Bullið í Eyjum

Margrét Tryggvadóttir skrifar

10.Febrúar'13 | 09:08
Ég veit að ég er ekki ein um að hafa fylgst undrandi með fréttum af því að starfsmenn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hafi verið látnir taka lyfjapróf og að ellefu starfsmenn hafi misst vinnuna í kjölfarið. Og bæjarstjórinn Elliði Vignisson segist ánægður með framtakið og ætlar sjálfur að pissa á próf. (Reyndar mátti allt eins skilja fyrirsögn einnar fréttirinnar á þann veg að hann ætlaði að prófa fíkniefni í ráðhúsinu).
Nú vil ég taka það skýrt fram áður en lengra er haldið taka það fram að ég mæli ekki með notkun vímuefna, hvort heldur sem er löglegra eða ólöglegra, þótt ég virði sjálfsákvörðunarrétt fullorðinna og sjálfráða einstaklinga til að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Og mér finnst ekki að fólk eigi að vera undir áhrifum í vinnunni. Ég vil ekki að kennarar barnanna minna staupi sig í frímínútunum, leigubílstjórar fái sér í nös á rauðu ljósi eða læknar neyti amfetamíns til að halda sér ferskum á löngum vöktum. Mér kemur hins vegar ekki við hvað kennarar barnanna minna gera í sínum frítíma, svo lengi sem þeir standa sig í skólastofunni og hegðun þeirra skaði ekki aðra en þá sjálfa.
 
Það er margt sem truflar mig í þessu máli: Aðferðinni sem er beitt, afleiðingum falls á lyfjaprófi, brot á friðhelgi einkalífsins og þeirri heimskulegu trú að það að vera vondur við einhvern sé í raun að vera góður við hann.
 
Fyrst að aðferðinni. Ég er ekki sérfræðingur um lyfjapróf en ég veit þó að pissupróf eru ónákvæm og ekki gild fyrir dómstólum. Þau gefa ekki góða mynd af ástandi þess prófaða vegna þess að efnin brotna niður með ólíkum hætti. Þannig mælist notkun á kannabis-efnum mjög lengi í þvagi en áfengi og kókaín mjög stutt. Þó er það sennilega svo að fólk er lengur illa fyrir kallað vegna ofneyslu á búsi og kóki en kanabis-efnum. Þá getur ýmis fullkomnlega lögleg og skaðlaus neysla valdið því að fólk fellur á svona prófum, svo sem át á saklausum birkirúmstykkjum, ýmsum verkjalyfjum og öðrum lyfjum frá læknum sem eru fólki nauðsynleg í leik og starfi. Kristinn Tómasson, geðlæknir og yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu fór yfir þessi mál í fínu viðtali við síðdegisútvarpið á Rás 2 sem ég mæli eindregið með að fólk hlusti á.
 
Þá að afleiðingunum sem er atvinnu- og ærumissir og útskúfun úr litlu samfélagi. Er það sanngjarnt og öllum fyrir bestu? Er það betra fyrir samfélagið að þessar ellefu manneskjur missi vinnuna og fari á atvinnuleysisbætur? Að ellefu fjölskyldur missi fyrirvinnuna? Miðað við umræðuna er fremur ólíklegt að þetta fólk gangi í önnur störf eins og ástandið á vinnumarkaði er núna.
 
Og þá erum við komin að réttarstöðu stafsmannanna og hver „glæpurinn“ sé í raun og veru. Þar sem prófin eru ónákvæm er ekki sannað að nokkur þessara ellefu manna hafi verið undir áhrifum í vinnunni. Það er ekki útilokað en það er með öllu ósannað og á meðan svo er ættu þeir að halda störfum sínum og þeir sem hafa misst vinnuna ættu að láta reyna á rétt sinn. Vissulega eru flest fíkniefni, önnur en áfengi, bönnuð á Íslandi en þótt starfsmaður brjóti lög í frítíma sínum kemur það vinnuveitandanum ekkert endilega við. Auk þess er t.d. kanabis ekki ólöglegt alls staðar og því mögulegt að starfsmaður sem hafi reykt slíkt utan landssteinanna hafi ekki verið að brjóta lög. Þá segir prófið heldur ekkert um hvort neysla vímuefna sé vandamál fyrir starfsmanninn. Fullt af fólki notar áfengi reglulega án þess að brjóta húsgögn, keyra drukkið eða lemja einhvern. Það sama á við um önnur vímuefni. Neysla er ekki endilega sama og ofneysla eða fíkn.
 
Við skulum þó horfast í augu við það að vímuefnaneysla getur verið mikið vandamál og komið illilega niður á störfum fólks og skapað mikla hættu á vinnustað. Á því verða yfirmenn auðvitað að taka en það getur ekki gerst svona. Ef starfsmaður á við vímuefnavanda að stríða ætti að bjóða honum aðstoð, t.d. með því að aðstoða hann við að komast í meðferð og í einhverjum tilfellum getur verið réttlætanlegt að fólk missi vinnuna.
 
Svo er það hin harða nálgun – „zero tolerance“. Af hverju í ósköpunum halda menn að það sé gott? Hið svokallaða „stríð gegn fíkniefnum“ gengur út á að sýna neytendum og öðrum mikla hörku. Hin bitra reynsla síðustu áratuga sýnir að það er kolröng nálgun, neyslan hefur aukist jafnt og þétt og vandinn eykst á öllum sviðum. Með glæpavæðingu fíkniefnaneyslu verða til undirheimar þar sem lög frumskógarins gilda og glæpahópar taka völdin. Og veiku fólki er útskúfað úr samfélaginu eða lokað inni. Það finnst mér heimskulegt.
 
Ofneysla fíkniefna er fyrst og fremst heilbrigðisvandamál og við eigum að takast á við vandann með það í huga. Það hjálpar engum að missa vinnuna. Það væri alveg eins vitlaust að gera sykursýki 2 refsiverða og reka þá sem hana fá úr vinnunni. Hún virðist líka vera áunninn, lífstílstengdur sjúkdómur en þó einnig tengdur erfðum og þjóðfélagsstöðu. En við gerum það ekki. Við reynum að hjálpa fólki sem fær sykursýki. Auðvitað! Heilsubrestur þeirra er viðfangsefni heilbrigðiskerfisins en fólk þarf að breyta sínum lífstíl til að halda heilsu. Það sama á að eiga við um þá sem ánetjast fíkniefnum. Það læknast enginn við að missa vinnuna eða fara í fangelsi.
 
Og eru vinnuveitendurnir í Eyjum að biðja sína starfsmenn að nota frekar áfengi eða hörð efni með hraðara niðurbrot sem mælast þá síður? Eða ætla Elliði Vignisson og Binni í Vinnslustöðinni að endurvekja bindindishreyfinguna?
 
Bubbi Morthens skrifar fínan pistil á pressuna þar sem hann bendir á tvískinnungsháttinn í þessu. Það mætti einnig benda á tvískinnunginn í því að það sveitarfélag sem stendur árlega fyrir mestu sukkhátíð Íslands ætli sér að taka svona á vímuvandanum.
 
www.eyjan.is

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.