Tilgáta skýrsluhöfundar:

Mikil óleyst flutningsþörf í kerfinu milli lands og Eyja

Spá um þróun farþegaflutninga með ferju milli lands og Eyja til ársins 2032

23.Október'14 | 07:43

Á samgöngufundinum sem haldin var í Höllinni sl. föstudag var spurt út í þarfagreiningu á samgöngum milli lands og Eyja. Ekki höfðu frummælendur þau gögn undir höndum en sögðu að til væri umferðaspá fyrir umrædda samgönguleið allt til ársins 2032. Eyjar.net hefur fengið skýrsluna sem unnin er af Friðleifi Inga Brynjarsyni fyrir Vegagerðina og skilað í lok árs 2012. Hér eru nokkrir áhugaverðir punktar úr skýrslunni.

Formáli

Í upphafi var lagt af stað með að spá, fyrir umferð á milli lands og Vestmannaeyja, en þegar á leið og milliniðurstöður útreikninga lágu fyrir varð mönnum ljóst að Landeyjahöfn takmarkar stærð nýrrar ferju en ekki spá um farþega- eða bílafjölda. Spáin átti í upphafi að vera mun ítarlegri þar sem tekið væri tillit til vikudaga út frá raungögnum og ýmissa undirþátta farþega,  bíla og vöruflutninga, en þar sem gagnsemi þess var ekki jafn afgerandi og í upphafi var lagt upp með var spáin stytt og miðast nú eingöngu við þróun heildarfarþegafjölda með Herjólfi. Einnig hefði verið fróðlegt, ef tími hefði unnist til, að skoða vandlega nýtingu ferjunnar.

Ákjósanleg flutningsþörf:  Þörf íbúa til að geta ferðast og flutt vörur og varning óhindrað milli staða.

 

Tilgangur spárinnar

Tilgangur spárinnar er að meta mögulega þróun farþegafjölda milli lands og Eyja svo áætla megi umfang ferjusiglinga til Eyja í framtíðinni.

 

Síðar í skýrslunni segir:

Ljóst er að mikil fjölgun varð á fjölda farþega með tilkomu Landeyjahafnar þrátt fyrir mjög litla aukningu á íbúafjölda í Eyjum, á sama tíma.  Tilgáta skýrsluhöfundar er því sú að: mikil óleyst flutningsþörf sé í kerfinu milli lands og Eyja.

 

Spár

 

Forsendur spár

Í upphafi gaf skýrsluhöfundur sér neðangreindar forsendur skv. pkt. 1 - 9.

1. Nýr Herjólfur verði tekinn í notkun, árið 2015.

2. Fjöldi ferða með Herjólfi og eða stærð skips hindri ekki eðlilega aukningu þ.e.framboð ferða og stærð skips svari eftirspurn.

3. Kostnaður farþega haldist óbreyttur út spátímabilið, skv. forsendum innanríkisráðuneytis.

4. Eftir árið 2015 munu siglingar til Þorlákshafnar leggjast af eða þeim fækkar það mikið að ekki þarf að taka tillit til þeirra í spám þ.e. verði óverulegur hluti af heild.

5. Gert er ráð fyrir jöfnum línulegum- eða veldisvexti sem dreifist á 20 ára tímabil, þannig að ,,óleyst flutningsþörf" (sjá kafla um mettun) mun koma fram á nokkrum árum fremur en í einu stóru stökki. Stórt stökk er ekki mögulegt nema þannig skip, eitt eða fleiri, næðu að svara eftirspurn fullkomlega strax í byrjun sbr. forsendupkt nr. 1.

6. Þar sem ferjuleiðin er ríkisstyrkt er spáin óháð markaðslegum aðstæðum svo sem nýtingu ferjunnar þ.e. styrkurinn er pólitísk ákvörðun hverju sinni.

7. Íbúum  í Eyjum muni fjölga um 17% á spátímanum.

8. Gert er ráð fyrir  að næstu 20 ár verði sem næst normal ári m.v. síðustu 20 ár þ.e. engar stórkostlegar breytingar verði á fiskveiðikerfinu t.d.

9. Ekki er hægt að byggja inn í spána  náttúruhamfarir á borð við eldgos eða hrun í fiskistofnum sem breyttu búsetuskilyrðum í Vestmannaeyjum til hins verra þ.e slíkt mundi hvort eð er kollvarpa þessari spá.

Síðar varð ljóst að forsenda 2. var óraunhæf  þar sem upplýst var við vinnslu spárinnar að Landeyjahöfn ræður ekki við stærra skip en nú gengur milli lands og Eyja. Einnig væri óraunhæft að reikna með fleiru en einu skipi vegna kostnaðar.  Þar sem hvorugur kosturinn er í kortunum mun flutningsgeta eins slíks skips að öllum líkindum ekki geta svarað ítrustu kröfum um eftirspurn stóran hluta úr ári.

Líkurnar á að spáin gangi eftir riðlast því vegna þeirra takmarkana sem til koma varðandi stærð skips og ferðafjölda.

