Jólin eru eitthvað annað en kjólar og epli, eða kósíheit heima fyrir.

séra Guðmundur Örn skrifar jólahugvekjuna 2012

25.Desember'12 | 09:40
Þegar ég hóf nám í guðfræði man ég að amma mín heitin var ekkert sérstaklega upprifin yfir þeirri ákvörðun minni að fara í slíkt nám. Hún talaði um að svoleiðis lagað nýttist manni nú ekki vel og kristindómurinn væri varla svo flókið fyrirbæri að menn þyrftu að sitja inní skóla í fimm ár til að ná einhverjum áttum í þeim málum. Í hennar huga var kjarninn í kristinni trú einfaldur: “Komdu fram við aðra eins og þú villt að komið sé fram við þig.”
Oft áttum við langar og góðar samræður um boðskap trúarinnar og leyndardóma hennar, og hún minnti mig reglulega á að ég gæti nú alveg farið að snúa mér að einhverju öðru en þessari guðfræði, því mér væri nú þegar orðið fullljóst hver kjarninn væri í boðskap Jesú.
Það fór nú reyndar svo að hún sætti sig smám saman við að ég stundaði guðfræðinám, en lagði þá jafnan áherslu á að þó ég væri í guðfræði þá þyrfti ég ekkert að verða prestur. Ég skyldi bara klára þetta nám og snúa mér að einhverju þarflegra að því loknu.
 
 
En af hverju ætli ég sé að segja frá þessu? Jú þetta tengist nefninlega ólíkum upplifunum af jólahátíðinni.
 
Mínar minningar um jólin eru nánast undantekningarlaust góðar og bjartar. En þó eru sérstaklega ein jól sem standa uppúr í minningunni. Það eru jól sem fjölskyldan hélt annarsstaðar en venjulega, heima í sveitinni.
 
Þannig var að mamma var mikið veik og fór í miklar aðgerðir fyrir jólin. Um tíma leit út fyrir að hún kæmist heim fyrir jól. Þannig að við pabbi tókum okkur til og skreyttum allt heima fyrir hátt og lágt, þrifum og pússuðum og stóðum okkur svo sannarlega eins og hetjur þó ég segi sjálfur frá. En svo hrakaði mömmu og allar hugmyndir um útskrift hurfu út um gluggann. Það leit sem sé ekki út fyrir sérstaklega gleðileg jól í huga mínum, þar sem við pabbi myndum hýrast einir heima um jólin, þar sem í besta falli yrði hafragrautur á borðum í stað hins hefbundna lambalæris.
 
Staðan í sjúkrahúsinu var hins vegar sú að óvenjufáir sjúklingar voru inni yfir jólin, þannig að okkur pabba var boðið að vera þar yfir jólin og áramótin reyndar líka.
Ég ætla ekki að lýsa þeim vonbrigðum sem helltust yfir mig vegna þessarar stöðu.
En það undarlega gerðist þegar jólin gengu í garð, að ég upplifði jólin á alveg nýjan hátt. Ég meðtók boðskapinn, andann og gleðina yfir fæðingu frelsarans svo sterkt. Ég áttaði mig á því að jólunum verður hvorki troðið í pakka né elduð í ofni. Þau koma til okkar þegar við hlustum og nemum með hjartanu.
 
Amma sagði mér sögu frá einum jólum sem voru henni sérstaklega eftirminnileg. En amma mín ólst upp í mikilli fátækt hjá hjónum sem voru eins ólík og dagur og nótt. Fósturpabbi hennar var blíður og góður maður sem hún treysti mikið á í lífi sínu, en fósturmamma hennar algjör andstæða án þess að nánari skýringa á því sé þörf.
Einhver jólin var fátækum krökkum á Akureyri boðið til jólasamveru og ömmu var að sjálfsögðu líka boðið, en skilaboðin voru að börnin áttu að vera klædd í sitt fínasta púss, enda yrði farið í kirkju og presturinn myndi segja þeim sögu og svo var jafnvel einhver von til þess að allir krakkarnir fengju epli, sem var mikil munðarvara á þessum árum og tengdist jólunum með órfjúfanlegum hætti.
 
