Gríðarlegt tjón Vinnslustöðvarinnar

2.Júlí'14 | 13:10
Ljóst er að Vinnslu­stöðin í Vest­manna­eyj­um hef­ur orðið fyr­ir gríðarlegu tjóni vegna þess að fyr­ir­tæk­inu var ekki heim­ilað að veiða jafn mikið af mak­ríl og það átti rétt á. Þetta seg­ir Sig­ur­geir Brynj­ar Krist­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri, í yfirlýsingu sem birt er á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar í dag.
 

 „Umboðsmaður Alþingis er afdráttarlaus í áliti sínu og því fagna ég. Hann tekur undir sjónarmið okkar og slær á pólitíska fingur ráðherrans. Skilaboðin eru alveg skýr; geðþóttaákvarðanir við úthlutun aflaheimilda eru lögleysa,“ segir Lilja Björg Arngrímsdóttir, lögfræðingur Vinnslustöðvarinnar hf., um álit umboðsmanns Alþingis sem embættið birti opinberlega í dag, 2. júlí 2014, og varðar annars vegar kvörtun VSV frá mars 2013, og hins vegar svipað erindi frá Ísfélagi Vestmannaeyja frá maí 2012. 

 

Fyrirtækin Vinnslustöðin og Ísfélagið kvörtuðu hvort í sínu lagi til umboðsmanns vegna reglugerða sem Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út um stjórn makrílveiða og úthlutun aflaheimilda á grundvelli þeirra fyrir árin 2011 og 2012.


Umboðsmaður kaus að gefa út sameiginlegt álit um bæði erindin. Niðurstaða hans er sú að ráðherra úthlutaði ekki makrílheimildum á forsendum veiðireynslu fyrirtækja og fór þannig á svig við lög. Ráðherra fær jafnframt ofanígjöf fyrir að skilgreina ekki hugtakið „veiðireynslu“ í samræmi við lög.

Umboðsmaður vísar í raun á bug öllum málatilbúnaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (áður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis) gagnvart embætti sínu og segir orðrétt:

 

  • „Af framangreindu leiðir að sú ákvörðun stjórnvalda að hlutdeildarsetja ekki makrílstofninn frá þeim tíma [þ.e. frá 2011] var ekki í samræmi við lög.“

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir ljóst að fyrirtækið hafi orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna þess að það hafi fengið mun minna að veiða og vinna af makríl en gert var ráð fyrir og það átti rétt til. Hann telur tjónið nema um tveimur milljörðum króna og bætir við:

 

„Afleiðing úthlutunar ráðherrans var mikill tekjusamdráttur með tilheyrandi áhrifum á afkomu og störf starfsfólks okkar á sjó og landi. Vinnslustöðin varð til dæmis að leggja einu skipi, sem sérstaklega var útbúið til makrílveiða, segja áhöfn þess upp störfum og selja það í framhaldinu.“

 

Í rökstuðningi ráðuneytisins gagnvart umboðsmanni kom meðal annars fram að ekki hafi verið „vilji“ til þess af hálfu stjórnvalda að makrílstofninn yrði hlutdeildarsettur. Umboðsmaður svarar því skýrt til að íslenskum stjórnvöldum beri að „fylgja ákvæðum laga við úthlutun aflaheimilda til einstakra skipa óháð vilja ráðherra eða annarra“.

 

  • Umboðsmaður telur í niðurstöðukafla sínum að „ýmis álitaefni séu uppi um hvernig stjórnun á veiðum úr deilistofnum eins og makríl, sem veiðist bæði innan og utan lögsögunnar, skuli háttað“.
  • Umboðsmaður bendir Alþingi og ráðuneyti atvinnuvega- og nýsköpunar á „óvissu sem virðist vera uppi um stjórnun veiða úr deilistofnum“ og hvort lagabreytinga sé þörf til að kveða skýrar á um heimildir stjórnvalda fiskveiðistjórnunarmála við þær aðstæður sem fjallað er um í álitinu. Hann vísar þar sérstaklega til ákvæða laga sem fela í sér takmörkun atvinnufrelsis og „þurfa að eiga sér skýra heimild í lögum, sbr. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.“
  • Lokaorð umboðsmanns: „Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að skera úr um réttaráhrif annmarka á ákvörðunum ráðuneytisins sem um er fjallað í álitinu.
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is