Opið bréf til Samgöngustofu og Vegagerðar

Landeyjarhöfn ekki kláruð, því miður

Guðmundur Þ.B Ólafsson skrifar

5.Nóvember'14 | 17:47

Eins og áður hefur komið fram hef ég ekki verið sáttur með samgöngumálin hvað Landeyjarhöfn varðar, ekki frekar en svo margir aðrir. Margoft hef ég viðrað þá skoðun mína að forgangsatriðið væri að klára hafnargerð í Landeyjarhöfn. Í kjölfarið eigi að smíða nýtt skip sem tæki mið af flutningsþörf og þjónustu við okkar samfélag en ekki sníða skip að höfn sem ekki er flullkláruð.

Höfnum hefur verið breytt til hins betra

Mörg dæmi höfum við um að hafnargerð hér á landi sem hefur ekki heppnast í fyrstu og hvað hafa menn þá gert, jú opnað augun fyrir vandamálinu og leyst það.

Má þar nefna Þorlákshöfn og höfnina í Grindavík, garðar komnir utan við eldri hafnargarða, allt m.a. til að bæta innsiglinguna og öryggið. Samkvæmt upplýsingum stendur ekki til að fara í frekari hafnarframkvæmdir í Landeyjarhöfn.

Hér, megum við sem og aðrir landsmenn búa við það að eina ráðið sé að bíða eftir smíði á minna skipi en Herjólfur er, sem nú þegar annar ekki eftirspurn og þörf. Einnig hefur það verið nefnt „að náttúran muni taka höfnina í sátt“.  Já það er ekkert annað!!! Er nokkur von um að hafnargerð í Landeyjarhöfn verði kláruð ef menn hugsa svona? Nei því miður, ekki í náinni framtíð og því verður einnig að gera ráð fyrir siglingum í Þorlákshöfn.

 

Bæði skipin verða að vera í rekstri

Það sem liggur fyrir, ef fjárveitingarvaldið leyfir, er eins og áður sagði, að smíðað verður minna skip en núverandi Herjólfur, skip sem engum dylst að kemur ekki til með að bjóða upp á neinar skemmtiferðir, þegar sigla þarf í Þorlákshöfn. Það verður að tryggja að þegar nýtt skip kemur, hvenær sem það verður, verði núverandi Herjólfur einnig í rekstri og sigli til Þorlákshafnar, ekki bara þegar ófært er í Landeyjarhöfn heldur alla daga til að anna flutningsþörfinni og taki þá allan þungaflutning á gámum og öðru sem í sumum tilfellum er ekki boðlegt að flytja með farþegaskipi.

Herjólfur er að flestra mati gott sjóskip sem siglt hefur oft við mjög erfiðar aðstæður. Það skip er reyndar barns síns tíma og var því breytt að einhverju leyti nýlega, bæði til að uppfylla öryggiskröfur sem og að gera það hæfara til að sigla í Landeyjarhöfn.

 

Hvað var lagt til og hverju var breytt?

Fengnir voru erlendir sérfræðingar, þýskir að manni er sagt, til að koma með tillögur um breytingar svo auka mætti stjórnhæfi Herjólfs sérstaklega með tilliti til innsiglingar í Landeyjarhöfn. Hverjar þær tillögur voru er mér ekki fullkunnugt um og væri vel við hæfi að upplýst verði hvaða tillögur það voru og hvort farið hafi verið eftir þeim tillögum. Heyrst hefur að svo hafi ekki verið, en það segir ekki endilega neitt um raunveruleikann, margt heyrist sem ekki er alltaf sannleikanum samkvæmt. Því óska ég eftir svörum frá þeim aðilum sem fóru með ákvarðanatöku í málinu, varðandi breytingarnar, að þeir svari eftirfarandi:

  • Hvaða breytingar lögðu sérfræðingarnir til?
  • Hvaða breytingar voru framkvæmdar er snúa að stjórnun skipsins?
  • Ef ekki var farið að tillögum sérfræðinganna, hvaða tillögum var ekki farið eftir, hvers vegna var það ekki gert og hver tók þá ákvörðun?
  • Hafa breytingar orðið við stjórnun á skipinu eftir framkvæmdirnar?

 

Svo það misskiljist ekki þá er mér kunnugt um bilun í uggum en þeir koma málinu ekki við, þar sem þeir eru ekki úti við innsiglingu í Landeyjarhöfn frekar en í aðrar hafnir.

 

Svör við ofangreindu óskast birtar á þessum sama vettvangi og þessi skrif birtast.

 

Með vinsemd og kveðju.   

Guðmundur Þ. B. Ólafsson íbúi í Vestmannaeyjum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%