Forsætisráðherra í Eyjum

15.September'14 | 19:51
lif_eftirlit_eldst13092014_1

Mynd: Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan flaug með Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, á þyrlu til Vestmannaeyja, á árlegan starfsmannadag forsætisráðuneytisins, eftir eftirlitsflug yfir gosstöðvarnar norðan Vatnajökuls um helgina.

Ráðherrann snæddi hádegisverð með áhöfninni og embættismönnum, sem voru með í för, á Hótel Svartaskógi í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði. Sérstaklega var flogið þangað á þyrlunni.

Átti að kynna starf Landhelgisgæslunnar í gosinu

Á laugardag fór Sigmundur í eftirlitsflug með Landhelgisgæslunni. Samkvæmt frétt á vef Landhelgisgæslunnar var markmið flugsins að kynna fyrir dómsmálaráðherra starf flugdeildar Landhelgisgæslunnar og almannavarnavarnadeildar ríkislögreglustjóra og með hvaða hætti Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í þeim viðbúnaði sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur vegna eldgossins og óróans á svæðinu við norðanverðan Vatnajökul.

Með í för voru einnig þrír hátt settir embættismenn: Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Flugu á sveitahótel til hádegisverðar

Ekki kemur fram í frétt Landhelgisgæslunnar að eftir að flogið var yfir gosstöðvarnar var flogið til Egilsstaða til að taka eldsneyti. Þaðan var svo flogið á þyrlunni að Hótel Svartaskógi, tæplega 30 km norðan við Egilsstaði, þar sem snæddur var síðbúinn hádegisverður, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Að því loknu var flogið aftur yfir gosstöðvarnar en síðan með suðurströnd landsins í átt til Reykjavíkur. Á bakaleiðinni var flogið með forsætisráðherrann og ráðuneytisstjórann til Vestmannaeyja, þar sem fram fór árleg starfsmannaferð forsætisráðuneytisins. Ekkert af þessu kemur fram í frétt Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan bauðst til að fara til Eyja

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu var ferðin alfarið skipulögð af Landhelgisgæslunni og Landhelgisgæslan bauðst til að fljúga með forsætisráðherra til Vestmannaeyja. Þetta mun hafa verið gert til að auðvelda að koma því við að hann kæmist í flugið, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

„Hentaði báðum aðilum best“

Ekki voru tiltækar upplýsingar í dag hjá Landhelgisgæslunni um kostnaðinn við að lenda með ráðherrann og ráðuneytisstjórann en upplýsingafulltrúinn taldi að hann væri óverulegur.

Í skriflegri athugasemd frá Georg Lárussyni, sem barst í gegnum forsætisráðuneytið, segir hann að til þess að nýta flugið sem best hafi líka verið flogið gæsluflug með suðurströndinni og forsætisráðherra hafi verið settur út í Vestmannaeyjum, enda hafi það hentað báðum aðilum best.

 

RÚV greindi frá.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.