Spáin er því sett fram með þeim annmörkum sem áður greindar skilyrðingar kunna að hafa í för með sér.

 

Óhindruð þróun farþegafjölda milli lands og Eyja (almennt):

Frá kafla 2.0 ,,Þróun farþegaflutninga með Herjólfi frá 1992“  og m.v. áætlaða þróun farþegafjölda árið 2012 fæst að sá vöxtur sem varð í farþegafjölda á milli áranna 2009  og 2010 sýnir merki um að minnka um helming ár hvert eftir árið 2010. Áætluð aukning milli áranna 2011 og 2012 er um 14% og milli áranna 2012 og 2013 er því gert ráð fyrir um 7% vexti.  Eftir árið 2013 er síðan misjafnt eftir spám hversu hratt dragi úr vexti og einnig þá hvort. 

Flestum ætti að vera kunnugt um að núverandi ferja var ekki hönnuð fyrir Landeyjahöfn, sem leitt hefur til þess að oft hefur þurft að sigla mun lengri leið til Þorlákshafnar á veturna.  Með tilkomu nýrrar ferju er ristir ekki eins djúpt er því gert ráð fyrir að ferðir til Þorlákshafnar leggist af eða þeim fækki mjög mikið. 

Sú mikla aukning sem varð í farþegafjölda með Herjólfi, eftir opnun Landeyjahafnar, styður þá tilgátu, sbr. kaflann um mettun, að mikil óleyst flutningsþörf er í kerfinu. Þetta leiðir líkur að því að með einu stóru og góðu skipi, eða fleiri minni skipum, væri e.t.v. hægt að nálgast mettunarmörk.  Í slíkri stöðu myndi farþegafjöldinn aukast mjög hratt og jafnvel um tugi prósenta á ári þar til mettunarmörkum yrði náð en eftir það tæki við mjög rólegur vöxtur er fylgja myndi íbúa- og ferðamannaþróun ca. 0,5% á ári.  Þar sem kostnaður við smíði og rekstur slíkra skipa er vart á færi lítillar þjóðar um þessar mundir a.m.k., auk þess sem óraunhæft væri að gera ráð fyrir að þessu sé hægt að ná með ferju,  gerir þessi spá ekki ráð fyrir að þetta ástand (eitt stórt stökk) muni skapast heldur muni vöxturinn verða línu- eða veldisvöxtur, sbr.  forsendur. Það er því gert ráð fyrir að eftirspurn verði svarað jafn óðum t.d. með aukinni tíðni ferða og styttri umferðartíma (lestunar- og losunarími styttur, siglingarhraði skips aukinn).

 

Niðurstaða

 

Sé gert ráð fyrir að þróun farþegaflutninga milli lands og Eyja verði innan marka lág- og háspár þá eru tölfræðilega mestar líkur á að raunþróunin verði um og við ljósbláu línuna skv. mynd nr. 19.

 

 

Eftirmáli

Eftir að hafa farið í gegnum þessa spá er það mat skýrsluhöfundar að núverandi farþegafjöldi stjórnist e.t.v. frekar af framboði ferða en að eftirspurn sé svarað að fullu, en eins og áður hefur komið fram þurfa rekstraraðilar auðvitað taka tillit til hagkvæmnisjónarmiða svo sem nýtingar og umferðartíma skips.

Þegar sá mikli munur, sem er á milli farþegafjölda yfir vetrartímann annars vegar og sumartímann hins vegar, er skoðaður kemur í ljós að hann er tæplega sexfaldur sbr. kafla um magn flutnings eftir vikudögum. Það kann að leiða hugann að því hvort það geti verið betri kostur í framtíðinni að stefna á tvö skip í rekstri milli lands og Eyja í stað eins.  Með því væri hægt að auka ferðatíðni og halda betri nýtingu á skipum í stað þess að vera með eitt skip sem e.t.v. yrði hannað skv. sumarfarþegafjölda sem bæri það með sér að skipið yrði of stórt mestan part ársins.  Ef skipið væri hins vegar hannað eftir öðrum ársþriðjungum þá væri það, aftur á móti of, lítið yfir sumartímann, eða 4 mánuði úr ári.  Ef tvö skip væru í umferð mætti jafna út þennan mikla mun með því að bæta inn öðru skipi yfir sumartímann en taka það svo úr rekstri utan þess tíma.

Einnig mætti vera með eitt skip í farþegaflutningum og eitt skip er sinnti bara vöruflutningum. Þriðji kosturinn, til að svara eftirspurn, væri sá að heimila öllum öðrum þar til bærum skipum að leggjast að bryggju við Landeyjahöfn eins og gildir um allar aðrar hafnir landsins.  Með því væri létt álagi af Herjólfi og ferðaþörf  Eyjabúa mætt.  Ljóst er að höfnin er hönnuð sem stórskipahöfn og því fylgja annmarkar en þá ætti að vera hægt að leysa amk að hluta til. 

 

Hér má sjá skýrsluna.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).