Heilbrigðisþjónusta á fallandi fæti

6.Nóvember'14 | 18:31

Vestmannaeyingar eru ósáttir við skort á stuðningi frá ríkisvaldinu við að reka heilbrigðisþjónustuna þar. Sneiðmyndatækið á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur verið bilað í um ár og þykja bæjarastjóranum Elliða Vignissyni og Sigurði Hirti Kristjánssyni yfirlækni nóg komið.

„Heilbrigðis þjónusta á landsbyggðinni er á fallandi fæti,“ segir Elliði í samtali við Vísi og bætir við: „Það er ekki til of mikils mælst að við í Eyjum höfum sneiðmyndatæki til umráða.“

Sigurður Hjörtur segir sneiðmyndatækið hafa verið mikið notað áður en það var metið ónothæft. Hann bendir á að vegna þess að ekkert sneiðmyndatæki sé í Eyjum þurfi sjúklingar að ferðast, annað hvort til Reykjavíkur eða á Selfoss. Slíkt hafi óþægindi í för með sér, auk þess sem það kosti ríkið því það borgi í sumum tilfellum allan ferðakostnað og í öðrum tilfellum hluta af kostnaði við ferðalög.

Sjálfsagt mál í nútímanum
„Mér finnst í nútímanum að tölvusneiðmyndatæki eigi að vera sjálfsagt mál og mér finnst að það eigi að vera á ábyrgð ríkisins að útvega slíkt tæki,“ segir Sigurður Hjörtur og bætir við:

„Ríkið telur sig ekki hafa efni á að kaupa svona tæki og hefur stólað svolítið á líknarfélögin til að sjá um kaupin.“ Elliði bæjarstjóri tekur undir þessa fullyrðingu yfirlæknisins. „Megnið af tækjunum í Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja eru greidd af íbúum, fyrirtækjum og félagasamtökum í Vestmannaeyjum.“

Sigurður Hjörtur segir að ferðakostnaður, sem er að hluta til á ábyrgð ríkisins aukist, vegna þess að ekki sé til sneiðmyndatæki. „Maður getur greint mikið með sneiðmyndatæki og útilokað margt. Segjum til dæmis að einhver komi til okkar í slæmu veðri með mikinn verk í kviðnum. Ef ekkert sneiðmyndatæki er til staðar er ekki hægt að útiloka að um sprungna görn er að ræða, svo dæmi sé tekið. Þá þarf að taka ákvörðum um hvort kalla eigi út sjúkraflugvél eða þyrlu út til að flytja sjúklinginn í slæmu veðri. Þetta er auðvitað marghliða, en við lítum á sneiðmyndatæki sem öryggistæki.


Óvissa um framtíðarskipan mála
Þrír læknar hafa að undanförnu hætt störfum við heilbrigðisstofnunina. „Það er auðvitað ekki beinlínis útaf því að þetta tæki er til staðar. Það er bara þessi heildarstaða á landsvísu sem ræður því. Það sem hefur verið hér er langvarandi óvissa um framtíðarskipan mála. Mikið hefur verið rætt um sameiningu sjúkrastofnana á Suðurlandi. En það er ekki komin nein loka niðurstaða hvernig formi þjónustan hér í Eyjum eigi að vera í. Hér ríkir óvissa um hvernig þjónusta eigi að vera, hvernig vöktum eigi að halda úti,“ segir Sigurður Hjörtur og heldur áfram:

„Hér var skurðstofuvakt þangað til í fyrra. En eftir að fjárveitingar voru skornar niður var ekki til peningur til að reka skurðstofu hérna. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1907 síðan engin skurðstofuvakt er í Vestmannaeyjum.“

Elliði segir það fráleita hugmynd að ætla að færa megnið af þjónustunni í Eyjum á Selfoss. „Það er algjörlega galið. Bara núna undanfarinn sólarhring hafa samgöngur legið niðri. Þannig að ef einhver hefði brotið á sér höndina klukkan þrjú í gær og hefði þurft að fara á Selfoss til að láta taka mynd og gipsa væri hann ennþá að bíða eftir að komast heim. Með sömu rökum væri hægt að færa heilbrigðisþjónustu frá Reykjavík til Kína.

 

Nánar má lesa um málið á Vísi eða með því að smella hér.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%