Og hvað svo?

Guðmundur Þ. B. Ólafsson skrifar

21.Desember'12 | 10:14
Mikið er ég ánægður með umræðuna sem fylgdi í kjölfar birtingu á opnu bréfi mínu til Herjólfs í byrjun vikunnar, sem ég veit reyndar ekki fyrir víst hvort svarað hafi verið, en nóg um það.
Það sem verra er að ég er litlu nær, hvort yfirleitt verði siglt í vetur til Landeyjarhafnar. Einnig hefði mátt búast við, eftir alla þessa umfjöllun að vera nær um stöðuna varðandi lúkningu á endanlegri hafnargerð í Landeyjarhöfn og nýsmíði Herjólfs.
 
Ef eitthvað er hægt að lesa úr orðræðunni, varðandi siglingar í Landeyjarhöfn, þá virðast allir vera að bíða eftir öllum.
 Herjólfsmönnum blóðlangar að sigla í Landeyjarhöfn en gera ekki þrátt fyrir nánast dauðan sjó og norðan golu, sbr. upphafsdaga þessarar viku, eru að bíða, Siglingastofnun segir ekkert að höfninni, þurfi bara hentugra skip, Rannsóknarnefnd sjóslysa segir allt komið fram sem þeir hafi að segja um málið, skipið eða höfnin séu vandamálið nema hvorutveggja sé.
 
Er nema von að ég, leikmaðurinn á þessu sviði, sé litlu nær.
 
 
Til að freista þess að fá einhverja sýn á hvað sé framundan spyr ég, m.a. þar sem á fjárlögum ríkisins er um einn milljarður til hafnargerðar í Landeyjarhöfn og smíði á skipi:
 - Þar sem Eimskip telur illgerlegt að sigla Herjólfi í Landeyjarhöfn, er spurt, er verið að vinna að því að útvega hentugra skip til þeirra siglinga?
 - Hvaða hugmyndir hefur Siglingastofnun um endurbætur á Landeyjarhöfn til að hún gagnist sem heilsárs höfn og hvenær verða þær framkvæmdir boðnar út? Bent hefur verið á lengja þurfi garðana út á meira dýpi, er verið að vinna með slíkar hugmyndir?
 - Hver er staðan varðandi smíði á nýju skipi og hvenær má gera ráð fyrir að það verkefni verði boðið út?
 - Hersu stórt skip er verið að vinna með og hver er áætluð flutningsgeta?
 
 
Gjaldskrána hef ég einnig gert að umræðuefni og er verðlagningin kapítuli útaf fyrir sig.
Kjaftshögg, 10% hækkun um áramót hefur verið boðuð beint ofan í kröfu okkar Eyjamanna um lækkun á gjaldskrá og að okkur verði í það minnsta sýnd sú kurteisi að gjaldskráin fyrir siglingu á milli lands og Eyja takið mið af gjaldskrá til Landeyjarhafnar, minna má það ekki vera. Skora ég hér með á Eimskip að verða hið snarasta við þessari svo hóflegu og sanngjörnu ábendingu. Svar óskast.
 
 
 
Læt þetta nægja og vona að greinarskrif sem þessi heyri fortíðinni til, þar sem nauðsynlegum úrbótum í samgöngumálum okkar verði sem fyrst komið í það horf sem okkur ber, þjóðveg sem stendur undir nafni, við látum ekki bjóða okkur þetta ástand lengur, svo mikið er víst.
 
 
 
Vil nota tækifærið hér til að óska Vestmannaeyingum sem og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar í framtíðinni.
 
 
 
Með bestu kveðjum
 
Guðmundur Þ. B. Ólafsson
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.