast með það hvort það séu til þær kosningar sem ég hef ekki tekið þátt í. 

 

Eyjalistinn var stofnaður og við sem að honum komum vorum bjartsýn. Öflugur hópur og samstaða var um stefnumálin. Við vorum málefnaleg og dugleg að koma okkur á framfæri í fjölmiðlum.  Niðurstaðan varð hinsvegar sú að við ofurefli var að etja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eitthvert hreðjartak á Eyjamönnum sem erfitt er að vinda ofan af og það er auðvitað ákveðin hefð í í því hér í Eyjum að styðja Sjálfstæðisflokkinn. 

 

Við höfum fengið ótalmargar skýringar á því hvers vegna okkur hafi ekki gengið betur og það sem svíður kannski mest er að persónur eru nefndar í því samhengi - og ég ekkert undanskilin í því. Það þótti t.d. ekki töff að hafa þrjá yfirlýsta feminista í efstu sætum. Svona rauðsokkur! Þá held ég að afstaða mín til veiðileyfagjalda hafi reynst okkur dýrkeypt.  Þar fyrir utan var ekkert okkar með tengsl hjá stóru útgerðunum og ég held að það hafi líka haft áhrif.

 

Þessar raddir yfirgnæfðu það sem raunverulega skipti málið að mínu mati sem voru málefni sveitarfélagsins. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna, líka í sveitarstjórn. Málefnin okkar voru mörg og m.a. þessi; Frístundakort, tryggja búsetuúrræði fyrir fatlaða og aldraða - við lögðum sérstaka áherslu á að ráðast strax í það að útbúa lokaða deild inni á Hraunbúðum fyrir fólk með heilabilun og efla starfsemi Rauðagerðis.  Þetta eru málaflokkar sem ekkert svigrúm fengu í fyrstu fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili.

 

NIðurstöður kosninganna voru auðvitað gríðarleg vonbrigði og eiginlega algjört áfall. Ég er ekki viss um að fólk sem stendur fyrir utan pólitíkina geri sér alveg fyllilega grein fyrir því hvað svona skellur þýðir því ég sem oddviti tók þessu persónulega þó ég eigi auðvitað ekkert að gera það. Ég meina hver viðurkennir veikleika sinn.  Ég hinsvegar leiddi listann og taldi mig bera ábyrgðina. Þannig horfði þetta við mér. Það tók mig því nokkuð langan tima að gera það upp við mig hvort ég vildi halda áfram eða ekki. 

 

Ég fann að ég þurfti að hvíla mig á þessu ati sem pólitíkin hefur verið. Ég viðurkenni þó alveg að það er ögn minna at að sitja núna í bæjarstjórn með þessa ríkisstjórn heldur en þegar “minn flokkur” var í ríkisstjórn og heimsendir virtist yfirvofandi nánast á hverjum einasta bæjarstjórnarfundi af þeirra völdum.  Það fer minna fyrir heimsendaspám þessi misserin :)

 

Innan Eyjalistans er frábært fólk sem mun gera frábæra hluti og halda áfram að berjast fyrir þessum málefnum. Ég get t.d. lofað ykkur því að Sjálfstæðismenn fá ekki frið fyrr en þessi frístundakort verða komin á koppinn.

 

Sumarið tók við með endalausri rigningu og almennum veðurleiðindum. Gústi bætti nú aðeins í sumargleðina með útgáfu fimmaurabrandarabókarinnar sinnar sem hlotið hefur mjög góðar viðtökur.

 

Við ákváðum svo fjölskyldan að taka okkur frí frá Þjóðhátíð og skella okkur til Evrópusambandsins.  Það var dásamlegt. Við heimsóttum góða vini í Lúxemborg og rúntuðum um Evrópu. Það er óhætt að mæla með svona fjölskyldufríi.  Í fríinu gafst okkur hjónum tími til að fara yfir stöðuna, yfir okkar mál og hvað það er sem skiptir máli í lífinu. Við vorum sammála um að nauðsynlegt væri að skipta um takt og að nú væri lag.

 

Mig hefur lengi langað til að ljúka mastersnámi og ég held að það sé tímabært að drífa í því. Námið er fundið og alveg gríðarlega spennandi. Stefnan er því sett á Kaupmannahöfn á sumarmánuðum.

 

Við hjónin lokuðum svo árinu með frábærri uppákomu heima hjá okkur í byrjun nóvember. Þá buðum við vel völdum gestum heim til okkar í það sem við kölluðum Stuen (stofan).  Stilltum upp tónleikasal í stofunni og héldum tónleika með fullt af listafólki héðan úr Eyjum.  Hrikalega skemmtileg uppákoma sem mögulega er komin til að vera. Í það minnsta tók önnur fjölskylda við kyndlinum þetta kvöld og ætlar að endurtaka leikinn.

 

Ég lýk þessu með því að óska öllum Eyjamönnum nær og fjær gleðilegs árs  með þökk fyrir það liðna. 

 

Nýju ári fylgja nýjar áskoranir sem án nokkurs vafa munu viðhalda streitustuðlinum þó eiginmaður minn sé nú sannfærður um að bókin Núvitund (mindfullness) muni taka af okkur mesta kúfinn.

 

Góðar stundir.

Jórunn Einarsdóttir.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.