Elliði kennir blaðamennsku

Ingimar Karl Helgason skrifar.

10.September'14 | 08:51

Elliði Vignisson, bæjarstjóri skrifaði grein á dögunum um lekamál Hönnu Birnu og varpaði þar fram spurningu um vinnubrögð blaðamanns DV. Nú hefur Ingimar Karl Helgason, blaðamaður svarað Elliða vegna málsins.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum skrifar grein á vefsíðu sína í gær þar sem hann reynir að gera blaðamann DV tortryggilegan, fyrir að hafa ekki birt fréttir um minnisblaðið úr innanríkisráðuneytinu, um leið og hann fékk það í hendur.

Þetta er svo aftur tekið upp í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Fleiri spinna sama lopa.

Nú myndu væntanlega flestir taka undir að það væri góð latína hjá blaðamönnum þessa lands, og annars staðar, að fara vandlega yfir þau gögn sem þeir afla til fréttaflutnings áður en rokið er til með birtingu. Í því gæti til dæmis verið fólgið að grafast fyrir um gildi viðkomandi gagna.

Stundum leita blaðamenn viðbragða við þeim gögnum sem þeir afla eða fá í hendur áður en fréttir eru birtar.

Spyrja má hvort blaðamenn á Fréttablaðinu og Mbl.is hefðu ekki betur haft slíkt til hliðsjónar þegar fréttir upp úr minnisblaðinu voru birtar að morgni 20. nóvember í fyrra.

Kannski ekki, ef marka má blaðamennskukúrs Elliða Vignissonar.

***

Minnisblaðið varð til í innanríkisráðuneytinu um klukkan 17 daginn áður, 19. nóvember. Þessar tímasetningar koma fram í dómi Hæstaréttar.

Í minnisblaðinu eru persónuupplýsingar um þrjár manneskjur. Trúnaðarupplýsingar sem opinberir aðilar tóku saman.

Að minnisblaðið færi í umferð er hegningarlagabrot að mati Ríkissaksóknara. Lögregla rannsakaði málið og nú hefur verið gefin út ákæra á hendur öðrum aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra.

Spyrja má hvers vegna ráðherra eða aðrir í æðstu stjórnsýslu innanríkisráðuneytisins brugðust ekki við þegar persónuupplýsingar um skjólstæðinga ráðuneytisins fóru í umferð. Þeim mátti vera það ljóst að morgni 20. nóvember 2013.

***

Ráðherrann hefur átt í vök að verjast og verið gagnrýndur fyrir að veita villandi upplýsingar í málinu á ýmsum stigum. Nú síðast hefur helst verið fjallað um þann þátt málsins sem snýr að afskiptum ráðherrans á rannsókn lögreglu.

Alvarleiki málsins er meðal annars fólginn í tvennu.

Annars vegar að minnisblaðinu hafi verið lekið til að byrja með. Geta borgarar þessa lands verið öryggir um að viðkvæmar upplýsingum um þá í vörslu yfirvalda verði ekki notaðar gegn þeim með vafasömum hætti? Það er brýnt að þetta verði upplýst.

Hins vegar að ráðherra dóms- og lögreglumála, sem sjálfur var til rannsóknar, skuli hafa haft afskipti af rannsókninni.

***

En aftur að Elliða og Staksteinum. Elliði veltir fyrir sér fjögurra daga tímabili.

Útgáfudagar DV hafa frá því í byrjun desember verið á þriðjudögum og á föstudögum. 2. desember í fyrra var mánudagur. Þá mun blaðamaðurinn hafa fengið gögnin í hendur.

Spyrja má hvort nokkuð sé óeðlilegt við að blaðamaður sem fær í hendur gögn fari yfir þau í ró og næði og birti þau síðan í næsta tölublaði síns miðils? Það tölublað kom út 6. desember.

Annars er ekki að sjá á umfjöllun DV þann annað en að DV sé að reyna að grafast fyrir um tilurð blaðsins, en birtir ekki þær persónuupplýsingar sem þar koma fram.

Hvers vegna vill Elliði Vignisson að blaðamaðurinn hefði rokið til og birt frétt um að hann hefði minnisblað, næstum hálfum mánuði eftir að því var lekið til annarra fjölmiðla sem birtu upp úr því fréttir svo til samstundis?

Ef tilgangur Elliða og Morgunblaðsins er að koma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til varnar, þá má spyrja hvort það hjálpi hennar málstað að reyna að gera blaðamann tortryggilegan.

Getur ef til vill verið að málstaðurinn svo vondur að menn kunni enga aðra leið?

 

Vefsíða Ingimars Karls.

Grein Elliða.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%