Lundasumarið 2013

Georg Eiður Arnarsson skrifar

25.September'13 | 08:47
Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera upp sumarið.
 
Mjög merkilegt lundasumar að baki, en þó fyrst og fremst gríðarleg vonbrigði með varpið, en í þessum skrifuðum orðum eru komnar 25 pysjur á sædýrasafnið, sem þýðir að 2013 er fimmta árið af síðustu 7 þar sem varpið misferst nánast alveg, en þó verður að hafa í huga útreikninga mína á heildar pysjufjöldanum frá öllum Vestmannaeyjunum, en 25 bæjar pysjur þýða ca. 5.000 pysjur, sem er samt rosalega lítið en samt meira heldur en veitt var.
Á síðasta ári sagði ég frá kenningu Simma á Víking um að varpið myndi lagast ef sjávarhitinn við Eyjar lækkaði, enda þokkalegt varp í fyrra í mun kaldari sjó heldur en árin þar á undan. Í ár hinsvegar, var sjórinn enn kaldari heldur en í fyrra, sem þýðir að því miður stenst þessi kenning ekki. Að sjálfsögðu hefur sjávarhitinn mikil áhrif á lífríkið í heild sinni, en það jákvæða við þetta allt saman er þó það að nú liggur fyrir endanlega, hvert vandamálið er. Ég hef nokkrum sinnum nefnt makrílinn sem sökudólg á ætisskorti lundans, en hvorki Hafró né Erpur hafa viljað taka undir þetta, en í sumar kom þó frá sílarannsóknarleiðangri Hafró, að ástæðan fyrir hvarfi sílisins væri augljóslega afætur og er makríllinn nefndur þar sérstaklega, þannig að í samræmi við áskorun mína nýlega á núverandi sjávarútvegsráðherra, þá þarf að auka verulega makrílveiðar, en ég geri mér vel grein fyrir því, að það er allsendis óvíst að það myndi duga til að breyta nokkru úr þessu.
 
Ákvörðum bæjarráðs að leyfa 5 veiðidaga í sumar var í sjálfu sér ágæt, en því miður ekki tekin í samráði við veiðimenn, enda höfðu veiðimenn beðið um að fá að veiða frá 19. - 30. júlí, en fengu frá 19. - 23. Ef veiðimenn hefðu fengið að velja, þá hefðu þeir alltaf valið síðustu 5 dagana, enda meiri líkur á því að þá væri kominn einhver ungfugl. Lítið sást nema gamall lundi þessa 5 daga, enda fór veiðiháfurinn minn aldrei út fyrir hús. Veiðistofn lundans mætti hins vegar 28. júlí og ég verð að viðurkenna alveg eins og er að ég hef aldrei á ævinni séð jafn mikið af lunda og í suðurfjöllunum þann dag og sorglegt að ekki skyldu vera leyfðar veiðar þá, þó ekki væri nema til þess að geta kannað aldurshlutfallið í veiðistofninum. Að mínu mati hefði verið miklu skynsamlegra að fara að tillögum veiðimanna, en setja inn að ætlast væri til þess að hver veiðimaður færi að hámarki 2-3 í veiði. Flestir veiðimenn fóru ekki neitt, en einstaka veiðimenn sátu töluvert við en fengu lítið.
 
Aðeins um Erp. Eins og kemur fram hérna fyrr þá er ég á þeirri skoðun að ástæðan fyrir öllum vandamálum lundans sé makríllinn og tel ég þar með störfum hans hér með lokið, enda engin ástæða til þess að henda frekari fjármunum í þessa vinnu hjá Erpi. Að því sögðu vil ég þó segja það, að ég er rosalega ánægður með fréttaflutning Erps á þessu ári, enda fréttir um ósjálfbærar veiðar í 45 ár, eða fréttir að aðkomu eða flækingslundum eða innflutnings lundum fyrst og hlátursefni hjá öllum þeim sem hafa þekkingu á lundanum, en fær svona þá sem að þekkja ekki til, til þess að verða svolítið hugsi í það minnsta.
 
En svona til gamans þá langar mér að svara þessum atriðum að lokum. Ósjálfbærar veiðar í 45 ár er ekkert annað en brandari og eiginlega ekki svaravert, en ég efast ekki um það að Erpur getur búið til einhver gögn sem sýna þetta. Hins vegar varðandi aðkomu- eða flækingslunda, þá er það staðreynd að meira og minna alla síðustu öld hefur lundi verið merktur í Vestmannaeyjum sem nemur tugum þúsunda, en aldrei hefur einn einasti merktur lundi frá Vestmannaeyjum veiðst annar staðar á landinu, svo eina ástæðan sem ég gæti hugsanlega hugsað mér fyrir því að lundi færi að koma annar staðar frá til Vestmannaeyja, í hungursneyðina hér, væri þá kannski það að lundinn fyrir norðan væri kominn í megrun, en ég tel það svolítið hæpið. Það sem ég kalla veiðistofn lundans, er einfaldlega það varp sem hefur verið á hverju ári undanfarin ár, alltaf amk. nokkrir þúsund fuglar upp í nokkur hundruð þúsund, sem að sjálfsögðu kemur hingað sem ungfugl í veiðistofni og magnið er einfaldlega það mikið vegna þess að hér hefur ekkert verið veitt. Lundinn sem Erpur kallað aðkomu eða flækings lunda er því einfaldlega úr varpi í Eyjum og annað er bara tómst bull.
 
Lundinn kom til Eyja í sumar í milljóna tali eins og hann hefur alltaf gert, og hann mun líka gera það á næsta ári og nú vitum við, hvað þarf að gera til þess að hjálpa fuglinum.
 
Góða skemmtun allir á lundaballinu.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.