Sighvatur Jónsson talar um heimildamynd um Þjóðhátíð

12.Ágúst'14 | 11:02

Sighvatur Jónsson og Skapti Örn Ólafsson eru um þessar mundir á kafi í vinnu við heimildamynd um sögu Þjóðhátíðar Vestmannaeyja. Það er af mörgu að taka en þessi mynd er gerð í tilefni þess að 140 ár eru frá því að fyrsta hátíðin var haldin. Eyjar.net fékk Sighvat Jónsson í smá spjall um þetta spennandi verkefni.

Hér má sjá nýja stiklu úr myndinni: http://vimeo.com/103193083

 

Hvernig kom það til að þið Skapti fóruð út í þetta verkefni?

 

Við Skapti Örn hittumst í Týsheimilinu fyrir Þjóðhátíð í fyrra þegar hann var að dreifa Þjóðhátíðarblaðinu. Við tókum tal saman og fórum að velta upp ýmsum hugmyndum að því hvernig minnast mætti þess merka áfanga að ári síðar yrðu 140 ár liðin frá því að fyrst var haldin Þjóðhátíð í Herjólfsdal. Mér fannst tilvalið að fá Skapta með mér í heimildarmynd um hátíðina þar sem hann hefur ritstýrt Þjóðhátíðarblaðinu undanfarin ár, og hefur því ritað margt og rætt við margan manninn vegna hátíðarinnar. Þegar nær dró áramótum hófum við undirbúning að verkefninu og fjármögnun þess. Það var svo í ársbyrjun 2014 að Bjarni Ólafur Guðmundsson leitaði til okkar Skapta varðandi framleiðslu á innslagi um sögu Þjóðhátíðar í tengslum við tónleika sem hann og Guðrún Mary kona hans héldu í Hörpu í byrjun febrúar. Þeir tónleikar voru annars vegar til minningar um það að hundrað ár voru liðin frá fæðingu Ása í Bæ og hins vegar var tilefnið þau tímamót að 140 ár voru liðin frá fyrstu Þjóðhátíð. Þá hófst formleg vinna okkar Skapta við heimilda- og efnisöflun. Verkaskiptingin hjá okkur félögunum hefur síðan í grófum dráttum verið þannig að ég hef séð um kvikmyndun og eftirvinnslu og Skapti um handrit og viðtöl.

 

Þetta hlýtur að vera stórfenglega umfangsmikið?

 

Rétt er það, saga hátíðarinnar er rík og haldið hefur verið í margar hefðir í áratugi. Að sama skapi hefur hátíðin þróast mikið og breyst á rúmri öld. Það má segja að samspil hefðanna og nýjunganna geri sögu Þjóðhátíðar svo áhugaverða. Þjóðhátíð hefur margar hliðar og þrátt fyrir fjölgun gesta undanfarin ár eru sumar hliðar hátíðarinnar ekki kunnar hinum almenna gesti, þótt við heimamenn þekkjum hátíðina og sögu hennar vel. 

 

Er til mikið myndefni af eldri hátíðum?

 

Já, okkur hefur gengið vel að finna upptökur af eldri hátíðum. Það er einna helst að okkur vanti ljósmyndir frá elstu hátíðunum í kringum aldamótin 1900. Elsta myndskeiðið sem við höfum fundið er frá árinu 1944, það var tekið af bandarískum hermanni sem var á Íslandi við skyldustörf. Við höfum leitað fanga hjá RÚV og Kvikmyndasafni Íslands ásamt því sem við höfum skoðað upptökur manna sem kvikmynduðu í Vestmannaeyjum á árum áður, má þar nefna Svein Ársælsson og Friðrik Jesson. Margir hafa haft samband við okkur sem eiga gamlar kvikmyndir á filmum eða VHS spólum, við þiggjum allt með þökkum og hvetjum fólk til að hafa samband við okkur félagana í gegnum síma, tölvupóst eða Facebook (skaptiorn@gmail.com - hvati@hvati.is).

 

Hvar eruð þið staddir í ferlinu?

 

Hugmyndin er að fjalla um nýliðna hátíð með skírskotun til 140 ára sögu hátíðarinnar. Eftir vel heppnaðar upptökur á hátíðinni nú tekur við það áhugaverða púsluspil að ramma söguna inn í heildstæða mynd. Þá eigum við eftir að fjármagna myndina að fullu, en myndarlegur styrkur Menningarráðs Suðurlands í sumar ásamt stuðningi frá ÍBV – íþróttafélagi tryggði það að við gátum hafist handa við verkefnið. Við erum hins vegar fullir bjartsýni um að við náum að klára fjármögnun, enda höfum við fundið fyrir miklum áhuga á verkefninu.

 

Hvenær er áætlað að myndin komi út?

 

Áætlanir okkar gera ráð fyrir að myndin verði frumsýnd í aðdraganda næstu Þjóðhátíðar.

 

Hverju má fólk búast við?

 

Fólk má búast við skemmtilegri, líflegri - og umfram allt áhugaverðri heimildarmynd um elstu útihátíð Íslands, Þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem á engan sinn líka hér á landi og jafnvel víðar. Eðlilega viljum við ekki gefa of mikið upp að svo stöddu en í stuttu máli er okkar sýn sú að myndin varpi heildstæðu ljósi á undirbúning, framkvæmd og sögu þessarar einstöku hátíðar sem var fyrst haldin í Herjólfsdal árið 1874 á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar.

 

 

 

 

 

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.