Opið bréf til Eyjamanna og vina um allt land

Elliði Vignisson skrifar

23.Janúar'14 | 13:15
Ágætu Eyjamenn og vinir um allt land
Núna á vori komandi eru 12 ár frá því að ég gaf fyrst kost á mér í ábyrgðarstörf fyrir Vestmannaeyjabæ. Þá ungur og óreyndur Eyjapeyi með mikla trú á Vestmannaeyjum og þeim krafti sem í Eyjamönnum býr. Við Bertha vorum þá nýgift og rétt orðin foreldrar og flutt aftur heim til að búa okkur og stækkandi fjölskyldu framtíðarheimili hér í Eyjum. Draumur okkar þá var að...
...finna leiðir til að taka þátt í að móta okkar nærumhverfi. Við vildum taka þátt í að stefna samfélaginu til móts við nýja tíma.
 
 
Örlögin höguðu svo hlutum þannig að fyrir átta árum varð ég bæjarstjóri. Þar vissi ég sem var að staðan sem ég myndi gegna var langtum stærri en persónurnar sem gegna henni tímabundið.
 
 
 
Ég er bæjarbúum óendanlega þakklátur fyrir það traust sem mér hefur hingað til verið sýnt bæði í kosningum og þá ekki síður í starfi mínu sem bæjarstjóri. Ég er hrærður yfir þeim stuðningi sem ég hef fundið og þá ekki síst í þeim málum þar sem samfélagið hefur tekið höndum saman í að standa vörð um Vestmannaeyjar. Með sameiginlegu átaki hefur okkur tekist að snúa stöðu sem margir töldu vonlausa í sóknarfæri. Í stað sveitarfélags sem glímdi við viðvarandi íbúafækkun, neikvæðan fjárhagslegan rekstur og stöðnun á mörgum sviðum eigum við nú eitt öflugasta sveitarfélag á landinu. Reksturinn er í blóma, bæjarsjóður nánast skuldlaus, íbúum fjölgar ár eftir ár og mælingar sýna að Eyjamenn eru meðal þeirra ánægðustu á landinu öllu þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins.
 
 
 
Eftir næstum 12 ár sem bæjarfulltrúi og átta ár sem bæjarstjóri er reynslan orðin nokkur. Til að mynda hef ég nú setið 178 bæjarráðsfundi og 129 bæjarstjórnarfundi. Ég hef setið í fjölmörgum fagráðum og ráðgjafahópum. Átt aðkomu að stjórn bæði fjármála-, þekkingar og velferðarfyrirtækja og lagt fram fleiri minnisblöð og áætlanir en ég hef tölu á. Þessum árum seinna er ég því hvorki ungur né óreyndur. Ólíkt því sem áður var ber ég orðið nokkuð gott skynbragð á hvað felst í þeirri ákvörðun að bjóða sig fram til setu í bæjarstjórn. Ég veit að slíkt ætti enginn að gera nema að hann sé tilbúinn til að gefa sig allan að verkinu. Hann hafi til þess tíma, nennu og vilja. Hann beri metnað fyrir bæjarfélaginu og sé tilbúinn til að gefa því a.m.k. fjögur ár af ævi sinni.
 
 
 
Lok kjörtímabils er tími uppgjöra. Þá eru verk lögð í dóm kjósenda. Eftir að hafa farið yfir málin með fjölskyldu minni og vinum hef ég tekið ákvörðun um að láta reyna á hvort ég hafi áfram traust Eyjamanna til að vinna sveitarfélaginu gagn. Við þessa ákvörðun ræður tvennt mestu. Annarsvegar það að ég tel mig enn hafa fram að færa kraft, þrek og þor til að leiða áfram rekstur Vestmannaeyjabæjar og gera gott bæjarfélag enn betra. Hinsvegar er það sú trú mín að það séu umbrotatímar framundan. Hart er sótt að grunngerð Vestmannaeyja og jafnvel þjónusta sem við hingað til höfum talið sjálfsögð stendur nú völtum fótum. Í samstarfi við bæjarbúa vil ég takast á við þessi verkefni og önnur þau sem vinna þarf með hag Vestmannaeyja að leiðarljósi.
 
 
 
Með þetta í huga hef ég þegar sent bréf til uppstillinganefndar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum þar sem ég lýsi mig viljugan til að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum sem fram fara 31. maí næstkomandi.
 
 
 
Ég þakka þeim fjölmörgu sem vikið hafa að mér hvatningu til áframhaldandi starfa á seinustu vikum og óska þess af heilum hug að leiðir okkar liggi áfram saman næstu 4 ár, Vestmannaeyjum til heilla.
 
 
 
Elliði Vignisson
 
Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.