Þingmenn kjördæmisins komast ekki til Eyja vegna anna!

21.September'14 | 14:51

Eyjar.net hafði samband við Elliða Vignisson, bæjarstjóra vegna fundar sem fyrirhugaður var á morgun hér í Eyjum með þingmönnum Suður-kjördæmis. Meðal þess sem átti að ræða voru samgöngumálin annars vegar og fjárlögin hinsvegar. Nú er komið í ljós að ekkert verður af fyrirhuguðum fundi.

 

Við byrjuðum á að spyrja Elliða út í fyrirhugaðann fund:

Vegna anna hjá þingmönnum urðum við illu heilli að fella niður þann mikilvæga fund sem fara átti fram í Ráðhúsi Vestmannaeyja kl. 12.00 á morgun (22. sept.).  Fundarefnið átti að vera annarsvegar fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju og fjárlögin og hinsvegar bráðavandi í samgöngum í vetur þegar Herjólfur tekur upp fastar siglingar í Þorlákshöfn. 

Hver verða þá næstu skref?

Eftir að fyrir lá að þingmenn kæmust ekki til fundar við okkur um þessi mál hef ég verið í sambandi við bæði fjármálaráðherra og innanríkisráðherra vegna þessara mála.  Við munum funda með þeim áfram.

Hver áttu von á niðurstaðan verði?

Ég hef ekki hugmynd um það.  Það er hinsvegar í mínum huga alveg ljóst að ef ekki kemur fjármagn í nýsmíði inn í fjárlög þá er þar með verið að fresta nýsmíði um enn eitt árið.  Ég kæri mig ekki um hálfkveðnar vísur í þessu.  Fyrir okkur hefur verið kynnt að hönnun eigi á ljúka í janúar 2015 og þá verði útboð á smíði.  Því ferli verði lokið í maí 2015 og þá hefjist smíði.  Skipið verði síðan komið í langþráða þjónustu við Vestmannaeyjar síðla árs 2016.  Ef tekin hefur verið ákvörðun um breytingu á þessu þá þarf að koma heiðarlega fram við Eyjamenn og tilkynna það.  Ekki að fresta málinu á forsendum fjárlaga.  Það er í mínum huga ekki heiðalegt.

Hvað með veturinn?

Það er afar brýnt að ekki verði látið undir hælinn leggjast að halda uppi sómasamlegum samgöngum við Vestmannaeyjar í vetur.  Á seinustu árum hefur verið fjárfest fyrir milljarða í uppbyggingu í kringum ferðaþjónustu og má þar telja safnastarf , hótel og gistiheimili, afþreying og þjónusta og fl.  Áhersla hefur verið lögð á að markaðsetja Vestmannaeyjar utan hefðbundins ferðamannatíma fyrir ráðstefnur, hvataferðir, árshátíðir og fl.  Því átaki hefur verið vel tekið og vel hefði gengið að selja slíkt í vetur – ef hægt væri að lofa fólki að það kæmist til Eyja.  Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi Landeyjahafnar.  Skírasta dæmið um hvað gerist þegar siglingar þangað leggjast af er sennilega að finna frá Eldheimum.  Þangað hafa nú komið 23.000 gestir frá 1. Júní.    Það gera um 200 manns á dag.  Í einn dag í haust sigldi Herjólfur í Þorlákshöfn – þá komu 4 gestir í safnið.  Sömu sögu er svo að segja um hótel, veitingastaði, þjónustufyrirtæki og fl.  Fólk sem fjárfesti fyrir aleigu sína og gott betur á því allt sitt undir því að ríkið tryggi þær samgöngur sem þörf er á.  Þar er ekki til mikils mælt.  Það sem enn meira skiptir er svo að þar að auki eigum við bæjarbúar lífsgæði okkar undir þessum siglingum.

Getur Baldur orðið hluti af þeirri lausn?

Það held ég að hljóti að verða skoðað af fullri alvöru og þá samhliða Herjólfi og Víking.  Baldur er grunnristari og ræður langtum betur við aðstæður í Landeyjahöfn.  Reyndar er ríkið að brenna inni á tíma hvað Baldur varðar þar sem fyrir liggur að nú þegar hefur verið skrifað undir sölusamning á Baldri.  Hann er á leið til Grænhöfðaeyja.  Það er því mjög skammur tími til að bregðast við. 

Hver er þá krafan?

Krafan er og verður sú að tryggja tafarlaust fjármagn til nýsmíði og það skip verði komið til þjónustu árið 2016 eins og okkur hefur verið lofað.  Þar að auki þarf að kaupa Baldur og nýta hann ásamt Víking til siglinga í Landeyjahöfn þegar Herjólfur tekur upp fastar ferðir í Þorlákshöfn.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.