Landeyjahöfn

Georg Eiður Arnarsson skrifar

25.Nóvember'12 | 08:30
Ekki góðar fréttir að Herjólfur hafi hugsanlega tekið utan í, en sem betur fer virðist það ekki hafa verið mikið og engin slys á fólki.
 
Fyrst það jákvæða:
 
Tíðin hefur verið með afbrigðum góð í allt sumar og haust, eða eins og einn eldri Eyjamaður sagði við mig um daginn, besta tíð í Eyjum síðan 1939. Ekki man ég alveg svo langt, enda ekki fæddur þá, en þetta er vissulega búið að vera mjög gott. Landeyjahöfn því opin, sem er bara frábært og nýtt met slegið daglega í fjölda ferðamanna til Eyja, sem er að sjálfsögðu fagnaðefni fyrir okkur öll.
Mér finnst líka að þjónustan hafi batnað verulega og er ánægður með það hvernig öll yfirstjórn samgöngumála okkar hefur stór batnað á þessu ári. Sjálfur hef ég oft bölvað því að þurfa að keyra lengri leið, en eftir því sem maður fer þetta oftar þá venst það. Allt saman bara jákvætt og gott og vonandi verður tíðin bara þokkaleg áfram, en ferðasumarið í Eyjum var frábært, en mig langar sérstaklega að taka fram hlut þeirra Rib safari manna, sem ég held að hafi haft mjög mikil og góð áhrif á ferðaþjónustuna í Eyjum, enda hafa þeir auglýst vel og rækilega um allt land og að sjálfsögðu þurfa allir sem koma til Eyja, hvort sem er til að fara með Rib safari eða PH Viking að nota aðra þjónustu.
 
Kaupmenn í Vestmannaeyjum ráku upp smá kvein í haust um að fólk væri farið að versla mun meira á höfuðborgarsvæðinu vegna þessarar góðu tíðar, en að sjálfsögðu er þetta einn af fylgihlutunum sem koma með Landeyjahöfn, ég held hins vegar að fólk gleymi stundum því að þó að úrvalið sé oft betra á höfuðborgarsvæðinu og í sumum tilvikum, hægt að finna hagstæðara verð, þá er það ekki alltaf og ég held að kaupmenn í Eyjum reyni nú að vera samkeppnishæfir og að sjálfsögðu kostar töluverða fjármuni að fara fram og tilbaka. Mín reynsla af kaupmönnum hér er sú, að ef mig vantar eitthvað sem ekki er til, þá er því einfaldlega flett upp í tölvunni og pantað samdægurs. Persónuleg og góð þjónusta það.
 
Það neikvæðasta er sennilega í nýjustu Fréttum, þar sem Siglingamálastofnun kemur enn einu sinni með fullyrðingar um að með nýrri ferju og endurbótum verði hún heilsárshöfn, en hafa verður í huga að útreykningar Siglingamálastofnunnar hafa hingað til að mestu leyti reynst rangar. Staðan er einfaldlega þannig, eins og kemur fram í ágætu viðtali við einn af skipstjórum Herjólfs frá því í haust, að fjaran er sífellt að færa sig suður meðfram hafnargörðunum og því augljóst að þegar vindáttir fara að verða suðlægar og austlægar mun sandburðurinn aukast enn frekar, en vonandi fara menn nú að koma með einhverjar lausnir á því.
 
Ég heyrði af því s.l. sumar að stjórnvöld væru búin að ákveða að setja 2 milljarða í Landeyjahöfn á þessu ári og annað eins á því næsta, nú er mér hins vegar sagt að þetta séu samtals 4 milljarðar og sé fyrst og fremst sú upphæð sem á að fara í að smíða nýja ferju og það ferju sem á fyrst og fremst að sigla í Landeyjahöfn og að í framtíðinni sé stefnt á að hætta öllum siglingum til Þorlákshafnar, svo ég ætla að segja þetta enn einu sinni:
 
Ég hef ekki trú á því að Landeyjahöfn geti orðið heilsárshöfn, hugsanlega 90% höfn og vonandi meira, en miðað við reynslu mína sem sjómaður sem stundað hef sjómennsku í kringum Eyjar í þessum mánuði í nkl. 25 ár, þá verður alltaf í hörðustu vetrarveðrunum ófært í Landeyjahöfn. Ef það væri hægt að minnka þessar frátafir niður í 4-6 vikur á ári og gera höfnina þannig að 90% höfn, þá væri það einfaldlega frábært. Hvort að það sé hinsvegar nóg fyrir okkur Eyjamenn er svo aftur stór spurning. Ný ferja verður að geta farið til Þorlákshafnar yfir hörðustu vetrar mánuðina .
 
Georg Eiður Arnarsson

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.