Misstök hjá Abel kostaði ÍBV stig á móti FH

19.Maí'14 | 08:50
FH vann nauman sigur á ÍBV, 1-0, í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld en eina markið skoraði Atli Viðar Björnsson fyrir heimamenn þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Það var ekki boðið upp á sérstaka knattspyrnusýningu í Kaplaprika í dag. Leikmenn beggja liða áttu erfitt með að ná upp góðu spili sín á milli. Heimamenn voru ívið sterkari en tókst þó ekki að skapa sér mörg marktækifæri. Þeirra helstu möguleikar komu í kjölfar undarlegra úthlaupa Abel Dhaira, markverði ÍBV, en hann átti síðar eftir að verða örlagavaldur í leiknum.
 
Kristján Gauti Emilsson var einna atkvæðamestur í liði FH-inga og hefði getað skorað í tvígang á fyrstu 25 mínútum leiksins eftir vandræðagang í markinu hjá Abel. Kristján varð síðan að fara af velli á 40. mínútu vegna meiðsla. Hann virtist hafa fengið tak í aftanvert lærið en Kristján hefur átt í vandræðum með lærið á sér og óvíst hvenær hann snýr aftur. Afar slæm tíðindi fyrir FH-liðið en Kristján hafði byrjað Íslandsmótið af miklum krafti.
 
Upplegg Sigurðs Ragnars, þjálfara Eyjamanna, virtist vera að hægja á leiknum við hvert tækifæri og riðla þannig uppspili FH-inga. Það tókst afskaplega vel en úr varð hinsvegar hundleiðinlegur fyrri hálfleikur, markalaust í hálfleik og við blasti erfitt verkefni fyrir Friðrik Dór, vallarþul og tónlistarstjóra í Kaplakrika, að halda lífi í áhorfendum á meðan á leikhléinu stóð.
 
FH-ingar komu ívið grimmari til seinni hálfleiksins. Bakverðir liðsins fóru enn ofar á völlinn og við það jókst pressa heimamanna töluvert. Þeir áttu þó sem fyrr í erfiðleikum með að skapa sér færi ef frá er talið skot Alberts Brynjars af stuttu færi sem fyrirliði ÍBV, Eiður Aron, varði nánast á marklínu.
 
Enn var það Abel Dhaira sem hjálpaði FH-ingum að búa til marktækifærin og svo fór að lokum að honum var refsað fyrir stórfurðulegar ákvarðanir sínar í úthlaupum úr markinu þegar Atli Viðar Jónsson skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma eftir að Abel hafði hlaupið út á móti sendingu Jóns Ragnars Jónssonar og misst af boltanum.
 
Sigur FH-inga staðreynd þrátt fyrir að eiga líklega ekki mikið meira skilið en eitt stig, en það er ekki spurt að því. Vonbrigði Eyjamanna leyndu sér ekki. Svekkelsið við að leggja allt í varnarleikinn í rúmar 94 mínútur og fá svo á sig klaufamark augljóslega gríðarlegt.
 
Það skyggði svo enn frekar á bragðdaufan leikinn að þeir Kassim Doumbia, varnarmaður FH, og Jonathan Glenn, sóknarmaður ÍBV, þurftu báðir að fara af velli vegna meiðsla.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.