Verjum heimilin

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar

17.Janúar'13 | 12:37

ragga

Síðustu fjögur ár hefur ríkt mikil óvissa í íslenskum sjávarútvegi sem valdið hefur hundruðum fyrirtækja umtalsverðum vandræðum. Allir sem komið hafa nálægt fyrirtækjarekstri vita að óvissan er versti óvinurinn en því miður virðist lítill skilningur á rekstri fyrirtækja á stjórnarheimilinu.
Óvissan er þó ekki bundin við sjávarútveginn eingöngu. Aðrar mikilvægar atvinnugreinar, s.s. orkuiðnaðurinn og ferðaþjónustan búa einnig við mikla óvissu sem eingöngu kemur til vegna þeirra stjórnarhátta sem ríkt hafa á kjörtímabilinu. Þessu þarf auðvitað að breyta og þessu verður breytt með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar í vor.
 
Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta grunnstoðin í íslensku atvinnulífi. Árásir vinstri flokkanna á þessa mikilvægu stoð í atvinnulífinu hefur á síðustu árum kostað samfélagið gífurlega fjármuni. Það er rétt að hafa í huga að starfsemi sjávarútvegsins miðast ekki eingöngu við rekstur útgerðafélaga. Á meðan óvissa ríkir í greininni halda útgerðarfélögin þó að sér höndum. Það þýðir að þau eru ekki að fjárfesta í nýjum skipum, veiðafærum, tækjum og margvíslegri þjónustu sem er í boði fyrir greinina hér á landi. Það leiðir af sér keðjuverkun sem þýðir aukinn samdrátt hjá þeim hundruðum fyrirtækja sem endar með uppsögnum og tilheyrandi erfiðleikum þeirra starfsmanna sem starfa í geiranum.
 
Forsvarsmenn núverandi, og vonandi fráfarandi, stjórnarflokka kalla þetta svartsýnisraul en þeir tugir og hundruðir einstaklinga sem fyrir þessu verða kalla þetta raunveruleika. Kjörtímabil þeirrar stjórnar sem kallar sig norræn velferðarstjórn hefur einkennst af átökum við bæði atvinnulíf og nú síðast við launþegasamtök. Þessu þarf að breyta. Ríkisvaldið þarf að styðja við bakið á atvinnuuppbyggingu í landinu en ekki að rífa hana niður. Kaldhæðnin í þessu öllu saman er sú að það er auðveldara fyrir stjórnmálamenn að starfa með atvinnulífinu en á móti því.
 
Það er misskilningur að halda því fram að stríðsástand á milli atvinnulífsins og stjórnvalda sé heimilunum til hagsbóta. Velferð heimilanna – um leið heimilisbókhaldsins – byggist á því að hér sé öflugt atvinnulíf. Sjálfstæðisflokkurinn mun verja heimilin í landinu og bæta hag þeirra með því að stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins. Fyrirtækin í landinu sem greiða vinnandi fólki laun um hver mánaðarmót þurfa að starfa í heilbrigðu umhverfi og án þess að sitja undir síendurteknum árásum frá ríkisvaldinu. Hér fara hagsmunir heimila og fyrirtækja saman. Við skulum taka okkur stöðu og verja hvort tveggja.
 
Höfundur er alþingismaður og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þann 26. janúar nk.
 
 
 
 
 
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.