Ég er öfga hægrimaður

Helgi Ólafsson fyrsti varaformaður SUS skrifar

21.September'12 | 11:11
Verandi fæddur og uppalinn Eyjamaður hefur orðið öfga aðra – og öllu jákvæðari – merkingu í mínum huga en flestra. Á mínum sokkabandsárum notuðum við vestmannaeysku ungmennin orðið öfga á svipaðan hátt og jafnaldrar okkar á fastalandinu notuðu orðið ýkt eða slettuna mega. En þegar árin færðust yfir og málvitundin óx áttaði ég mig á þeirri merkingu sem almennt er lögð í það þegar talað er um öfga.
Þingmaður einhvers flokks (Borgarahreyfing, Hreyfing, Dögun eða hvað þetta „afl“ nú heitir) tók sig til í síðustu viku og lýsti Sjálfstæðisflokknum sem hægriöfgaflokki. En vildi þó af góðmennsku sinni vísa flokknum á – að sínum dómi – réttar brautir í komandi prófkjörum og á landsfundi. Á þær brautir kæmist flokkurinn með því að losa sig við hægriöfgamennina úr framvarðasveitinni. Ráðleggingar sem vísast koma frá dýpstu hjartarótum, enda hefur helsta baráttumál umrædds þingmanns alla tíð verið að auka virðingu og áhrif Sjálfstæðisflokksins.
 
Í umræðunni sem skapaðist um þessi ummæli fór ég að velta því fyrir mér hverjir þessir hægriöfgamenn væru. Hvað er að vera hægriöfgamaður? Er ég hægriöfgamaður?

Er frelsi í stað hafta og helsis öfgar?
Ef það eru öfgar að treysta einstaklingum betur til þess að taka ákvarðanir um eigið líf en embættis- og stjórnmálamönnum, þá er ég hægriöfgamaður.

Ef það eru öfgar að vilja að ríkið sé rekið eins og skynsamt heimili sem eyðir ekki meira en það aflar, þá er ég hægriöfgamaður.

Ef það eru öfgar að vilja færri og skýrari lög og reglur, sem auðveldara er að framfylgja, þá er ég hægriöfgamaður.

Ef það eru öfgar að treysta einstaklingum betur til þess að fara með fjármuni en embættis- og stjórnmálamönnum, þá er ég hægriöfgamaður.

Ef það eru öfgar að vilja að frelsi fylgi ábyrgð og að þeir sem njóti ávaxta frelsisins beri ábyrgð ef illa fer, en ekki skattgreiðendur, þá er ég hægriöfgamaður.

Ef það eru öfgar að kjósa frelsi í stað hafta og helsis, þá er ég hægriöfgamaður.

Hægri er ekki skammaryrði
Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að afneita stefnu sinni. Sjálfstæðismenn eiga ekki að skammast sín fyrir að vera hægrisinnaðir. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki færri öfluga og óhrædda talsmenn hægristefnunnar– heldur fleiri. Í komandi kosningabaráttu væri það versta sem sjálfstæðismenn gætu gert að fylgja ráðleggingum um val á stefnumálum og frambjóðendum frá þeim sem hafa alla tíð viljað áhrif Sjálfstæðisflokksins og hægristefnunnar sem minnst.
 
Þó þingmaðurinn ráðagóði og fleiri af hans sauðahúsi vilji reyna telja okkur trú um það, er hægristefna ekki af hinu illa. Jafnvel ekki öfga hægristefna, miðað við þann skilning sem hann virðist hafa á því hugtaki. Öfgar þurfa ekki alltaf að vera af hinu illa. Ekkert frekar í dag en í æsku minni í Eyjum. Þess vegna gríp ég til þess tungutaks sem ég lærði á mínum uppvaxtarárum og segi stoltur; ég er öfga hægrimaður og ég vil sjá öfga hægrimenn í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.

Helgi Ólafsson
Varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.