Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja:

Skora á stjórnvöld að kanna þær leiðir sem bæta samgöngur milli lands og Eyja

Eftirspurn eftir stjórnarsetu

18.Nóvember'14 | 06:14

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja var haldinn þann 15. nóvember sl. og mættu fulltrúar 20  aðildarfélaga á fundinn. Dagskrá fundarins var hefðbundin. Formaður samtakana, Páll Marvin Jónsson, flutti skýrslu stjórnar og kynnti niðurstöðu reikninga. Í erindi formanns kom fram að verkefnin á starfsárinu hafi verið fjölbreytt og krefjandi.

Alls voru haldnir átta formlegir stjórnarfundir auk þess sem haldnir voru fjölmargir vinnufundir þar sem málefni ferðaþjónustunnar voru rædd og/eða vinna stóð yfir vegna afmarkaðra verkefna.

Verkefnið Markaðsátak ferðamála sem styrkt er af Vaxtasamningi, SASS var áberandi í starfi samtakanna. Verkefninu er skipt í þrjá vinnuhópa sem eru ljósmyndahópur, vefsíðuhópur og myndbandshópur. Um 25 aðilar hafa komið að vinnunni í hópunum.

Fyrsta afurð verkefnahópanna var vinnsla á kynningarmyndbandi fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum. Myndbandið er þegar er komið í loftið og hefur það fengið mjög góð viðbrögð.

Vinna í hinum hópunum tveimur stendur yfir. Í ljósmyndahópnum er stefnt á samstarf við áhugaljósmyndara í Eyjum ásamt því að taka uppstilltar myndir sem samtökin og aðildarfélagar geta nýtt sér við markaðsetningu. Í vefsíðuhópnum er verið að leggja loka hönd á nýja vefsíðu samtakana og standa vonir til þess að hún verði opnuð á næstu vikum. Á starfsárinu voru lénin visitvestmannaeyjar.is og visitvestmannaeyjar.com keypt og mun markaðstarf samtakana verða keyrt á nafninu VisitVestmannaeyjar. Vefsíðan mun halda utan um upplýsingar um alla aðildarfélaga samtakanna og vera einskonar yfirlit, fyrir ferðamanninn, yfir þá þjónustu sem er í boði í Eyjum.

Ferðamálasamtökin ásamt átta aðildarfyrirtækum tóku þátt í VestNorden ferðakaupstefnunni sem haldinn var í Reykjavík 30. september til 1. október. Almenn ánægja var meðal þátttakenda og má segja að vel hafi tekist til á kaupstefnunni sjálfri og ekki síður í tengslamyndun við fyrirtæki og einstaklinga í greininni. 

Fram kom í máli formanns að greinin er í miklum vexti og mikið svigrúm til frekari sóknar. Umhverfið sem ferðaþjónustan lifir í nú er gjörbreytt frá því sem áður var. Landeyjahöfn og hin mikla uppbygging á innra stoðkerfi sveitafélagsins er grunnurinn sem ferðaþjónustan þarf að byggja á. Mikilvægt er ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum verði ekki bara sjálfbær heldur, skili arði til samfélagsins og til þeirra sem starfa innan atvinnugreinarinnar.

Ferðaþjónustan í Eyjum hefur alla burði til að vera leiðandi á landsvísu en til þess að það geti orðið að veruleika er mikilvægt aðilar innar greinarinnar vinni saman með sameiginlegt markmið öllum til heilla. Samtökin eru mikilvægiur vettvangur þessa samstarfs og er afrakstur samstarfsins þegar farinn að skila sér.

Að lokum þakkaði formaður stjórn og þeim aðilum sem hafa komið að verkefnavinnunni fyrir gott samstarf á starfsárinu.

 

Stjórnarkjör.

Þegar kom að stjórnarkjöri vildu fleiri sæti í stjórn en sæti gefa möguleika á og því var kosið til stjórnar. Allir fyrrverandi stjórnarmenn gáfu kost á sér fyrir utan Erlu Halldórsdóttur. Niðurstaða stjórnarkjörs var sú að allir stjórnarmenn sem óskuðu eftir endurkjöri hlutu brautargengi auk þess sem Svava Gunnarsdóttir kemur ný inn í stjórn. Samkvæmt lögum félagsins mun stjórn skipta með sér verkum og skipa sér formann.

Ný stjórn fyrir starfsárið 2014-2015 er því þannig skipuð:

 

Aðalamenn

  • Páll Marvin Jónsson, Þekkingarsetur Vestmannaeyja
  • Sigurmundur Einarsson, Víking Tours
  • Magnús Bragason, Hótel Vestmannaeyjar
  • Svava Gunnarsdóttir, Hótel Hamar
  • Gunnlaugur Grettisson, Eimskip-Herjólfur

Varamenn

  • Einar B. Árnason,  Einsi Kaldi ehf.
  • Elsa Valgeirsdóttir, Golfklúbbur Vestmannaeyja

Aðalfundur ákvað að árgjald félagsins næsta starfsár yrði 20.000 í stað 10.000 kr áður.

 

Starfs- og rekstraráætlun fyrir nýtt starfsár var samþykkt þar sem lögð er áhersla á að vinna áfram með verkefnið Markaðsátak ferðamála, þ.e. að ljúka við vefsíðu, byggja upp ljósmyndagrunn og fara í skipulagða markaðsvinnu. Ákveðið var að vinna framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir samtökin. Jafnframt var ákveðið að stjórn fengi það verkefni að setja af stað starfshópa til að vinna að ákveðnum málum s.s. aðgengi að ferðamannastöðum í Eyjum.

Undir liðnum önnur mál fékk ný stjórn umboð til að hefja viðræður við Vestmannaeyjabæ um samstarf um rekstur Upplýsingamiðstöðvar og eflingu ferðþjónustunnar í Eyjum.

 

Ályktun samþykkt.

Í lok fundar var borin upp eftirfarandi ályktun sem var samþykkt einróma:

Aðalfundur ferðamálasamtaka Vestmannaeyja skorar á stjórnvöld að kanna þær leiðir sem bæta samgöngur milli lands og Eyja, bæði flug- og sjósamgöngur. Fundurinn leggur áherslu á að kannaður verði möguleiki á hentugra skipi en núverandi Herjólfur, er varðar flutningsgetu á fólki, farartækjum og vörum. Fundurinn lýsir yfir ánægju með þann almenna áhuga sem Eyjamenn sýna umræðunni um bættar samgöngur.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.