Bjarni Benediktsson er hæfastur til að rífa Ísland upp til árangurs

Árni Johnsen skrifar

4.Apríl'13 | 10:41
Við Íslendingar erum undarleg þjóð, svo gjörn á að festast í vangaveltum sem engu skipta. Nú ríður á fyrir Ísland að ryðjast upp úr doða og vonleysi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur setið undir afar neikvæðri umfjöllun um tíma. Á hann það skilið? Nei, ekki ef almennri sanngirni og brjóstviti er beitt. Bjarni er af athafnamönnum, fór sjálfur í viðskipti en vildi vinna fyrir land og þjóð og vék úr þeim sjálfviljugur án áfalla. Annað er slúður. Þegar stórhrun dynur yfir hálfan heim og allt fer úr böndum í öllum rekstri heimila og fyrirtækja og allar forsendur hrynja er út úr kortinu að kenna einum einstaklingi um af því að það hentar pólitískt. Hvílík smæð. Hættum þeirri firringu að taka af lífi án dóms og laga, ala á slúðri og lágkúru. Horfum hærra. Aðalatriðið er að lifa af.
 
Sem stjórnmálamaður situr Bjarni uppi með tvö atriði sem „vandamál“, svokallaðar „syndir feðranna“ í viðskiptum þótt flest sé það orðum aukið og óklárt og án hans ábyrgðar. Hitt, að hann hefur ekki verið nógu laginn að ná eyrum fólks um mál sem mest á brenna, úrlausnir fyrir heimilin. Að mínu mati veldur helst að hann er varfærinn, smjaðrar ekki né býður gylliboð. Er það ókostur? Kannski er hann of heiðarlegur, segir allt, þótt leikreglur lífsins kalli í bland á að „oft má satt kyrrt liggja“.
 
Stefna Sjálfstæðisflokksins í úrlausnum fyrir heimilin er mjög klár og skilvirk og gefur ríka von.
 
Það er yfirdrifið af fólki í stjórnmálunum í dag án reynslu og verksvits, en heldur að það sé svo gáfað að það spræni gáfum. Þegar það sprænir rennur hins vegar ekkert og það skilar engu.
 
Vissulega er enginn gallalaus, en lífið bæði og lánið er valt, stjórnmál sem allt annað. Ég lenti til dæmis í því sem gamalreyndur stjórnmálamaður í nýafstöðnu prófkjöri sjálfstæðismanna að þeir þrír meðframbjóðendur mínir sem urðu efstir í prófkjörinu rottuðu sig saman til þess að skáka mér út af hlaupabrautinni. Bjuggu til tilboðspakka, eins konar snyrtivörur, og falbuðu sig hvert með öðru, ekki á eigin verðleikum, heldur bögglauppboði og hrossakaupum með miklum skyndiáróðri og þúsundum hringinga í stuttri lotu, Facebook og fleiri meðulum og móðursýki og ætlunarverkið tókst. Það var sem sagt ákveðið í þröngan hóp klíku í Reykjanesbæ hverjir ættu að verða þingmenn Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það var skelfilegt að vakna upp við brotnar leikreglur, falsið og svikin, en ekki meira um það að sinni. Margir hafa heimtað mig í sérframboð, en ég svík ekki Sjálfstæðisflokkinn frekar en Fjalla-Eyvindur frændi, bíð bara eftir næsta prófkjöri.
 
Því nefni ég þessa óvæntu og vondu reynslu, að þessi „aðför“ er smámál miðað við það sem skiptir mestu máli; heill Íslands, sjálfstæði og styrk þjóðarinnar. Það var þó hlýlegt þegar gamalreyndur kappi sagði: „Hverjum heilvita manni dytti í hug að henda þér eða Binna í Gröf í land, mönnum sem alltaf fylgdi fullfermi?“
 
Ætíð verður að horfa á stóru málin ef árangur á að nást, þótt öll smærri atriðin skipti líka miklu. Árangur heildar á að hafa forgang, ekki manns eigið skinn.
 
Ég hef unnið í þingflokki með fimm formönnum Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímssyni, Þorsteini Pálssyni, Davíð Oddssyni, Geir Haarde og Bjarna Benediktssyni. Allt eru þetta nöfn mætustu manna, en mjög ólíkra að gerð þótt þeir ættu sömu grundvallarhugsjónir í þjóðmálum. Davíð var þeirra skilvirkastur, enda ótrúlegur og slunginn leiðtogi, kunni að blanda saman geðvonsku Íslendinga og gálgahúmor sem hentaði vel tækifærismennsku landans. En að fellur og út fellur hatur og ást.
 
Davíð var ætíð á undan öðrum með leiki í brjóstvasanum og það hefði verið mikil þörf á slíku síðustu árin. Þá væru þau ekki ónýt. Davíð með sitt víðfeðma næmi las sérfræðinga með hraða eldflauga.
 
Ég hef sagt að þótt Sjálfstæðisflokkurinn missi illa niður um sig buxurnar þá borgi sig ekki að refsa honum, því þar hafa menn fremur öðrum flokkum þor til að taka á vandamálunum. Reynslan er ólygnust. Sá eini af þessum fimm formönnum sem hefur ekki fengið að spreyta sig í ríkisstjórn er Bjarni Benediktsson. Reynsla mín af vinnu með honum um árabil er sú að hann sé hæfasti stjórnmálamaðurinn á Íslandi í dag til þess að rífa Ísland upp til árangurs. Hann er fljótari en allir á Alþingi í dag að lesa úr gögnum, bera saman hvað skarast og hvað ekki, finna raunhæfar leiðir til þess að smíða brúklegar lausnir án þess að lofa upp í ermina á sér. Í vinnu hans og vinarþeli býr raunhæf von. Bjarni stendur á sínu ákveðið og falslaust, meira en gildir um marga stjórnmálamenn. Bjarni setur sig sjálfur inn í málin frá A til Ö en hlustar ekki aðeins á sérfræðinga. Þetta verklag hans er mun meira afgerandi að mínu mati en hjá öllum formönnum Sjálfstæðisflokksins sem ég hef nefnt.
 
Úr því að Bjarni vill sem hugsjónamaður gefa sig í þjóðmálabaráttuna með opnum veiðileyfunum hlýtur að vera sanngjarnt að hann fái tækifæri til þess að spreyta sig miðað við sömu leikreglur og aðrir.
 
Í ljós mun koma farsæl aflakló fyrir Ísland.
 
Árni Johnsen, alþingismaður

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.