Málefni eldri borgara til öndvegis

Geir Jón Þórisson skrifar

30.Maí'14 | 08:01

Geir Jón Þórisson

Málefni eldri borgara hafa verið mér mjög hugleikin enda um að ræða þann hóp fólks sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í. Hefur mér oft fundist sem það vilji gleymast í amstri dagsins og hraða samtímans. Á stundum hefur mér fundist fljótfærnis ákvarðanir hafi verið teknar sem beinlínis hafa skaðað stöðu eldri borgara og þá helst hvað varðar fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og að þeir fái að njóta ævikvöldsins áhyggjulaust og með reisn. Í samfélagi eins og okkar hér í Eyjum eigum við flest okkar náin tengsl við þá sem búnir eru að skila sínu til samfélagsins og fá, vonandi sem lengst, að njóta ævikvöldsins við eins góðan aðbúnað og mögulegt er.
Sú stefna hefur almennt verið ríkjandi að gera eldri borgurum kleift að dvela á sínum heimilum eins lengi og mögulegt er. Til þess að svo megi verða þarf að vera til staðar öflug og góð þjónusta. Á þetta hefur verið lögð áhersla hér í okkar sveitarfélagi og er það vel en auðvitað má alltaf gera betur og að því er stefnt. Það sem hefur komið sér einstaklega vel er sú ákvörðun bæjaryfirvalda að fella algjörlega niður fasteignagjöld á alla sem eru 70 ára og eldri. Þessi aðgerð er einstök á Íslandi og hefur vakið mikla athygli. Tel ég þetta eitt það besta sem gert hefur verið til að auðvelda eldri borgurum að búa á sínu heimili eins lengi og mögulegt er.
 
Þegar sá tími kemur að grípa þurfi til annarra úrræða höfum við frábært dvalar- og hjúkrunarheimili sem eru Hraunbúðir. Ljóst er að það er orðið allt of lítið og því þarf að huga að stækkun þess. Það er það verkefni sem við þurfum að ráðast í enda löngu orðið tímabært. Til að það megi verða þarf að tryggja að ríkið greiði lögboðin dvalargjöld. Fyrir því þurfum við að sækja fram af fullum þunga. Eitt af baráttumálum okkar sjálfstæðismanna í næstu kosningum er að ná því takmarki á næsta kjörtímabili að stækka Hraunbúðir og gera góða þjónustu þar enn öflugri. Fá ríkið til að standa við sinn þátt málsins og eins að ná því fram að málefni eldri borgara verði algjörlega á forræði sveitarfélagsins. Það teljum við bestu leiðina til að þjónusta okkar fólk eins og við teljum þurfa í góðu samkomulagi við félag eldri borgara. Þá viljum við styðja enn frekar við félagsstarf eldri borgara sem er afar mikilvægt og hefur svo sannarlega verið á mjög góðu skriði hjá okkur.
 
Það skiptir máli hvernig staðið verði að þessum málum og því vil ég ásamt félögum mínum leggja okkur öll fram til ná settu marki.
 
Kæru Eyjamenn, stöndum saman í þessum mikilvægu málefnum er varða eldri borgara okkar samfélags.
 
Geir Jón Þórisson
Skipar 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.