Lenging ferðatímabilsins er brýnasta hagsmunamál ferðaþjónustunnar

24.Október'14 | 22:59

Í dag er rétt vika síðan stýrihópur um samgöngur milli lands og Eyja kynnti niðurstöður sínar er varða hönnun á nýju skipi sem þjóna á samgöngum til og frá Eyjum næstu áratugina. Við höldum nú umfjöllun okkar áfram um þetta mikilvæga mál. Páll Marvin Jónsson er formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja og er auk þess bæjarfulltrúi. Eyjar.net fengu Pál til að segja okkur hvernig honum litist á.
 

Nú hefur þér verið kynnt hönnun nýrrar ferju, hvernig líst þér á?

Mér líst vel á nýju ferjuna. Hefði auðvitað vilja að hún tæki fleiri farþega og/eða að það væri hægt að fá undanþágu fyrir fleiri farþega á álagspunktum eins og á goslokum og þjóðhátíð.  Þetta er þó hægt að leysa að mestu með því að fjölga ferðum og á stóru helgunum nota minni báta eins og Víking við hliðina á ferjunni.  

Hönnuðir ferjunnar fóru nokkuð vel yfir eiginleika hennar og fannst mér þeir svara vel fjölmörgum þeirra spurninga sem hafa brunnið á okkur á undanförnum mánuðum. Það sem mér þótti einkum athyglisvert er að þó svo að skipið geti siglt á yfir 15 mílna hraða þá hefur hraði ferjunnar lítið að segja hvað varðar ferðatímann. Tíminn sem tekur að snúa skipinu í höfninni og losun og ferming skiptir mun meira máli. Þetta á auðvitað við um Landeyjahöfn en ef að ferjan þarf að fara í Þorlákshöfn vegna brælu þá er skipið hvort sem er sjaldan á fullu gasi.  Fróðlegt var að heyra hönnuðina ræða um mikilvægi þess að vélin sem er einskonar blendingur eða „hybrid“ vél (blanda af olíu og rafmagnsvél) skilar orkunni mun hraðar til skrúfunnar en hefðbundin díselvél. Ef ég skyldi þá félaga rétt þá er það mun mikilvægari eiginleiki við þessar aðstæður heldur en að auka hámarksafl vélanna. Einnig fóru þeir félagar yfir stýrisbúnaðinn og ljóst er að ferjan verður mun fljótari að snúa sér eða bregðast við hættum heldur hann Herjólfur okkar.  

Telur þú að ný ferja komi til með að hjálpa ferðaþjónustunni í Eyjum?

Ég vona að með þessir ferju fái nú ferðaþjónustan loksins tækifæri til að selja ferðamönnum þjónustu á ársgrundvelli. Það hefur verði töluvert fjárfest í ferðaþjónustunni í Eyjum og í dag nýtast þessar fjárfestingar ekki nema 4-5 mánuði á ári. Ég held að þessi nýja ferja komi til með að breyta þessu. Á ferðakaupstefnunni VestNorden sem haldin var sl. september hittum við fjölmarga ferðakaupendur og voru þeir allir á því að óvissan í samgöngum frá september til maí kemur í veg fyrir að þessir aðilar haldi úti skipulögðum ferðum á þessum tíma að einhverju marki. Áhættan er hreinlega of mikil. Ef þessi ferja lengir ferðatímabilið um 3-4 mánuði þá þýðir það gjörbreytt rekstrarumhverfi fyrir ferðaþjónustuna í Eyjum.

Hvað með stóru helgarnar í ferðaþjónustunni, áttu von á að nýja skipið komi til með að flytja fleiri farþega þá, en núverandi skip gerir?

Það er klárt að ferjan mun ekki flytja fleiri farþega en Herjólfur gerði í kringum Þjóðhátíð í sumar. Ég átta mig ekki alveg á því hver munurinn yrði en líklega væru það 500-800 farþegar. Það þýðir að það þarf að koma fyrir fleiri ferðum, nota samhliða aðrar minni ferjur eða efla flugsamgöngur yfir tímabilið. Ég held hinsvegar að veður verði áfram stóri áhættuþátturinn fyrir þessar stóru helgar og að ferjan muni ekki  skipta þar sköpum.

Hver telur þú brýnustu mál ferðaþjónustunnar í Eyjum í dag er varða vöxt greinarinnar?

Brýnasta hagsmunamál ferðaþjónustunnar er lenging ferðatímabilsins en það er algjörlega háð því að við eyðum þessari óvissu í samgöngum.

Verkefni ferðamálasamtakanna í dag snúast í raun um það að koma undir okkur fótunum, skipuleggja okkur og meta sóknarfæri greinarinnar. Ég er ánægður hve margir hafa sýnt þeim áhuga en í dag eru félagar samtakanna orðnir yfir 30. Það er mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar í Eyjum vinni saman og samtökin eru vettvangur þess samstarfs. Með tilkomu nýrrar ferju mun greinin að öllum líkindum taka nýjan vaxtarkipp sem mun skila sér til samfélagsins í hærra þjónustustigi, aukinni veltu innan greinarinnar og samfélagsins og auknum útsvartekjum til bæjarins. Þannig að mín trú er sú að ferðaþjónustan í Eyjum eigi bjarta framtíð fyrir sér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.