G. Pétur Matthíasson skrifar:

Verkinu er ekki lokið

16.Október'14 | 06:37

Í annars ágætum leiðara Fréttablaðsins mánudaginn 13. október er því haldið fram að nánast ekkert hafi staðist við byggingu Landeyjahafnar, að hún þjóni illa hlutverki sínu og að hún sé dæmi um framkvæmd þar sem menn sáust ekki fyrir. Fáar af þessum fullyrðingum standast.

Farþegum fjölgaði með Herjólfi eftir að Landeyjahöfn var vígð, eins og gert var ráð fyrir, fór úr um 130 þúsund farþegum í um 300 þúsund. Þessi mikli fjöldi farþega hefur haft gífurleg áhrif á allt mannlíf í Vestmannaeyjum.

Kostnaður við byggingu Landeyjahafnar var innan áætlana og mannvirkið var vígt á ætluðum tíma. Frá upphafi var ljóst að mjög erfitt yrði fyrir Herjólf að sigla í Landeyjahöfn yfir háveturinn og gera mátti ráð fyrir að sigla þyrfti í Þorlákshöfn. Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði mikil áhrif en ekki ófyrirsjáanleg. Gert var ráð fyrir að ef slíkt gos yrði þá gæti það haft hamlandi áhrif á siglingar í Landeyjahöfn vegna sandburðar.

Bygging Landeyjahafnar fólst í tvennu, annars vegar byggingu nýrrar hafnar og hins vegar smíði nýrrar ferju. Verkinu er því ekki lokið. Það var vitað að Herjólfur myndi eiga í erfiðleikum með siglingar í Landeyjahöfn sem leysa á með nýrri ferju. Það var aðeins hægt að byggja heilsárshöfn í Bakkafjöru, Landeyjahöfn, ef einnig yrði byggð ný ferja sem risti minna en Herjólfur.

Þegar bygging Landeyjahafnar hófst sumarið 2008 var á sama tíma verið að semja um smíði nýrrar ferju en vegna bankahrunsins var smíðinni slegið á frest. Þegar sú ákvörðun var tekin stóð í fréttatilkynningu um það mál: "Til að lágmarka óhjákvæmilegar frátafir myndi hann [Herjólfur] sigla til Landeyjahafnar frá apríl fram í nóvember en yfir vetrarmánuðina til Þorlákshafnar þegar tíðarfar er rysjóttara.

Vandinn í Landeyjahöfn leysist ekki fyrr en verkinu er lokið og því lýkur vonandi með smíði nýrrar ferju. Það er rétt sem leiðarahöfundur segir að þangað til verður vandinn í Landeyjahöfn fréttnæmur.

 

G. Pétur Matthíasson

upplýsingafulltrúi Vegagerðinnar.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.