Hugleiðing sjálfstæðrar móður:

"Komin með uppí kok af afskiptaleysi yfirvalda"

Lóa Baldvinsdóttir Anderssen skrifar

24.September'14 | 14:49

Ég er sjálfstæð móðir tveggja frábærra stúlkna. Eldri stúlkan mín er að verða 16 ára í desember. Hún elskar fótbolta, skólann sinn, fjölskylduna sína og vini sína. Hún er afar glöð, fyndin, skemmtileg og kát. Eins og aðra unglinga langar hana stundum að gera eitthvað sem kostar peninga , eins og að fara út að borða með vinum sínum, fara á stöku framhaldsskólaball og jafnvel vera flippuð og kaupa sér föt.

En þar sem hún er svo ,,óheppin“ að eiga mig fyrir mömmu þá er þetta sjaldnast hægt þar sem launin mín eru búin 2 hvers mánaðar því allt í velferðarsamfélaginu okkar hefur hækkað svo mikið, það er að segja allt nema laun okkar ,,venjulega“ fólksins.

Yngri stúlkan mín varð 11 ára núna  8 september, reyndar er ekki enn búið að halda afmælisveislu henni til heilla þar sem ekki var til peningur til þess en ég ætla að sleppa því að borga eins og einn reikning(hann fer bara í hýtina með hinum ógreiddu reikningunum) núna  1.október og halda veislu fyrir litlu stúlkuna mína því eins og þið vonandi flest þekkið og vitið þá elska börn að halda upp á afmælið sitt. Litla konan er eins og systir sín hrikalega skemmtileg, félagslega ofvirk og elskar að vera með vinum sínum. Hún er líka fótboltastelpa eins og systir hennar og lítur mikið upp til hennar.

Æjá ég gleymdi að taka fram að ég er lærður leikskólakennari og vinn sem deildarstjóri á yndislegum leikskóla hér í Vestmannaeyjum og tel mig afar heppna að vinna við það skemmtilegasta í heimi, að mínu mati, mennta og hugsa um framtíðina okkar. Reyndar finnst mér framtíðin okkar ekki mikils metinn af ykkur ráðamönnum þar sem peningar til menntastofna eru af skornum skammti og launin mín eru skammarleg. Hef oft velt þvi fyrir mér að ef ég myndi passa peninga átta tíma á dag ætli ég fengi þá betri laun? Því miður er ég 100% viss um að svarið við þessari spurningu minni er já því peningar eru málið hér á landi, en samt ekki fyrir alla, bara fyrir þá sem eiga mest af þeim. Því meiri peninga sem þú átt, því meiri peninga færðu og því minna þarftu að borga af skuldunum þínum-Þær eru bara felldar niður, allavega blasir þetta svona við mér en endilega leiðréttið mig ef það er rangt hjá mér.

Hvenær ætla ráðamenn þessa lands að fara að girða sig í brók gagnvart okkur ,,venjulega“ fólkinu og sjá til þess að hægt sé að lifa mannsæmlega af laununum sínum. Ég er kannski svo barnaleg að finnast að með 100% menntun í 100% vinnu áttu að geta lifað 100% lífi, ekki bara 36,6% lífi eins og mér finnst ég lifa núna(og nei ég er ekki með reikniformúluna fyrir þessum útreikningi).  Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki að meina að ég þurfi að fara til útlanda oft á ári, ég þarf ekki að borða humar og naut í hvert mál, ég þarf ekki að kaupa dýrar flíkur á börnin mín. Nei ég er að tala um að þegar ég fæ útborgað að þá viti ég að launin mín dugi út mánuðinn fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Ég er að tala um að ef dóttir mín á afmæli þá get ég haldið upp á það. Ég er að tala um að ef dóttur mína vantar vettlinga þá get ég keypt þá án þess að þurfa að sleppa þvi að eiga morgunmat síðustu vikuna í mánuðinum. Ég er alls ekki að fara fram á að ég sleppi við að borga skuldir mínar, alls ekki en ég er að fara fram á að ég geti lifað af laununum mínum og ég geti boðið dætrum mínum sömu tækifæri í lífinu og þeir sem meira eiga.

