Setjum umhverfismálin aftur á dagskrá

Hulda Sigurðardóttir skrifar

19.Maí'14 | 13:17

Hulda Sigurðardóttir

Umhverfismál eru Eyjalistanum hugleikin og leggjum við mikla áherslu að hefja þann málaflokk til vegs og virðingar á ný, þau hafa setið á hakanum allt of lengi. Margt í okkar nærumhverfi mætti betur fara. Það er ekki nóg að sópa og snyrta götur og torg á tyllidögum. Umhverfinu öllu í bænum okkar þarf að sýna virðingu og nú er kominn tími til að taka á þessum málaflokki af festu þar sem umhverfið okkar fær að njóta vafans. Það er kominn tími til að Vestmannaeyjabær móti sér umhverfisstefnu til framtíðar.
 
Víða eru sár í náttúrunni sem þarf að græða. Sérstaklega þarf að huga að uppgræðslu á hinum ýmsu stöðum á Heimaey, ekki síst í þeim tilgangi að hefta fok. Sem dæmi má nefna svæði suður á eyju sem eru mjög illa farin og þarfnast þau sárlega uppgræðslu.
 
Þá þarf að taka til hendinni víða og má þar nefna Eiðið. Brýn þörf er að taka svæðið í gegn og gera snyrtilegra á allan hátt.
 
Fjöllin okkar hafa ekki farið varhluta af aukningu ferðafólks því þau eru vinsæll útivistarstaður sem er auðvitað jákvætt. En mikilvægt er að styrkja göngustíga og horfa til framtíðar í þeim efnum.
 
Þá hvetjum við fyrirtækin í bænum til að taka til hendinni. Mörg fyrirtæki eru til mikillar fyrirmyndar en önnur mættu lyfta grettistaki í umhverfismálum í sínu nánasta umhverfi.
 
Á þessu ári eru liðin 60 ár síðan framkvæmdir hófust við gamla malarvöllinn í Löngulág. Hann gegndi vel sínu hlutverki en nú er kominn tími til að græða þetta svæði upp því allar fótboltaæfingar hafa færst inn í nýja knattspyrnuhúsið. Malarvöllurinn hefur gert íbúum í næsta nágrenni lífið leitt undanfarin ár enda ekkert hugsað um þetta svæði lengur. Í vondum veðrum stendur grjóthríð á húsin með tilheyrandi skemmdum. Þetta er fallegur reitur sem hægt væri að gera að grænu svæði fyrir fjölskyldu- og útivistarfólk. Þarna væri einnig hægt að koma upp vönduðum leiktækjum fyrir ungviðið og byggja upp betri brettapallaaðstöðu og slá þannig nokkrar flugur í einu höggi. Gerum þetta svæði þannig úr garði að sómi sé af.
 
Horfum til framtíðar þegar kemur að umhverfismálum og hlúum miklu betur að eyjunni okkar en gert hefur verið undanfarin ár.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%