Nýjar plöntur í Surtsey

18.Júlí'14 | 07:20

Surtsey

Tvær nýjar plöntutegundir fundust í Surtsey í árlegum vísindaleiðangri þangað nú í vikunni. Á aðeins fimmtíu árum er flóran í Surtsey orðin fjölbreyttari en í öðrum úteyjum Vestmannaeyjaklasans.

„Vísindamenn hafa komið til rannsókna hingað út í Surtsey frá því áður en gosinu lauk og á þeim tíma hafa orðið ótrúlegar breytingar. Og enn furða menn sig á dugnaðinum, hraðanum og hugmyndaauðginni á hönnunardeild móður náttúru,“ segir Borgþór Magnússon leiðangursstjóri í Surtsey.

Landnám plantna í Surtsey fór rólega af stað. Fyrst kom fjörukál, fjöruarfi, blálilja og melgresi en síðan tók þróunin kipp. „Þegar að gróður fór að aukast hérna, sérstaklega eftir tilkomu mávavarpsins hérna sunnar á eynni þá varð algjör sprenging. Þar hafa orðið hraðar breytingar. Við höfum séð hvernig gróðurinn hefur þétt sig, nýjar tegundir komið inn og sumar náð yfirhöndinni eins og til dæmis melgresið og túnvingullinn og í leiðinni hafa aðrar hörfað þannig að við erum farin að sjá miklar breytingar og myndun á graslendi sem í raun er líkt graslendinu í Úteyjunum,“ segir hann. 

Alls hafa fundist ríflega sjötíu tegundir háplantna í Surtsey og það verður æ sjaldgæfara að finna nýjar tegundir, til dæmis fannst engin ný í fyrra. Í leiðangrinum nú fundust hins vegar tveir nýir landnemar, skriðsóley og heiðardúnurt.

„Surtsey er orðin næst tegundaríkasta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum. Það er eingöngu Heimaey, sem er miklu stærri eyja, og hefur þess vegna fleiri vaxtarstaði og fleiri búsvæði, sem hefur fleiri tegundir plantna heldur en Surtsey. Hins vegar það sem er enn að gerast hérna það er dýralífið. Þá jarðvegsdýrin og annað dýralíf sem kemur í kjölfar gróðursins það er enn að nema land hérna,“ segir Bjarni Diðrik Sigurðsson líffræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. 

Surtsey hefur verið friðuð frá því nítján hundruð sextíu og fimm og vísindamenn fullyrða að það sé lykillinn að því hvernig hún hefur nýst til rannsókna á, meðal annars, náttúrulegri þróun gróðurfars og dýralífs. „Ég held að það skipti öllu máli. Hefði til dæmis verið leyfður hér óheftur aðgangur þá er hætt við að hér hefði orðið truflun á, ja við skulum segja fuglalífi á vori og hætt við að plöntur hefðu getað borist með mönnum. Það hefði sjálfsagt verið eftirsóknarvert að koma hingað með ferðamenn og það hefði kallað á einhverja aðstöðu og búnað og eyjan væri bara ekkert söm,“ segir Bjarni Diðrik.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.