Vor í lofti og nýjustu kjaftasögurnar

Georg Eiður Arnarsson skrifar

22.Janúar'13 | 08:14
Það er farið að birta að degi og ég tók eftir því í gær að það var bjart alveg fram undir 6 um kvöldið. Einnig hef ég tekið eftir því að undanförnu á sjónum, að í þessu hlýindaskeiði að svartfuglinn er mættur á hafið við Eyjar, svo vorið er ekki svo langt undan.
 
Smá ábending fyrst til bæjarstarfsmanna eða bæjarstjórnar: Nú hefur sá ágæti siður verið tekinn upp síðustu ár að bæjarbúar láta jólaljósin loga fram á afmælisdag eldgossins og bara gaman að því, en mér finnst orðið svolítið dapurlegt að horfa á t.d. Kirkjuveginn, þar sem mér sýnist að þessi ágætu ljós sem sett eru af bænum á ljósastaurana, það logi ekki nema ca. annað hvert ljós. Mér finnst jólaljósin mjög falleg, en mér finnst ekkert ljótara heldur en biluð ljós og lítill sómi af þeim.
Ég tók eftir grein í síðustu viku eftir "stórvin" minn Erp, meintan lundasérfræðing, þar sem hann segir m.a. að lundaveiðar í Vestmannaeyjum hafi ekki verið sjálfbærar síðustu áratugi. Mér finnst alltaf jafn ótrúlegt að hugsa til þess, að það sé virkilega til fólk sem trúir því sem þessi maður lætur frá sér, en nóg um það.
 
Ég hef fengið á mig nokkrar spurningar að undanförnu varðandi það hvar ég ætli að staðsetja mig í pólitíkinni, eða hvar ég verði í flokki í vor. Til að svara þessu, þá er þetta nokkurn veginn þannig að ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á pólitík sem slíkri, heldur hef ég fyrst og fremst verið að skipta mér af vegna þeirrar hugsjónar minnar, að það verði að breyta þessu skelfilega kvótakerfi. Skoðanir mínar þar hafa þróast áfram og í dag er ég orðinn mun harðari á einföldum og skýrum lausnum og ekki tilbúinn að taka þátt í eða hlusta á, einhver óljós og oft á tíðum innihaldslaus loforð. Það er voðalega einfalt að segjast vilja breyta hlutunum, það er hins vegar miklu, miklu erfiðara að segja hvernig. Þess vegna m.a. er ég hættur bæði í Dögun og FF og þegar ég lít yfir önnur framboð, þá er þetta nokkuð skýrt:
 
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vilja óbreytt kvótakerfi, Samfylking og Vinstri grænir líka, en þó með þeim breytingum að þjóðin, eða ríkið, fái stærri hlut af arðinum. Ég skoðaði í gær mér til gamans stefnu þessa nýjasta framboð sem er að mælast ágætlega í skoðanakönnunum, eða Björt framtíð, en BF er með nánast nákvæmlega sömu stefnu og Samfylkingin, þannig að því miður er enginn flokkur í dag með stefnu sem getur komið í veg fyrir að aflaheimildir flytjist landshluta á milli eftir fjármagni, en vonandi mun einhver flokkur koma fram fyrir vorið með skýrar lausnir í sjávarútvegsmálum, en ef kosið væri á morgun þá myndi ég sennilegast skila auðu.
 
Að lokum smá úr sjávarútvegnum, svona nýjustu kjaftasögurnar úr Eyjum: Það virðist vera á allra vitorði, alla vega sem ég hef hitt, að í fyrsta lagi þá muni útgerð Magnúsar Kristinssonar ekki fara frá Eyjum fyrr en eftir kosningar og þar hafi Sjálfstæðisflokkurinn kippt í spotta, enda ekki gott fyrir þá að 200 störf í Eyjum tapist rétt fyrir kosningar. Hin sagan gengur út á það, að Samherji sé hugsanlega að kaupa út hlut Guðmundar í Brim í Vinnslustöðinni og ætli sér þar enn stærri hlut í framtíðinni, sem geta nú varla talist góðar fréttir fyrir Eyjamenn, en það eru ýmsar blikur í sjávarútveginum í dag og algjörlega óljóst hvernig þetta fer allt saman, svo ég ætla að enda þetta eins og svo oft áður með þessum orðum:
Eina leiðin til að losna við allt sem heitir brottkast, svindl framhjá vigt, kvótaleigubrask og veðsetning, með öllum þeim hörmungum sem við Eyjamenn höfuð verið vitni að frá hruni, er veiðidaga kerfi.
 
 
http://georg.blog.is
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).