Tilhlökkun ömmu var gríðarleg, enda ekki á hverjum degi sem von var til þess að gæða sér á eplum. Hún sá í hendi sér að þessi jól yrðu algjörlega einstök og hún fengi að anda að sér hinum sanna jólaanda með alveg sérstökum hætti, og ekki skemmdi fyrir að presturinn ætlaði að gefa sér sérstakan tíma fyrir þessi börn sem annars nutu ekki óskiptrar athygli hinna geystlegu yfirvalda, sem presturinn klárlega tilheyrði á þessum árum.
 
Þegar til átti að taka þá var engin kjóll til handa ömmu fyrir jólasamveruna og fósturmamman neitaði að sauma einn slíkan á hana enda væri þeim peningum illa varið á slíka hengilmænu sem ekki gæti borið kjól eins og almenninleg manneskja. Niðurstaðan varð því sú að amma fór í buxum á samkomuna, sem var í raun ekki mikið betri kostur en að mæta hreinlega á nærfötunum. Hún lét sig þó hafa það, þó niðurlæginingin væri jú mikil. En þegar á staðinn er komið þá tekur presturinn á móti krökkunum og gerir miklar athugasemdir við klæðaburð ömmu, að láta sér detta í hug að mæta í buxum þegar jafn mikið liggi við og koma sjálfs frelsarans í heiminn. Slíkt sé algjörlega óhugsandi og ekki hægt að afsaka með fátæktarrökum, enda hún eina stelpan sem ekki sé í kjól.
 
Það sem í upphafi áttu að verða yndislegustu jól lífsins, breyttust í verstu jól í huga ömmu, enda send til baka með þeim orðum að hún væri ekki húsum hæf vegna kjólaleysis, auk þess sem buxurnar væru ekki einu sinni sparibuxur, heldur einhverjar gamlar og slitnar vinnubuxur.
Jólagleðin hvarf og epli fékk hún amma mín ekki þessi jólin.
 
Svona geta væntingar okkar brugðist um jólin, og það sem við treystum að sé gott og fallegt getur orðið að andstæðu sinni á einu augabragði. Alveg á sama hátt og vonbrigði og vonleysi geta umbreyst í gleði og von.
 
Þá er ég loksins komin að því sem ég talaði um í upphafi og snertir viðhorf ömmu minnar til guðfræði og presta. Hún leit aldrei á presta sem einhverja sjálfsagða talsmenn Guðs, sem kann vel að vera rétt niðurstaða hjá henni. Hún sá guðdóminn í öðrum hlutum en titlum og starfsheitum, hún sá Guð að verki í hinu sjálfsagða, í því sem enginn fær sérstakar heiðursmedalíur fyrir, í því sem skiptir líklega mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft: Í kærleikanum sem við berum hvert til annars.
 
Hún sá Guð í öðru fólki, hún sá Guð að verki í kraftaverkum lífsins, í hjálpsemi og samhygð, sem eru einmitt atriði sem við verðum nú sem aldrei fyrr að hafa í huga. Hún sá Guð í hinu smæsta í lífinu, í kraftaverkinu sem við verðum vitni að í nýfæddum börnum, varnarlausum og ósjálfbjarga, nákvæmlega eins og barnið sem lagt var í jötu við fátæklegustu aðstæður af öllum fátæklegum, í gripahúsi. Barn sem varðar okkur öll og minnir okkur um leið á við erum öll börn Guðs, öll jafn dýrmæt, öll jafn óendanlega mikilvæg í augum Guðs, og ættum að vera í augum hvors annars.
 
Væntingar okkar ömmu til þessara tveggja jóla voru ólíkar, og niðurstaðan svo sannarlega ekki í samræmi við það sem við höfðum búið okkur undir. Við ræddum jólin okkar einhverntíman löngu seinna og vorum sammála um að jólin væru eitthvað annað en kjólar og epli, eða kósíheit heima fyrir. Jólin koma annarsstaðar frá, þau eru gjöf til okkar frá Guði.
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%