Þið veltið eflaust fyrir ykkur hvar pabbi stelpnanna minna er í þessu dæmi en ég get sagt ykkur það  að hann borgar sín meðlög(sem er efni í annan pistil), hann borgar æfingagjöldin þeirra svo þær geti stundað fótboltann sinn þannig það er ekki við hann að sakast. Hann gerði nefnilega sömu mistök og ég, hann menntaði sig til lítils metins starfs en samt svo mikilvægs, hann er lögreglumaður og við vitum nú öll við hvaða svelti sú starfstétt býr við.

Vil líka að þið vitið að ég er með Stöð 2 og ég pantaði mér pizzu með vinkonu minni í síðasta mánuði þannig það má kannski segja að ég lifi hinu ljúfa lífi, ekki það að mér finnst ekki að það eigi að vera munaður að hafa aðagang að sjónvarpsstöðvum en ég viðurkenni það, ég hefði getað sleppt því að panta þessa pizzu.

Það sem mér finnst kannski sorglegast í þessu er að ég veit að ég hef það sko alls ekki slæmt miðað við marga aðra og iðulega þegar ég er alveg að gefast upp(sem gerist æði oft) þá hugsa ég til þeirra sem eiga ekkert og engan að. Ég er nefnilega svo óskaplega heppin að ég á yndislega fjölskyldu sem passar upp á okkur mæðgur og sér til þess að við förum aldrei svangar að sofa. Foreldrar mínir sáu til þess að dætur mínar fengju frábæra skólabyrjun og að þær skorti ekki neitt sem þurfti í skólann. Systir mín passar upp á að föt sem hennar dætur eru hættar að nota rata alltaf til okkar og einnig hefur hún alltaf húsaskjól handa okkur í Reykjavík þegar við þurfum að leita þangað og má þá ekki heyra á annað minnst en að borga matinn ofan í okkur.  Litli bróðir minn hefur oft hlaupið undir bagga með stóru systur sinni þegar ástandið er verulega slæmt. Einnig erum við svo heppnar að eiga tvær Frænkur sem passa vel upp á okkur, bjóða okkur í mat og gefa stelpunum mínum föt. Allt þetta yndislega fólk er svo alltaf til staðar þegar mamman ég er að gefast upp, bíður með opinn faðminn, öxl til að gráta smá á og alltaf tilbúið að hlusta og veita ráð og stuðning.

En það er afar lýjandi að eiga aldrei pening, þurfa að reiða sig á aðra til að lifa af og ég veit þið trúið því ekki hvað mér finnst ég lítil þegar ég þarf
enn einn mánuðinn að biðja fólkið mitt um lán til að hafa það af út mánuðinn. Ég þarf ekki mikið, kaupi mér aldrei föt og þau föt sem ég er í núna þegar ég skrifa þetta bréf eru allt gjafir frá fólkinu mínu. Ég hef  engan áhuga á ittala-vösum, marimekko-teppum, 66 gráður norður úlpum eða skóm sem kosta morð og milljón. Ég er elsku sátt í sófanum sem ég keypti úr dánarbúi á 5000 krónur, rúminu sem fyrrverandi maðurinn minn keypti notað fyrir 10 árum og með sófaborðið hennar ömmu sem ég var svo ,,heppin“ að fá þegar hún fór á elliheimilið.

Nei ég þarf ekki mikið til að vera hamingjusöm og met fólk, ást, vináttu og gleði alla daga fram yfir dauða hluti því trúið mér ég veit þeir færa mér ekki hamingju og ekki peningar heldur-En engu að síður finnst mér ég ekki frek þegar ég ætlast til þess að launin mín dugi fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

En nú set ég punkt þó ég gæti eflaust skrifað margar blaðsíður um þetta-vonandi ná þessi orð mín augum einhverra sem finnst þetta skipta máli eða hafa eitthvað um þetta að segja en allavega þá líður mér pínku ponsu betur í hjartanu eftir að hafa komið þessu frá mér.

 

Hamingja og gleði

Lóa Baldvinsdóttir Andersen :-)

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).