Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Ertu alltaf bara ein?

11.Október'14 | 16:55

Þessa spurningu hef ég fengið  óteljandi sinnum síðan ég skildi fyrir tæpum fimm árum. Mér hefur alltaf fundist þessi spurning svo fyndin og ég var lengi að átta mig á hvað fólk raunverulega meinti með henni því ég er svo sannarlega ekki ein þó svo ég eigi ekki eiginmann, kærasta, bólfélaga, ,,toyboy“ eða hvað þetta heitir allt saman.

Þegar ég skildi valdi ég frá fyrsta degi að einbeita mér að stelpunum mínum, hlúa að þeim og hjálpa þeim að komast sem best  og heilbrigðast út úr því áfalli sem börn verða fyrir þegar foreldrar þeirra skilja.  Stelpurnar mínar áttu ósköp erfitt þegar við foreldrar þeirra fórum í sitthvora áttina en með sameiginlegu átaki og miklum stuðningi okkar nánustu komu þær frábærlega frá þessu verkefni. Þær hafa sagt mér sjálfar að þeim finnst lífið svo miklu skemmtilegra og betra eftir að við skildum því þær njóta samvista við heibrigða foreldra í sitthvoru lagi.

En þá aftur að þessari frábæru spurningu um hvort ég sé alltaf bara ein. Nei ég er ekki ein og ég lifi meira að segja bara frekar frábæru lífi með fólkinu mínu.  Ég elska að  vera heima hjá mér, borða popp, drekka kók (já ég drekk kók en ekki vatn) og horfa á einhvern heilalausan þátt. Ég elska að lesa góðar bækur og veit ekkert eins skemmtilegt og gefandi og að kjafta við stelpurnar mínar. Ég tala við systur mína í síma 4 sinnum í viku og þau símtöl eru aldrei undir klukkutíma. Ég vinn með frábærum konum sem gera lífið mitt svo dásamlega skemmtilegt. Einnig er ég svo heppin að ég borða kvöldmat hjá foreldrum mínum allavega þrisvar sinnum í viku og þar fæ ég endalaust af hamingju, gleði og góðum ráðum þar sem ég er stundum dálítið týnd. Ekki má svo gleyma vinkonum mínum sem ég hitti allt of sjaldan en Guð hjálpi mér hvað þessar skutlur eru frábærar og er ein kvöldstund með þeim á við margra ára meðferð hjá geðlækni (já ég veit það vegna þess að ég hef farið til geðlæknis).

Sé það  reyndar núna þegar ég skrifa þetta að mestmegnis eru þetta konur sem ég eyði tímanum með og skil þess vegna pínulítið af hverju ótrúlegasta fólk hefur áhyggjur af því að ég sé alltaf bara ein. Því það er greinilega mælieiningin, ef ég á ekki kæró þá er ég ein.  En eins og ég segi þá upplifi ég mig aldrei eina og líkar líka svo glimrandi vel við sjálfa mig að mér leiðist heldur aldrei þegar ég er raunverulega ein.

En ég væri ekki að segja alveg satt ef ég viðurkenni ekki að það koma oft upp stundir þar sem ég væri virkilega til í að eiga kærasta. Finn verulega fyrir því þegar ég sit í Brekkusöngnum á Þjóðhátíðinni af því mér finnst það eitthvað svona rómantískt að sitja í fanginu  á einhverjum sem ég er ofsalega skotin í meðan  þessi stund varir. Einnig langar mig líka í kærasta þegar ég er svo heppin að vera boðin í brúðkaup því það er svo brjálæðislega rómantískt að sitja í kirkjunni og kreista hendina á kæró þegar brúðhjónin játast hvort öðru.  Ég væri líka æðislega mikið til í að eiga kærasta þegar ég er lasin því dætur mínar flýja alltaf að heiman ef ég næli mér í flensu og þá væri nú notalegt að hafa einn fola sem myndi hjúkra mér, kaupa maltöl og sjá til þess að alltaf væru til verkjatöflur.

Þar sem ég er ,,hopeless romantic“ þá trúi ég því svo innilega að ástin banki upp á þegar henni er ætlað að gera það og þess vegna hef ég lítið stressað mig á því að vera ,,ein“. Það er meira svona að fólk í kringum mig sé að stressa sig á því og ég hef í alvörunni fengið svona ,,aumingja þú“ augnarráð þegar spurning dauðans er borin upp og ég svara brosandi ,,Já veistu, ég er alltaf bara ein, því ég vel vandlega þá sem inn í líf mitt og dætra minna koma“.

Hamingja,gleði og ást – Lóa J

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.