Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Samt koma jól.....

5.Desember'14 | 06:37

Ég ætla að byrja á því að játa það að ég er ekki búin að taka eldhússkápana í gegn og ég get svo svarið það að ég held það sé mylsna úr brauðristinni í einum skápnum. Ég er ekki heldur búin að finna jólagardínur og talandi um það, þá er ég ekki einu sinni búin að þvo gardínurnar í eldhúsinu og hvað þá stofunni. Ég er líka alveg viss um að ég er ekki heldur búin að taka fataskápana í gegn því ef ég væri búin að því þá væri ég væntanlega búin að finna pilsið sem ég hef leitað að síðan um þjóhátíð(nei, það er ekki einhverstaðar út í bæ ef þið voruð eitthvað að pæla í því).

Ég bjó ekki til aðventukrans úr greni og jólasveppum vegna þess að ég er svo ofsalega heppin að ég fékk að eiga aðventuskálina hennar ömmu Lóu og það þarf ekkert að föndra í hana, bara skella í hana nokkrum könglum, fjórum kertum og málið er dautt. Þetta er afar hentugt fyrir stelpukonu eins og mig sem er álíka skapandi og flóðhestur. Ég man það einmitt núna að ég á einnig eftir að taka jólakortamyndina af dætrunum og svei mér þá, ég á líka eftir að föndra jólakortin. Þegar ég tala um að föndra þá meina ég að setja þau upp í tölvu og prenta út. Ég á ekkert bón þannig að líklega verður eldhúsgólfið ekki bónað fyrir jólin, ekki að það hafi nokkurn tímann verið bónað. En hafið ekki áhyggjur, ég ryksuga annan hvern dag og skúra nokkuð reglulega.

En á móti þessu öllu kemur að ég hef ég hlustað á jólalög síðan 24. október, ég hef horft á að minnsta kosti 10 jólamyndir síðan í byrjun nóvember, ég hef spilað við dætur mínar með jólaöl í annarri og piparkökur í hinni, ég hef sett upp allt dásamlega jólaskrautið í litla kotinu okkar og fengið tár í augun vegna þess að skrautið okkar á nánast allt sína fallegu sögu.

Ég er líka búin að kaupa allar jólagjafirnar handa yndislega fólkinu mínu og hlakka til að vita hvernig þeim líkar það sem ég valdi. Ég hef setið langt fram eftir nóttu, hlustað á jólalög og lesið gömul jólakort. Ég er búin að borða óhóflega mikið magn af mandarínum og notið þess að finna ilminn af þeim því mér finnst mandarínuilmur svo ofsalega góður og jólalegur. Ég er búin að setja jólaljósin í gluggana fyrir löngu síðan vegna þess að ég elska birtuna frá þeim.

Ég er sko aldeilis búin að syngja jólalög með gullunum mínum í leikskólanum, kenna þeim uppáhalds jólalagið mitt og tala um Grýlu og Leppalúða oftar en góðu hófi gegnir. Innan skamms ætla ég svo að  baka uppáhalds smákökurnar með mömmu minni og njóta um leið gæðastunda með henni. Vonandi tekst mér líka að koma á jólahittingi með vinkonum mínum áður en hátíðin gengur í garð, nú ef það tekst ekki þá bara gerum við það milli jóla og nýárs.

Jólin eru minn uppáhalds tími og ég viðurkenni fúslega að ég er svolítið jólageðveik ef svo má að orði komast og hlakka til jólanna allt árið. Ég hef aldrei skilið allt þetta stress og þessi læti við að klára ,,allt“ fyrir jólin, hef líklega bara aldrei náð því hvað þetta ,,allt“ er. En eitt veit ég fyrir víst og það er að jólin fara ekki fram í eldhússkápunum og því þríf ég bara mína skápa þegar þess þarf, gerist jafnvel bara svolítið flippuð og þríf þá í febrúar.

Í mínum huga eru jólin tíminn með fólkinu mínu. Steikin hans pabba á aðfangadag, möndlugrauturinn(tölum ekki um spennuna sem fylgir því hver hreppir möndlugjöfina),  servítettuhringirnir hennar mömmu sem eru svo fallegir, messan í útvarpinu, rölt um kirkjugarðinn í myrkrinu til að tendra ljós á leiðum þeirra sem við elskum og vildum svo innilega að væru enn hjá okkur. Jólin mín eru kúr í sófanum með stelpunum mínum á aðfangadagskvöldi þegar allir eru saddir og sælir eftir matinn hjá mömmu og pabba og hamingjan yfir því sem leyndist í  pökkum undir trénu. Jólin eru þegar Erla mín og fjölskylda koma úr Reykjavík til að fagna með okkur áramótunum á Heiðó. Jólin eru að vaka lengi á kvöldin, sofa lengi á morgnana og njóta þess um leið að þurfa ekki að flýta sér eitt né neitt, heldur geta vaknað í rólegheitunum og verið á náttfötunum eins lengi og maður vill.

Jólin eru tími hamingju, gleði, ástar og fallegu birtunnar í myrkrinu. Gleymum því ekki að ekki eru allir sem hafa tækifæri á því að halda gleðileg jól og í okkar litla samfélagi er mikið af fólki sem kvíðir jólunum vegna fátæktar, sorgar, söknuðar, einmanaleika og margs annars. Því skulum við þjappa okkur vel saman, rétta hjálparhönd ef við mögulega getum og breiða út hamingju og gleði til þeirra sem ekki eiga mikið af því.

Mínar bestu óskir til ykkar allra um gleðileg jól og hamingjuríkt komandi ár

Hamingja, ást og gleði-Lóa

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.