Kvöld sem við gleymum aldrei

segir Hermann Hreiðarsson

12.Júlí'13 | 10:00

fótbolti

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, segir að sínir menn hafi unnið fyrir naumum sigri þess gegn færeyska liðinu HB í forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld.
 
Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Vestmannaeyjum og því þurftu Eyjamenn á marki að halda í Færeyjum í kvöld. Það kom ekki fyrr en á 90. mínútu er varamaðurinn Arnar Bragi Bergsson skoraði úr vítaspyrnu en þetta var hans fyrsti leikur með ÍBV.
 
„Þeir byrjuðu betur fyrstu 20 mínúturnar í kvöld en svo tókum við okkur taki og komumst inn í leikinn,“ sagði Hermann í samtali við Vísi eftir leikinn.
 
„En eftir það fór leikurinn fram á þeirra vallarhelmingi. Við fengum nokkur færi sem við náðum ekki að nýta en svo kom sigurmarkið í lokin. Þetta gerist varla sætara.“
 
Hermann segir að Arnar Bragi hafi verið handviss um að fá að taka vítið í kvöld. „Ég þurfti að spyrja hann 2-3 sinnum um hvort að hann væri viss. Hann treysti sér fullkomnlega til þess og var ískaldur,“ segir Hermann sem kom sjálfur inn á sem varamaður í kvöld, rétt eins og Arnar Bragi.
 
„Ég var feginn því annars hefði ég þurft að taka spyrnuna. Hann gerði mér því greiða,“ bætir hann við í léttum dúr.
 
Hermann segir að þegar að ÍBV hafi brugðist við öflugri byrjun HB hafi leikurinn snúist við. „Við breyttum aðeins til í uppstillingu okkar og tókum þá völdin og vorum sterkari aðilinn. Það er því ekki spurning að sigurinn hafi verið sanngjarn heilt yfir þessa tvo leiki. Það er ekki flóknara en svo.“
 
ÍBV mætir Rauðu stjörnunni frá Serbíu í næstu umferð. „Það hefur verið mikið að gera að undanförnu og ég hef ekkert skoðað liðið. Við eigum Þór á sunnudag og förum svo út.“
 
„En það er mikil tilhlökkun og spenna í hópnum, enda stórlið með ríka sögu. Það verður mikið ævintýri fyrir okkur að fara þangað og vonandi minning sem menn muni geyma alla ævi. Strákarnir eiga heldur ekki eftir að gleyma leiknum í kvöld.“

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...