Hvorki einelti, kúgun né ofbeldi að krefjast vandaðra vinnubragða

„Gefum ekki afslátt af eðlilegri stjórnsýslu“

5.Mars'13 | 09:09

Eyverjar

Nú er svo komið að Eyverjar sjá sig knúna til að skrifa þennan stuttan greinarstúf. Skrif þessi eru vel meint og þeim ætlað að uppfræða þá sem ekki vita hvert er hlutverk bæjarfulltrúa. Ekki síst oddvita V-listans sem telur það til sinna helstu dyggða að lengja fundi og skapa til ófriðar um mál sem síðan eru afgreidd einróma, eða í versta falli með hjásetu hennar.
Eyverjar vita að hlutverk bæjarfulltrúa er vandasamt. Um leið og þeir fara fyrir rekstri Vestmannaeyjabæjar þurfa þeir að gæta hagsmuna samfélagsins út á við. Fiskveiðistjórnun, samgöngur, niðurskurður í heilbrigðiskerfi, samdráttur hjá sýslumanni og svo margt annað fellur þar undir. Fjöldamörg fyrirtæki eiga einnig hagsmuna að gæta sem samtvinnast við hagsmuni Vestmannaeyja og stundum gerist það meira að segja að hagsmunir verða svo ólíkir að mál fara dómstólaleiðina eins og nýlega gerðist þegar Kaupþing krafði Vestmannaeyjabæ um milljarð í greiðslu. Mál sem Vestmannaeyjabær hafði fullnaðarsigur í. Undir rekstur Vestmannaeyjabæjar fellur síðan allt skóla- og fræðslukerfi í Vestmannaeyjum. Höfn, veitur, félagsþjónusta, áhaldahús, slökkvilið, almannavarnir, gatnagerð, skipulagsmál og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt. Eins og sést af þessari upptalningu þá fylgir því mikil ábyrgð því að taka að sér embætti bæjarfulltrúa.
 
Eyverjar eiga sæti í nefndum Vestmannaeyjabæjar og hafa því innsýn í hvernig stjórnkerfið er uppbyggt. Þeir vita sem er að fagráðum er falið að stjórna þeim málum sem undir ráðin falla. Í þessum ráðum sitja fulltrúar stjórnmálaflokka. Þar eru mál rædd og þau reifuð. Þar er ákvörðun tekin. Fundargerðir þessara ráða fara síðan til samþykktar (eða synjunar) í bæjarstjórn. Þá kemur til kasta bæjarfulltrúa. Hjá meirihlutanum er fundað reglulega og þar fá bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins upplýsingar hjá sínum fulltrúum í ráðunum.
 
Eyverjar taka hlutverki sínu fyrir Vestmannaeyjabæ alvarlega og hafa því kynnt sér lagaumhverfi kjörinna fulltrúa. Þeir vita að bæjarfulltrúar starfa m.a. eftir stjórnsýslulögum. Eitt af því sem þar er gerð krafa um er að bæjarfulltrúar séu upplýstir þegar að því kemur að þeir taka ákvörðun um mál sem þeir fjalla um. Slíkt fellur undir rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og í henni er fólgin alger krafa um að höndunum sé ekki kastað til þegar kemur að því að kynna sér mál þau sem til umfjöllunar eru. Öllum má ljóst vera hveru mikilvægt það er að bæjarfulltrúar fari eftir þessu og komi undirbúnir til fundar en ætlist ekki til þess að jafningjar þeirra í bæjarstjórn uppfræði þá um þau mál sem til afgreiðslu er. Slíkt myndi kallast svindl ef um væri að ræða próf í skóla. Til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun er bæjarfulltrúum tryggt aðgengi að gögnum í 28. grein sveitarstjórnarlaga. Það eiga þeir að nýta sér.
 
Eyverjar þekkja ekki til þess að í lögum, reglum eða leiðbeinandi þáttum teljist það eðlilegt vinnulag að minnihluti mæti til fundar og telji það sitt helsta hlutverk að fá upplýsingar hjá meirihlutanum um þau mál sem á dagskrá eru. Á fundum sitja 7 bæjarfulltrúar sem allir hafa sömu skyldur og sama rétt. Öllum ber þeim sama skylda til að undirbúa sig fyrir fundi. Ræða við sitt ráðsfólk og lesa gögn vandlega. Umræða á fundum á síðan að vera efnisleg og vönduð. Þar á að skiptast á skoðunum og móta afstöðu byggða á þeim undirbúningi sem á sér stað fyrir fundi.
 
Eyverjar urðu því undrandi þegar þeir hlustuðu á seinasta fund bæjarstjórnar og urðu vitni af því hvar nýr oddviti V-listans, sem þó á sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sýndi slíka vanþekkingu að slíkt er sem betur fer einsdæmi í seinni tíð. Ekki einungis ætlaði nýr oddviti að velja karl af lista inn í bæjarstjórn fyrir kjörna konu eins og það væri hennar val hver tæki kjöri. Oddvitinn gerði sig einnig ítrekað sekan um að koma í ræðustól og spyrja meirihlutann frétta af því hvað hennar fólk væri að gera í fagráðum. Sjálf neitaði hún síðan að upplýsa félaga sína í bæjarstjórn um afstöðu sína þegar fjallað var um eitt af langstærstu hagsmunarmálum sveitarfélagsins, fiskveiðistjórnun. Eyverjar telja að allir þeir sem gegna þeim mikilvægu málum í þágu Vestmannaeyjabæjar ættu ávalt að vera vel upplýstir um þessi mikilvægu mál og taka afstöðu. Óháð því hvaða flokki viðkomandi fylgja.
 
Eyverjum er eins og öðrum ljóst að nýr oddviti V-lista hefur einsett sér að hætta því mikla og góða samstarfi sem verið hefur á milli flokkanna seinustu ár. Það var svo sem viðbúið. Hvað sem því líður ætlast Eyverjar til þess að ekki verði gefinn afsláttur af eðlilegri og heilbrigðri stjórnsýslu. Það flokkast hvorki sem einelti, kúgun eða ofbeldi þegar þess er krafist að oddviti V-listans sinni rannsóknarskyldu og komi undirbúin til funda.
 
Stjórn Eyverja

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).